Tökur hafnar á „Undir trénu“

1_UndirTrenu_©Netop_Films_2016
Steindi Jr., Hafsteinn Gunnar, Sigurður Sigurjónsson og Edda Björgvinsdóttir á fyrsta tökudegi.

Tökur eru hafnar á kvikmyndinni Undir trénu í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar (París norðursins). Myndin gerist í Reykjavík samtímans og skartar þeim Steinda Jr., Sigurði Sigurjónssyni, Eddu Björgvinsdóttur, Þorsteini Bachmann og Selmu Björnsdóttur í aðalhlutverkum.

”Já, þetta er samtímasaga úr Reykjavík um venjulegt fólk í tilgangslausu stríði við hvort annað. Nágranna- og forræðisdeilur og þess háttar þar sem allt fer í úr böndunum. Það kannast flestir við þetta þema. Einn aðalleikari myndarinnar er stórt og fallegt tré og af tæknilegum ástæðum byrjuðum við á því að mynda það í bak og fyrir áður en stórskotaliðið mætti á svæðið,”

segir Grímar Jónsson, sem framleiðir myndina ásamt Sindra Pál Kjartanssyni og Þóri Snæ Sigurjónssyni fyrir hönd Netop Films (Hrútar).

Hafsteinn Gunnar Sindri Páll og Grímar Jónsson þegar tréð var flutt og myndað í bak og fyrir.
Hafsteinn Gunnar Sindri Páll og Grímar Jónsson þegar tréð var flutt og myndað í bak og fyrir.

Undir trénu er íslensk-, dönsk-, pólsk samframleiðsla og hlaut verkefnið nýlega stuðning frá evrópska kvikmyndasjóðnum Eurimages ásamt Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum og Kvikmyndamiðstöð Íslands.

”Það er mikill heiður og skemmtilegt að setja saman svona samframleiðslu. Hingað er kominn hópur fagfólks frá Danmörku og Póllandi, verkefnið fer vel af stað og við finnum fyrir miklum áhuga, bæði hérlendis og erlendis. Við erum nú þegar komnir með nokkur tilboð um endurgerð myndarinnar og maður finnur heldur betur fyrir því að íslensk kvikmyndagerð er á ansi flottu róli þessa dagana,”

segir Grímar ennfremur.

Huldar Breiðfjörð skrifar handrit myndarinnar ásamt Hafsteini Gunnari, hin pólska Monika Lenczewska er tökumaður, Snorri Freyr Hilmarsson gerir leikmynd, Kristján Loðmfjörð klippir og Daníel Bjarnason semur tónlistina.

Tökur standa yfir næstu 6 vikurnar og áætlað er að frumsýna myndina öðru hvoru megin við sumarið 2017.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR