RÚV kynnir breytt skipulag, þrjár nýjar stöður auglýstar

(Mynd: RÚV)

RÚV kynnti á dögunum uppfært stjórnskipulag sem ætlað er að styrkja dagskrárþróun, framleiðslu og stafræna miðlun. Þrjár nýjar stöður hafa verið auglýstar í tengslum við þessar breytingar.

Á vef RÚV segir um þessar skipualgsbreytingar:

Markmið breytinganna er fyrst og fremst að gera RÚV betur í stakk búið til að efla stafræna og ólínulega þjónustu við nútímafólk. Stafræn þróun og þjónusta er byggð inn í kjarnastarfsemi allra dagskrársviðanna í stað þess að vera í sérdeild eins og verið hefur.

Kraftmikið teymi dagskrárgerðarfólks verður til á nýju sviði,  „Númiðlun – Rás 2“, sem sinnir jöfnum höndum síkvikri dagskrárgerð á vef, í útvarpi og á samfélagsmiðlum. Áherslan er á unga fólkið og á að vera alltaf á staðnum með fólki í dagsins önn. RÚVnúll, ný þjónusta fyrir ungt fólk, og samfélagsmiðlar verða einnig á þessu sviði.

Þá verður til nýtt framleiðslusvið þar sem við byggjum upp einfalda og sterka framleiðslueiningu til að framleiða hágæðadagskrárefni fyrir RÚV og bæta þjónustu við sjálfstæða framleiðlendur og aðra fjölmiðla með samframleiðslu og útleigu til þeirra í auknum mæli. Hingað til hafa framleiðsludeildir verið á ólíkum sviðum inni í starfsemi RÚV.

Dagskrársviðin eru styrkt með nýrri stöðu, framkvæmdastjóra miðla, sem veita mun liðsstyrk við samninga- og áætlanagerð, birgðastýringu og daglegan rekstur enda hefur RÚV stóraukið þátttöku sína í framleiðslu stórra leikinna sjónvarpsverkefna sem kallar á lengri þróunarferli og flóknari samningagerð en áður.

Sjálfstæði fréttastofunnar er einnig formfest með enn skýrari hætti í nýju skipuriti sem og skilin milli dagskrárstjórnar og framkvæmdastjórnar RÚV. Formföst dagskrárstjórn fer með óumdeilt dagskrárvald og samhliða fækkum við í framkvæmdastjórninni sjálfri.

Þá hefur verið auglýst eftir umsóknum um þrjár nýjar stöður; framkvæmdastjóra miðla, dagskrárstjóra Númiðlunar og Rásar 2 og framkvæmdastjóra framleiðslusviðs. Umsóknarfrestur er til og með 12. nóvember. Nánari upplýsingar um störfin, starfssvið og hæfniskröfur, má finna hér.

Sjá nánar hér: Öflugra og skarpara RÚV – til framtíðar

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR