spot_img

RVK Studios óskar eftir endurupptöku vegna endurgreiðslu til “Ófærðar”

Forsvarsmenn RVK Studios, framleiðslufyrirtækis Baltasars Kormáks, hafa óskað eftir endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar varðandi endurgreiðslumál sjónvarpsþáttanna Ófærðar. Yfirskattanefnd féllst ekki á að vaxtagreiðslur vegna láns upp á tíu milljónir og erlendur kostnaður upp á rúmar fimm milljónir yrðu hluti af endurgreiðslunni.

RÚV greinir frá, en á vef þess segir meðal annars:

Magnús Viðar Sigurðsson hjá RVK Studios segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að upphaflega hafi verið óskað eftir endurgreiðslu upp á rúmar 239 milljónir. Hann segir að nokkur verkefni fari á hverju ári í frekari skoðun hjá ráðuneytinu, Ernst & Young hafi gert skýrslu að beiðni ráðuneytisins þar sem athugasemdir hafi verið gerðar við nokkra liði.

Eftir að forsvarsmenn RVK Studios útskýrðu kostnaðinn og færðu fyrir honum rök var fallist á kröfu þeirra og meirihluti þess kostnaðar sem hafði verið hafnað var samþykktur.

Þetta var meðal annars gengistap Sagnar ehf sem framleiddi Ófærð en það nam rúmum 62 milljónum, samkvæmt skýrslu Ernst & Young. Sögn fékk ekki greiddan sýningarrétt og framlög erlendra meðframleiðenda fyrr en öllum tökum á Ófærð var lokið en þá hafði gengi krónunnar, sem Sögn notaðist við í upphaflegri kostnaðaráætlun, hækkað töluvert.

Í skýrslunni var því einnig velt upp hvort matarkostnaður upp á 20 milljónir og kostnaður við flug og gistingu upp á 25 milljónir ættu að vera hluti af endurgreiðslunni. Magnús Viðar segir þetta tvennt hafa verið hluti af endanlegri endurgreiðslu.

Hann segir að RVK Studios hafi jafnframt óskað eftir endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar. „Fyrst og fremst til að fá skýrari leiðbeiningar fyrir næstu verkefni þ.e. hvaða kostnaður telst réttilega til stofns til endurgreiðslunnar.“

Sjá nánar hér: Óska eftir endurupptöku vegna Ófærðar

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR