spot_img

“Hjartasteinn”, “Tom of Finland” og “La Chana” í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna

Hjartasteinn (íslensk/dönsk samframleiðsla), Tom of Finland (meðframleidd af Ingvari Þórðarsyni) og heimildamyndin La Chana (spænsk/íslensk samframleiðsla) eru meðal þeirra 66 kvikmynda sem taka þátt í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna. Tilkynnt verður um tilnefningar þann 4. nóvember en verðlaunin verða veitt í Berlín þann 9. desember.

Forvalið fer þannig fram að þau 20 lönd sem eiga flesta meðlimi EFA (Evrópsku kvikmyndaakademíunnar) velja eina mynd frá eigin landi inná forvalslistann. Síðan bætir sérstök valnefnd, sem skipuð er stjórn EFA og ýmsum evrópskum kvikmyndasérfræðingum, við það val myndum að sínu vali.

Á næstu vikum munu svo hinir rúmlega 3000 meðlimir Akademíunnar velja tilnefningar í flokkana kvikmynd ársins, leikstjóri, leikari, leikkona og handritshöfundur. Tilnefningar verða kynntar á Evrópsku kvikmyndahátíðinni í Sevilla á Spáni þann 4. nóvember. Sérstök sjö manna dómnefnd ákveður svo hverjir hljóta verðlaun í flokkunum tökumaður, klippari, leikmyndahönnuður, búningahönnuður, hár og förðun, tónskáld og hljóðhönnuður.

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða veitt í 30. sinn í Berlín þann 9. desember næstkomandi.

Tilnefningar til leikinna kvikmynda má sjá hér.

Tilnefningar til heimildamynda má sjá hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR