Rás 1 um „Síðasta haustið“: Rómantískur tregi

Gunnar Theódór Eggertsson fjallar um Síðasta haustið eftir Yrsu Roca Fannberg í Lestinni á Rás 1 og segir hana meðal annars listilega vel smíðaða heimildamynd.

Gunnar skrifar:

Síðasta haustið er listilega vel smíðuð heimildamynd. Leikstjórinn Yrsa er greinilega með næmt auga og í samvinnu við myndatökumanninn Carlos Vásquez Méndez ná þau fram mörgum eftirminnilegum og ljóðrænum skotum úr sveitalífinu, án þess þó að falla ofan í óþarfa náttúrumyndir eða einhvers konar ferðamannasýn.

Leikstjórinn eyddi miklum tíma með fólkinu á bænum og sú vinna skilar sér í lokaútkomunni. Myndin er tekin upp á filmu og augljóst að sparlega hefur verið farið með efni, hver sena úthugsuð og vandlega samansett. Filman er líka hluti af tímaflakki myndarinnar, en leikstjórinn blandar saman fortíð og nútíð á áhugaverðan hátt, bæði í gegnum efnistökin – að segja frá hverfandi lifnaðarháttum sem þó lifa enn í þjóðinni – en líka í gegnum form myndarinnar og framsetningu, til dæmis með ferningslaga myndramma, en ekki víðmynd, og með filmunni, sem ljær verkinu fallega gamaldags blæ.

Á köflum gæti maður auðveldlega haldið að myndin gerðist alfarið á áratugum áður, en svo treður nútíminn sér inn á ýmsa og oft hressandi vegu, eins og þegar krakkarnir ræða ofurhetjumyndir á meðan þeir tálga spýtur niðri við sjó, eða þegar útvarpið ræðir spjaldtölvur, snjalltæki og breytta tíma á meðan tíminn virðist standa í stað inni á bænum. En tíminn stendur ekki í stað, heldur fer í endalausa hringi, og hringrásin er eitt meginþema verksins. Þetta er kunnuglegt efni, vissulega, og kannski ekki mikið sem kemur á óvart í myndinni, en efnið er framsett á grípandi hátt og af mikilli kostgæfni. Gamall og nýr heimur opnast þarna samtímis, hefðum og gömlum þjóðháttum gerð skýr skil, ásamt vanafestunni í sambandi okkar við húsdýrin. Gæludýrin hafa sín nöfn og fá sitt pláss, en hlutgerving búfjárins birtist þarna ekki síður, meðal annars í einkar eftirminnilegri smölunarsenu þar sem nafnlausar kindurnar fá að taka yfir myndina í skamma stund og minna á að saga síðasta bóndans er ekki síður saga um alidýrin sem honum fylgja.

Ákveðinn rómantískur tregi svífur yfir Síðasta haustinu, en annars snýst myndin fyrst og fremst um að fanga lifnaðarhætti sveitarinnar á skýran og listrænan hátt og það gerir hún vel.

Sjá nánar hér: Uppvakningar og hverfandi lifnaðarhættir

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR