spot_img

Frumvarp um sjóð fyrir leikið sjónvarpsefni lagt fram aftur

Menningarmálaráðherra hefur lagt fram að nýju frumvarp um breytingu á kvikmyndalögum, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir nýjum styrkjaflokki vegna stærri þáttaraða.

Skoða má frumvarpið hér.

Segir á vef Stjórnarráðsins:

Lilja Dögg Alfreðsdóttir mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001. Um er að ræða endurflutning frá því á síðasta löggjafarþingi.

Breytingarnar sem ráðherra mælti fyrir fela einkum í sér að lagt er til að komið verði á laggirnar nýjum styrkjaflokki innan Kvikmyndasjóðs. Styrkjaflokknum er ætlað að veita styrki til umfangsmikilla sjónvarpsþáttaverkefna með skilyrðum um endurheimt þeirra að hluta, nái verkefni ákveðnu tekjumarki.

Er þessi tillaga í samræmi við áherslur og aðgerðir í kvikmyndastefnu til ársins 2030. Miðar þetta að því að stuðla að fjölbreyttri kvikmyndamenningu sem styrki sjálfsmynd þjóðarinnar og efli íslenska tungu.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að kveðið verði á um varðveislu kvikmyndaarfs á Íslandi, kvikmyndafræðslu, hámarksskipunartíma forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands og gjaldskrárheimild safnsins. Að auki er lagt til að ákvæði þess efnis að í reglugerð verði kveðið á um meginskiptingu fjárveitinga Kvikmyndasjóðs milli einstakra greina kvikmyndagerðar falli brott í núverandi mynd og horft verði til þess að annað fyrirkomulag verði tekið upp.

Eitt af markmiðum kvikmyndastefnunnar er að byggja sterkara sjóðakerfi sem styður við fjölbreyttari kvikmyndamenningu. Nýja styrkjaflokknum er ætlað að koma til móts við nýja tíma sem einkennast af hröðu þróunar- og fjármögnunarferli verkefna og er ætlað er að ýta undir framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða að fyrirmynd Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins.

„Ég tel að hér sé um mikið framfaramál að ræða, í samræmi við kvikmyndastefnuna, og að með þessum breytingum á styrkjakerfi Kvikmyndasjóðs séum við að stuðla að enn styrkari umgjörð íslenskrar kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar ,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR