„Pabbahelgar“: Blákaldur íslenskur raunveruleiki

Sýningar á þáttaröðinni Pabbahelgar eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur hefjast á RÚV á sunnudagskvöld, 6. október. Morgunútvarp Rásar 2 spjallaði við Nönnu Kristínu og Huldar Breiðfjörð sem einnig semur handrit ásamt Sólveigu Jónsdóttur. Zik Zak framleiðir þættina.

Á vef RÚV segir:

„Það sem ég fékk mest að heyra var að þetta væri hressandi og raunverulegt, engin glansmynd,“ segir Nanna Kristín Magnúsdóttir sem leikur aðalhlutverkið auk þess að skrifa handritið ásamt Sólveigu Jónsdóttur og Huldari Breiðfjörð, en upphafsþátturinn var forsýndur í Bíó Paradís í gær. „Það var það sem ég lagði upp með fyrir sjö árum síðan þegar ég fékk þessa hugmynd, þannig að ég var mjög sátt.“ Henni hafi verið bent á að það gæti verið sniðugt að hafa karlmann í handritsteyminu svo hún fór að velta fyrir sér hvern. „Huldar hafði fengið gagnrýni fyrir að vera of góður að koma krísu miðaldra karlmanna á tjaldið. Þannig ég hugsaði „já, ég fæ þann besta!“ Svo langaði mig líka í yngri kvenmannsrödd þannig ég fékk rithöfundinn Sólveigu Jónsdóttur.“

„Þetta er blákaldur íslenskur raunveruleiki,“ heldur Nanna Kristín áfram. „Þegar maður gengur í gegnum skilnað fer veröldin á hvolf. Það skiptir ekki máli hvaða dagur er eða í hvað fötum þú ert, þú setur upp andlit. Mér fannst þess vegna spennandi að sýna hvernig við erum þegar við erum ein. Það eru margar senur á klósettinu til dæmis.“ Huldar segir að þetta hafi verið mjög skemmtileg bón, að skrifa einn þátt inn í þennan ramma. „Þetta var svo kunnuglegt og allt í kring, maður upplifir reglulega að það sé skilnaðarfaraldur að ríða yfir borgina.“ Nanna Kristín hefur í auknum mæli snúið sér að kvikmyndagerð eftir að hún hætti í Þjóðleikhúsinu þar sem hún var fastráðin. „Ég elska vera á sviði. En ég á stóra fjölskyldu og leikhúsið er ekki mjög fjölskylduvænt. Ekki það að kvikmyndagerð sé níu til fimm, en það er meira eins og að fara á sjóinn.“

„Mikið af þessu var til á eigin lager,“ segir Huldar Breiðfjörð um efnið  sem hann hafði úr að moða. „Það eru allir að skilja í kringum mann, maður er búinn að eiga þessi samtöl við vini og fara í gegnum þetta sjálfur. Nanna bað mig í þættinum sem ég skrifaði að vera dálítið karlamegin, þannig ég þurfti ekkert að gera mikið meira en að hringja í félagana og rifja upp gömul sambandsslit til að koma mér af stað.“ Það sé þó mikil jafnvægislist að slá rétta tóninn milli gamans og alvöru.

Nanna er óhrædd í þáttunum við að sýna persónuna sem hún leikur, líkama hennar, klæðaburð og ásjónu, á augnablikum sem fæstir vilja að umheimurinn viti af. „Sem leikstjóri og handritshöfundur langaði mig svo mikið að sýna konu á þessum aldri, í kringum fertugt og búin að eignast þrjú börn, þá er líkaminn ekki eins þegar þú ert 18. Sem leikkonu fannst mér þetta erfitt, og þar sem ég leikstýri sjálfri mér var leikstjórinn og leikkonan stundum ósammála. En ég er með meðleikstjóra, Martein Þórsson, einmitt út af þessu, ég þyrfti annað auga því ég leik mikið sjálf.“ Það verði líka oft að bíta á jaxlinn og leika atriðin þó þau séu óþægileg, kvikmyndagerð sé svo dýrt listform þar sem hver einasta mínúta kosti mikla peninga. „Á setti, þó það séu kynlífssenur, nektarsenur eða gyrða niðrum sig á klósettinu, þá verðurðu bara að gera þetta. Þú hefur engan tíma til að hlaupa út í húsbíl til að anda, það er enginn húsbíll.“

Nanna er stolt af þáttunum og ánægð með viðtökurnar sem hún fékk á frumsýningunni. „Aðaláhyggjurnar eru börnin mín, þar sem ég er á sundbol á strætóskýlum út um allt. Svo leika synir mínir í þáttunum, en hvorugur þeirra mátti koma á sýninguna í gær þar sem þetta er bannað börnum innan 16 ára. Dóttir mín sagði, þú ert svo flott. Og 12 ára drengurinn minn sagðist vera sjúklega stoltur af mér.“

Sjá nánar hér: Appelsínuhúð og andremma í kynlífi

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR