Norrænar þáttaraðir ferðast vel milli Norðurlandanna, Íslendingar horfa mest á norrænt efni

Út er komin skýrsla á vegum Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins sem fjallar um áhorf og dreifingu norrænna sjónvarpsþátta innan Norðurlandanna. Petri Kemppinen, framkvæmdastjóri sjóðsins, segir skýrsluna sýna að margar norrænar þáttaraðir ferðist vel milli landa og að dagskrártími og markaðssetning skipti gríðarlegu máli. Ófærð fékk almennt gott áhorf á hinum Norðurlöndunum og Íslendingar eiga metið í áhorfi á norrænar þáttaraðir.

Þetta er í fyrsta sinn sem skýrsla af þessu tagi er tekin saman. Hér að neðan má sjá lista úr skýrslunni yfir áhorf á Ófærð í hverju Norðurlandanna fyrir sig, sem og lista yfir áhorf á norrænar þáttaraðir á Íslandi.

21 þáttaröð var í úrtakinu; 1864, Dicte, Bedrag, Mord uden grænser, Norskov og Badehotellet frá Danmörku, Sorjonen/Bordertown og Tellus frá Finnlandi, Ófærð frá Íslandi, Frikjent, Lilyhammer, Nobel, Okkupert, Kampen om tungtvannet og Tredje Øyet frá Noregi, Blå Ögon, Jordskott, Midnattssol, Modus, Springfloden og Brúin frá Svíþjóð.

Lykilniðurstöður eru eftirfarandi:

  • Þáttaraðir njóta mjög mismunandi áhorfs milli syrpna og landa vegna mismunandi smekks áhorfenda í hverju landi og ólíkrar nálgunar við dagskrártímaröðun. Áhorf á þáttaröð á heimavelli er ávallt hærra en í nágrannalöndum.
  • Áhorfendur á þáttaraðir utan heimalands eru að meirihluta konur með góða menntun.
  • Áhorfsvenjur eru að breytast hratt, hliðrað áhorf (net ofl.) er um 11% af heildaráhorfi en línulegt sjónvarp er þó enn lang sterkast.
  • Finnar flytja inn minnst af norrænum þáttaröðum og flytja einnig minnst út af eigin efni.
  • Mesta áhorf á bæði heimaefni og annað norrænt efni er á Íslandi.
  • Danir og Svíar vilja helst heimagert efni en Norðmönnum er nokk sama hvaðan gott kemur.
  • Fimm vinsælustu þáttaraðirnar yfir öll Norðurlöndin eru þriðja syrpa Brúarinnar (meðaláhorf 3.5m), önnur syrpa Brúarinnar (3,2m), Kampen om tungtvannet (3m), Dicte (2.9m) og Badehotellet (2.4m).
  • Vinsælustu þáttaraðirnar á heimavelli eru Badehotellet í Danmörku (64% hlutdeild* á TV2), Sorjonen/Bordertown í Finnlandi (31% hlutdeild á YLE), Ófærð á Íslandi (87% hlutdeild á RÚV), Kampen om tungtvannet í Noregi (64% hlutdeild á NRK) og Brúin S3 í Svíþjóð (40% hlutdeild á SVT).

*Með hlutdeild er átt við hlutfall þeirra sem voru að horfa á sjónvarp á hverjum tíma.

Áhorf á Ófærð

Í skýrslunni segir um Ófærð:

„Á Íslandi naut Ófærð gríðarlegs áhorfs, en um 150 þúsund manns horfðu reglulega á þáttinn, sem þýðir að aðeins 13% áhorfenda horfðu á annað. Í Noregi var Ófærð með 28% hlutdeild sem skilgreinist sem einstaklega gott áhorf á erlent sjónvarpsefni. Í Danmörku telst 12% hlutdeild há miðað við aðra norræna þætti í úrtakinu. Í Finnlandi var hlutdeildin 10% og í Svíþjóð 14%.

Ófærð var sýnd á megin ríkissjónvarpsrásunum á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð. Nokkuð einkennilegt er hversu þáttaröðin gekk afar vel í Noregi en ekki vel í Svíþjóð. Í Danmörku og Finnlandi var þáttaröðin sýnd á hliðarrásunum DR2 og YLE fimm, en þar gekk hún mjög vel í öllum samanburði.“

Í athugasemd frá SVT segir:

„Einn þáttur sem virðist hafa virkað mjög vel fyrir alla aðra var Ófærð. Ég veit ekki nákvæmlega hversvegna þættirnir gerðu sig ekki á SVT1, en það hlýtur að hafa eitthvað að gera með tungumálið.“

Áhorf á Ófærð á Norðurlöndunum

(Smelltu á myndina til að stækka)

Áhorf á Íslandi á norrænar þáttaraðir

Í skýrslunni segir ennfremur um áhorf á Íslandi á norrænar þáttaraðir:

„11 af 21 þáttaröð sem eru í úrtakinu hafa verið sýndar á Íslandi, sem er minna en á hinum Norðurlöndunum. Þáttaraðirnar voru allar sýndar á RÚV. Hinsvegar nutu þær allar hárrar áhorfshlutdeildar, allt frá 44% hlutdeild (1864) til 87% hlutdeildar (Ófærð).

Ófærð er eina íslenska þáttaröðin í úrtakinu og fékk hún einnig mest áhorf eða 149 þúsund áhorfendur. Áhorfshlutdeild Mord uten grænser og Brúarinnar er á svipuðum slóðum en hafa verður í huga að þeir þættir eru sýndir seint á kjörtíma og því er áhorfendafjöldi minni, eða um 50 þúsund. Engar finnsku þáttaraðanna voru sýndar á Íslandi. Ekki er sjáanlegt að íslenskir áhorfendur geri upp á milli þáttaraða frá Danmörku, Noregi eða Svíþjóð.“

Áhorf á norrænar þáttaraðir á Íslandi 2012-2016

(Smelltu á mynd til að stækka)

Skýrsluna má skoða í heild með því að smella hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR