Sigurjón Kjartansson: Vinsældir „Ófærðar“ opna dyr fyrir íslenskt sjónvarpsefni

Sigurjón Kjartansson, einn handritshöfunda Ófærðar, segir það jákvætt fyrir íslenska kvikmyndagerð að Ófærð var valin besta sjónvarpsþáttaröð Evrópu. Vinna við handrit næstu þáttaraðar Ófærðar er þegar hafin.

Þetta kemur fram á ruv.is og þar segir ennfremur:

Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð hlaut í gær hin virtu Prix Europa verðlaun sem besta sjónvarpsþáttaröð Evrópu árið 2016. Verðlaunin þykja mikill heiður, enda ein sú stærstu í Evrópu. Meðal fyrri sigurvegara er sjónvarpsþáttaröðin Brúin, sem sýnd var á RÚV. Alls 25 þáttaraðir voru tilnefndar til verðlaunanna í ár. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Ófærð sé framúrskarandi sjónvarpsþáttaröð, sem byggi á einstakri aðalsöguhetju. Leikhópurinn sé frábær og umhverfið stórbrotið. Dómnefndin fer einnig mjög lofsamlegum orðum um myndatöku, framleiðslu og leikstjórn.

Sigurjón Kjartansson, annar handritshöfunda Ófærðar, segir þetta hafa komið ánægjulega á óvart. „Við gerðum okkur nú ekki neinar sérstakar vonir um að fá verðlaunin en þetta voru mjög ánægjuleg tíðindi fyrir okkur.“

Hann segir verðlaunin einnig mikilvæg fyrir íslenska kvikmyndagerð og geta opnað ýmsar dyr. „Þetta hefur þegar gert það. Það er að segja vinsældir Ófærðar hafa þegar opnað dyr fyrir ýmsa sem eru að vinna íslenskt sjónvarpsefni og sannarlega munu þessi verðlaun gera það líka.“

Handritsvinna við næstu seríu í gangi

Samið hefur verið um aðra seríu af Ófærð, sem stefnt er á að frumsýna á RÚV haustið 2018. „Við erum byrjuð að hittast, hópurinn. Clive Bradley er með mér í þessu og svo hefur Margrét Örnólfsdóttir bæst í hópinn. Og Yrsa Sigurðardóttir var með okkur í vor að varpa út sögulínu. Þannig að þetta er góður hópur sem að stendur að handritsskrifunum í næstu seríu,“ segir Sigurjón. Aðspurður segir hann plottið í vinnslu. „Við erum í því núna, það er ekki alveg búið að negla það niður en við erum komin vel á veg.“

Sögusviðið verður áfram á Íslandi, en verður ennþá ófært? „Ófært? Við getum sagt að við hugsum það hugtak í víðara samhengi. Það er ófært víða,“ segir Sigurjón. Það þurfi ekki endilega að vera veðurfarslega séð. Hann segir að í nýju seríunni verði kafað djúpt í sálarlíf aðalpersónanna. „Við stefnum á að gera mjög góða seríu þar sem að við adressum hluti sem eru að gerast allt í kringum okkur.“

Sjá nánar hér: „Það er ófært víða“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR