Þáttaröðin VIGDÍS og bíómyndin LJÓSVÍKINGAR styrkt af Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum

Þáttaröðin Vigdís í framleiðslu Vesturports og bíómyndin Ljósvíkingar frá Kvikmyndafélagi Íslands hlutu styrki úr Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum á dögunum.

Vigdís er þáttaröð sem lýsir því þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti árið 1980. Björg Magnúsdóttir og Ágústa Ólafsdóttir skrifa handrit. Ágústa er einnig framleiðandi fyrir Vesturport ásamt Rakel Garðarsdóttur. Björn Hlynur Haraldsson og Tinna Hrafnsdóttir leikstýra. Nína Dögg Filippusdóttir fer með aðalhlutverkið. Þáttaröðin hlaut um 32 milljónir króna frá Norræna sjóðnum. Kvikmyndamiðstöð styrkir einnig verkefnið sem og RÚV. Tökur hefjast á næsta ári.

Ljósvíkingar eftir Snævar Sölvason segir af tveimur félögum sem opna veitingastað, en þegar annar kemur út sem transkona reynir á sambandið. Snævar og Veiga Grétarsdóttir skrifa handrit. Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson framleiða fyrir Kvikmyndafélag Íslands. Verkefnið, sem er í tökum, fékk um 23 milljónir frá Norræna sjóðnum. Kvikmyndamiðstöð styrkir einnig verkefnið. Stefnt er að frumsýningu vorið 2024.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR