„Hvítur, hvítur dagur“ Hlyns Pálmasonar fær 110 milljónir úr Kvikmyndasjóði

Hlynur Pálmason.

Næsta verkefni Hlyns Pálmasonar, Hvítur, hvítur dagur hefur hlotið 110 milljón króna vilyrði úr Kvikmyndasjóði. Tökur eru fyrirhugaðar á næsta ári, Anton Máni Svansson hjá Join Motion Pictures framleiðir.

Þetta kemur fram á vef Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðins.

Þar er haft eftir Antoni Mána að Hvítur, hvítur dagur sé leyndardómsfull spennumynd um blekkingar, sorg, fórnir og skilyrðislausa ást.

Ingvar E. Sigurðsson, sem einnig lék í Málaranum (2013), útskriftarmynd Hlyns frá Danska kvikmyndaskólanum, mun fara með aðalhlutverkið, Ingimund, föður, ekkjumann og lögreglustjóra í smábæ sem hefur verið í leyfi síðan kona hans hvarf tveimur árum fyrr. Hann byggir hús fyrir dóttur sína og barnabarn en verður heltekinn af leit að manni sem hann grunar um að vera viðriðinn hvarf konu sinnar. Smám saman verða grunsemdir hans að algerri þráhyggju sem fjölskylda hans líður fyrir.

Áætlaður kostnaður er tæplega 300 milljónir króna.

Sjá nánar hér: Ingvar E. Sigurðsson to star in Pálmason’s A White, White Day

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR