Hilmar Oddsson lætur af störfum sem rektor Kvikmyndaskólans

Hilmar Oddsson hefur sagt lausu starfi sínu sem rektor Kvikmyndaskóla Íslands, en hann hefur gegnt því undanfarin sjö ár.

„Mér fannst vera kominn tími til að breyta til og snúa mér aftur að kvikmyndagerð,“ segir Hilmar í stuttu spjalli við Klapptré. „Þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími og gefandi að vinna með öllu því góða fólki, bæði nemendum og starfsliði sem þarna er, en auðvitað einnig erfitt líka þar sem baráttan fyrir rekstrargrundvelli skólans hefur oft verið mjög hörð.“ Hilmar tekur fram að hann hættir sem rektor í sátt og samlyndi við allt sitt samstarfsfólk og að ekki sé ólíklegt að hann muni taka að sér kennslu við skólann að einhverju leyti.

Þá hafa þau Jóna Finnsdóttir deildarstjóri leikstjórnar- og framleiðsludeildar og Jörundur Rafn Arnarson deildarstjóri skapandi tækni, einnig látið af störfum.

Ekki náðist í forsvarsmenn Kvikmyndaskólans við vinnslu þessarar fréttar, en nokkrar skipulagsbreytingar munu vera í farvatninu hjá skólanum og munu þær líklega verða kynntar í næstu viku. Starfsemi hefst að nýju að loknu sumarfríi uppúr miðjum ágústmánuði.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR