Grímur Hákonarson fann fyrir afbrýðisemi íslenskra kollega eftir HRÚTA

Grímur Hákonarson leikstjóri er í viðtali við The Guardian í tilefni af því að sýningar á mynd hans Héraðinu hefjast í Bretlandi í dag. Þar ræðir hann meðal annars um upplifun sína af viðbrögðum sumra kollega sinna hér á landi í kjölfar velgengni Hrúta.

Viðtalið fer að mestu í að ræða Héraðið en einnig er komið inná feril Gríms og þá meðal annars fjallað um Hrúta:

Velgengni Hrúta breytti öllu fyrir hann, segir Grímur, sem fékk áhorfendur í Cannes til að jarma eins og kindur. Áströlsk endurgerð með Sam Neill í aðalhlutverki er á leiðinni. Dyr hafa opnast annarsstaðar, hann vinnur nú að undirbúningi kvikmyndar í Bandaríkjunum sem hann vill ekkert segja um að öðru leyti en því að hún gerist í borgarumhverfi. En í heimalandinu voru ekki allir sem samglöddust Grími. „Kvikmyndabransinn er lítill heimur hérna. Það er samkeppni og afbrýðisemi. Ég fann fyrir því,“ segir hann varlega.
Á ekki íslenska listasenan að vera frekar samheldin? „Það er opinbera útgáfan, en raunveruleikinn er öðruvísi. Þegar þú ert kvikmyndagerðarmaður frá Íslandi þá er það dálítið annað en að vera kvikmyndagerðarmaður frá Þýskalandi. Vegna þess að þú kemur frá framandlegu landi. Þannig að þegar þú ræðir við erlenda fjölmiðla þá ertu alltaf að setja fram bestu útgáfuna af sjálfum þér og kvikmyndabransanum. Og ég er að segja þér að það er ekki þannig. Þetta er bara yfirborðið.“
Hann vill ekki fara nánar útí þá illmælgi og baktal sem þrífst í íslenskri  kvikmyndagerð með því að nefna nöfn. Það er auðvitað ekki það sama, en þarna er óljóst bergmál af þeirri þöggun sem ríkir í íslenskum sveitum. Kannski er sú varkárni og hógværð sem Grímur sýnir í viðtalinu hinn félagslegi kostnaður þess að búa í litlu landi – og það sem kann stundum að hindra framþróun.

Sjá nánar hér: ‘They’re behaving as capitalists’: the film inspired by Iceland’s farming stranglehold | Film | The Guardian

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR