Húskarlavíg í Hvassaleitinu: rætt við Huldar Breiðfjörð handritshöfund „Undir trénu“

Huldar Breiðfjörð (Mynd: Sigtryggur Ari/DV)

DV ræðir við Huldar Breiðfjörð um handritið að Undir trénu sem hann skrifaði ásamt Hafsteini Gunnari Sigurðssyni og hugmyndirnar bakvið það.

Í viðtalinu segir meðal annars:

„Þegar svona hugmynd hefur fæðst þá fer maður að rekast á hana hér og þar, taka eftir henni úti um allt. Við vorum nýkomnir úr námi erlendis og sáum íslenskt samfélag að vissu leyti með nýjum augum. Við urðum fljótlega frekar uppteknir af því hvað allt var logandi í deilum í samfélaginu, nágrannaerjur voru reglulega að blossa upp í fjölmiðlum og það voru forræðisdeilur víða í kringum okkur. Þetta voru ágengar deilur frekar en einhverjar gæfulegar rökræður.“

Má ekki segja að deilurnar í myndinni séu að miklu leyti til komnar vegna þess að það er ekki tekist á við vandamálin, það er ekki talað um þau og ekki unnið úr áföllum – þannig að í raun ganga þau aftur og ásækja fólk?

„Jú, ef málin eru ekki kláruð almennilega þá hafa þau tilhneigingu til að koma hressilega til baka. Þess vegna er slæmt hvað við erum oft léleg í að vera ósammála og rökræða málin. Maður sér þetta til dæmis núna þegar styttist í kosningar, við erum alltaf í einhverri heift. Þetta er allt önnur menning en til dæmis í Englandi þar sem það er mikið sport að rökræða, fara í fínlegar skylmingar með kjaftinum. Hérna heima förum við frekar í að fella manninn og stinga beint í hjartað – bara eins í Íslendingasögunum,“ segir Huldar.

„Það er eflaust hægt að yfirfæra umræðuna á Facebook jafnt sem Alþingi á myndina. Ég held því bara opnu fyrir áhorfendur fyrir hvað tréð stendur fyrir, þeir geta ákveðið sjálfir hverju þeir vilja skipta trénu út fyrir.“

Huldar segir það hafa verið flókið að koma inn öllum þeim sögum og vinklum sem þeir vildu í þröngt form kvikmyndahandritsins en það hafi þó hjálpað að hafa tréð sem þungamiðju í verkinu. Hann segir að fyrir hann persónulega hafi þó verið erfiðast að skrifa senur þar sem mamman, leikin af Eddu Björgvinsdóttir, var atkvæðamikil. „Það er svo mikill tregi og harmur í kringum þessa persónu. Eftir að ég var búinn með sumar senur með henni var ég alveg búinn á því. Að sama skapi var ótrúlega gefandi að vinna með hana og gaman að skapa svona sterka kvenpersónu. Svo tóku leikstjórinn og Edda þetta náttúrlega upp á annað „level“.“

Handritshöfundar ættu að lesa Íslendingasögurnar

Huldar segir það hafa verið skemmtilega upplifun að fylgjast með áhorfendum á frumsýningunni engjast um á myndinni enda er húmorinn oft kaldur og nístandi: „Maður heyrir það á hlátrinum að myndin færir fólk mjög hressilega úr stað. Þegar líður á hana fer að koma fram eitthvert taugaveiklunarfliss sem er allt að því óviðeigandi. Þá veit maður að myndin er farin að skrúfa sig inn í fólk.“

Hann segir að markmiðið hafi fyrst og fremst verið að skrifa dramatíska mynd og þó að hinir kómísku undirtónar séu vissulega í handritinu hafi það verið leikstjórnarleg ákvörðun Hafsteins Gunnars að draga fram hinn sótsvarta húmor í myndinni. „Okkur langaði alltaf til að gera svolítið dramatískari og átakameiri sögu en við höfðum áður gert, til dæmis í lokaverkefni Hadda í New York, í sjónvarpsseríu sem við höfðum skrifað saman og París norðursins. Það sem ég gerði á meðan ég var að skrifa handritið var að leggjast svolítið yfir Íslendingasögurnar. Þar erum við með 40 sögur sem fjalla margar að miklu leyti um nágrannaerjur. Það er til dæmis hægt að benda á Eyrbyggju eða húskarlavígin í Njálu. Þar er líka áberandi hvað deilurnar eru oft ótrúlega slóttugar og andstyggilegar – hvað karakterarnir ganga langt og beita illkvittnislegum aðferðum til að koma hinum aðilanum úr jafnvægi. Í harmrænunni allri í Íslendingasögunum er því líka mjög svartur tónn og ég held að hann hafi að einhverju leyti skilað sér inn í handritið.“

Það er áhugavert að þú hafir sótt innblástur fyrir þessa nútímalegu úthverfasögu í Íslendingasögurnar. Er það efniviður sem ætti oftar að geta verið kvikmyndagerðarmönnum samtímans innblástur?

„Já, almennt séð er mjög gagnlegt fyrir handritshöfund að lesa Íslendingasögur vegna þess að þar er frásögnin yfirleitt mjög myndræn – og það er einmitt eitt af því sem handritshöfundar þurfa að ná fram. Líkt og í kvikmyndum ferð þú aldrei inn í hausinn á persónunum í Íslendingasögunum, þetta liggur allt í atburðarásinni – atvikum eða samtölum. Ég held að í þessi tilviki hafi ég hins vegar aðallega sótt í átökin, dramað og deilurnar – og svo sótti ég kannski einhvern kraft í þær.“

Sjá nánar hér: Húskarlavíg í Hvassaleitinu – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR