spot_img

“Fjallkóngar”: Landssýn í lifandi myndum

„Ég á ekki landið, landið á mig,“ segir Heiða á Ljótarstöðum í Fjallkóngum.

“Í Fjallkóngum er fjallað um venjulegt fólk og það sem meira er, það er gert með hlýju og nærgætni. Þá er efninu miðlað með óvenjulegri djörfung miðað við form sambærilegra mynda undanfarin ár og áratugi,” skrifar Björn Þór Vilhjálmsson lektor í kvikmyndafræði meðal annars í ítarlegri greiningu um heimildamyndina Fjallkónga.

Björn Þór skrifar m.a.:

Í Fjallkóngum er náttúran ekki blætisgerð, eins og löng hefð er fyrir að gera í íslenskum kvikmyndum, og er þar átt við að sýna hana að því er virðist að tilefnislausu (nokkru sem líkja má við náttúruklám) eða það að náttúran er látin drottna yfir frásögninni og áskapa henni um leið viðbótarmerkingu, tákna upphafið skynsvið eða handanbláma djúpspekinnar; miðla merkingu sem frásögnina kann í einhverjum skilningi að skorta. Náttúrunni er með öðrum orðum ekki umbreytt í frásagnarlegu klisjuna sem Birna Bjarnadóttir hefur lýst sem eins konar lögmáli í hérlendri kvikmyndagerð:

Ægivald náttúru landsins trónir yfir sköpun innra lífs. Helsta birtingarmynd þessa lögmáls er skugginn sem náið samband tökuvélar og náttúru landsins framkallar, skuggi sem hvílir oftar en ekki yfir til tilfinningalífi persóna. Í stuttu máli líða persónur og áhorfendur innri skort meðan gælt er við skynlausa náttúruna.³

Í tilvikunum sem Birna vísar í er náttúran látin sjá um að „framsetja“ innra líf persóna, jafnvel „skapa“ það með tilfærslu á merkingarlegri hleðslu stórbrotinnar náttúrusýnar, og á það jafnt við frásagnarmyndir og heimildarmyndir. Slík stílbrögð eru í grunninn tilraun til að virkja stórt og mikið mengi hugmynda eða skynhrifa (gæti eins verið kenningakerfi, trúarbrögð eða hugtök eins og „frelsi“, gullöldin“, „náttúrulegt líf“ eða „móðurjörðin“) og sjást oft og tíðum. Japanski rithöfundurinn Haruki Murakami hefur til að mynda áratugum saman leitast við að láta lágstemmda og óljóst ívísaða handanheimatilvist virka sem merkingarþrungið táknmið sagna sinna, með sífellt dvínandi árangri. Michelangelo Antonioni afhenti eyðilegu svart hvítu landslagi prókúru fyrir persónusköpun í myndum sínum í allmörg ár og hugvísindafólk virðist stundum halda að heimildatilvísun sé rökstuðningur, einkum ef vísunin er í stórt kenningakerfi. Allt ber þetta að sama brunni, eitthvað skortir, maður styttir sér leið.

Í fyrstu gæti mynd Guðmundar virst augljós kandídat í sögulegan og hugmyndalegan flokk lista– og hugverka sem blætisgera náttúruna (eða stór hugmyndakerfi) sem staðgengil fyrir inntak eða merkingu. Svo er þó ekki, eða svo fer ekki. Til þess er form kvikmyndarinnar of markvisst og áhugi á innra lífi þeirra sem fylgst er með of einlægur, innra lífi þess sem og venslum og samböndum. En áður en lengra er haldið gæti verið gagnlegt að huga örlítið að ákveðnum grunneigindum heimildarmyndaformsins – og því hversu gæfusamur Guðmundur Bergkvist reyndist í vissum skilningi vera við gerð myndarinnar.

Greinina í heild sinni má lesa hér: Landssýn í lifandi myndum | Hugrás

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR