„Stella Blómkvist“ sögð gera Nordic Noir sjóðheitt á ný

Heiða Rún Sigurðardóttir (Heidi Reed) sem Stella Blómkvist. (Mynd: Sagafilm)

Sænska vefritið Moviezine fjallar um þáttaröðina Stellu Blómkvist sem sýnd er á Norrænum kvikmyndadögum í Lubeck. Blaðamaðurinn, Alexander Dunerfors, segir Stellu vera allt það sem hann telji litlu systur Sögu Norén úr Brúnni eiga að vera; óttalausa, klára, þokkafulla, óvenjulega og klækjakvendi þegar þarf.

Dunerfors segir ennfremur:

„Hún fer kannski ekki í sjónvarpssöguna sem flóknasta eða best skrifaða persónan en sjálfstraust hennar er til fyrirmyndar. Hún höndlar það vel að gera sig gildandi í karlaheimi. Stella er kjaftfor, keðjureykjandi og stundar kynlíf að vild – svona persóna er venjulega túlkuð af karlmanni. En umfram allt ber hún gott skynbragð á aðstæður og svo er hún löglærð að auki og þetta gerir hana að hættulegum andstæðingi.“

Dunerfors segir söguheiminn meðvitað ýktan og að það sé fersk nálgun og fjarri hinu kalda og dökka útliti hefðbundinna norrænna spennuþátta.

Hann segir loks:

„Stella Blómkvist er svöl og skemmtileg glæpasería sem fær jafnvel þá sem eru orðnir hundleiðir á löggusögum til að vakna. Frásögnin er hröð og verður aldrei leiðinleg. Það er ekki síst að þakka Heiðu Reed.“

Sjá nánar hér: Icelandic „Stella Blomkvist“ makes Scandi-noir hot again | MovieZine

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR