Fjöldi íslenskra kvikmynda í Gautaborg

Benedikt Erlingsson og Margrét Jónasdóttir í Gautaborg.
Benedikt Erlingsson og Margrét Jónasdóttir í Gautaborg. (Mynd: Sagafilm)

Gautaborgarhátíðin, stærsta kvikmyndahátíð Norðurlanda, stendur nú yfir. Fjöldi íslenskra mynda tekur þátt í hátíðinni. Þrestir Rúnars Rúnarssonar keppir um Drekaverðlaunin fyrir leiknar myndir og The Show of Shows Benedikts Erlingssonar keppir um Drekann í flokki heimildamynda.

Þrestir er ein af 8 norrænum myndum sem keppa um Drekaverðlaunin, en verðlaunaféð er 1 milljón sænskra króna og er það ein hæsta upphæð sem hægt er að vinna til á kvikmyndahátíðum heimsins.

The Show of Shows: 100 Years of Vaudeville, Circuses and Carnivals tekur þátt í keppninni um Drekaverðlaunin fyrir bestu norrænu heimildamynd. Samtals munu 8 norrænar heimildamyndir keppa um 100.000 sænskar krónur, sem er einnig ein hæsta upphæð sem hægt er að vinna til í flokki heimildamynda á kvikmyndahátíðum heimsins.

Hrútar eftir Grím Hákonarson og Fyrir framan annað fólk í leikstjórn Óskars Jónassonar taka þátt í Nordic Light sýningarröð hátíðarinnar. Sú síðarnefnda verður einnig sýnd á Nordic Film Market ásamt Reykjavík Ásgríms Sverrissonar.

Garn í leikstjórn Unu Lorenzen og Sjóndeildarhringur eftir Berg Bernburg og Friðrik Þór Friðriksson taka þátt í heimildamyndahluta Nordic Light sýningarraðarinnar.

Regnbogapartý eftir Evu Sigurðardóttur tekur þátt í stuttmyndahluta Nordic Light sýningarraðarinnar.

Þá verða tveir fyrstu þættir sjónvarpsþáttaraðarinnar Ófærð, úr smiðju Baltasars Kormáks og Sigurjóns Kjartanssonar, sýndir sem hluti af sjónvarpsþáttahluta Nordic Light sýningarraðarinnar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR