„Undir trénu“ til Toronto

Selma Björnsdóttir í Undir trénu.

Undir trénu Hafsteins Gunnars Sigurðssonar hefur verið valin til þátttöku á Toronto kvikmyndahátíðinni í Kanada. Myndin mun taka þátt í Contemporary World Cinema hluta hátíðarinnar. Hátíðin fer fram frá 7. til 17. september.

Nýverið var tilkynnt um heimsfrumsýningu á Undir trénu í Orrizonti keppni kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum, sem fer fram 30. ágúst – 9. september.

Myndin verður frumsýnd hérlendis þann 6. september.

Undir trénu fjallar um Agnesi sem grípur Atla við að horfa á gamalt kynlífsmyndband, hendir honum út og meinar honum að umgangast 4 ára dóttur þeirra. Atli flytur inn á foreldra sína sem eiga í deilu við fólkið í næsta húsi. Stórt og fagurt tré sem stendur í garði foreldranna skyggir á garð nágrannanna, sem eru orðnir langþreyttir á að fá ekki sól á pallinn. Á sama tíma og Atli berst fyrir umgengni við dóttur sína verður deilan um tréð sífellt harðari. Eignaspjöll eru framin og gæludýr hverfa á dularfullan hátt þegar sögusagnir um mann með keðjusög fara á kreik.

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson (Á annan veg, París norðursins) leikstýrir myndinni og skrifar handritið ásamt Huldari Breiðfjörð. Framleiðendur myndarinnar eru Grímar Jónsson, Sindri Páll Kjartansson og Þórir Snær Sigurjónsson fyrir hönd Netop Films á Íslandi og erlendir meðframleiðendur koma frá Danmörku, Póllandi og Þýskalandi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR