„Hrútar“ í norsk bíó, Bretland og Bandaríkin í næstu viku

Rams HrútarHrútar verður frumsýnd í Noregi á morgun og fær góða dóma þarlendra gagnrýnenda. Myndin verður síðan frumsýnd í breskum og bandarískum bíóum í næstu viku.

Norskir gagnrýnendur eru almennt mjög ánægðir með myndina.

Terje Eidsvåg hja Addressavisen segir:

Það eru nokkrar góðar ástæður til að mæla með þessum glitrandi íslenska gimsteini sem hlaut Un Certain Regard verðlaunin í Cannes á síðasta ári. Blanda landslags, dýra og skrautlegra persóna hristist vel saman í þessari tragikómedíu um sauðfjárbændur í íslenskum dal.

Erlend Loe hjá Aftenposten segir:

Grímur Hákonarson velur sem betur fer að forðast kaldhæðni í nálgun sinni gagnvart persónunum og það lyftir myndinni yfir brandaragang yfir í áleitið og vandað verk sem einnig vermir hjartarætur.

Guri Kulås hjá Klassekampen gefur fimm stjörnur, kallar eftir að fleiri norskir kvikmyndagerðarmenn sýni fornum menningarhefðum þá virðingu sem Grímur gerir og segir söguna auðveldlega geta gerst í Noregi.

Bretland og Bandaríkin í næstu viku

Á vef BBC er myndin talin upp meðal þeirra sem nauðsynlegt sé að sjá í febrúarmánuði, en hún verður sýnd þar í næstu viku, sem og í Bandaríkjunum. Grímur kemur fram í Anatomy of a Scene, hinum kunna dálki The New York Times þar sem leikstjórar taka fyrir senur úr myndum sínum og ræða þær.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR