Einar Þór Gunnlaugsson gagnrýnir skrif Ágústs H. Einarssonar um hagræn áhrif kvikmynda

Einar Þór Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri, sem einnig hefur lokið meistaranámi í menningarstjórnun, leggur á Fésbókarsíðu sinni útaf viðtali við Ágúst H. Einarsson prófessor í þættinum Samfélagið á Rás 1 RÚV þar sem Ágúst ræðir meðal annars um Björk Guðmundsdóttur og segir gríðarleg verðmæti fólgin í menningu, margir listamenn séu vel metnir í útlöndum og það beri að nýta. Viðtalið við Ágúst má hlusta á hér. Einar er gagnrýninn á verk Ágústar sem meðal annars hefur skrifað bók um Hagræn áhrif kvikmyndalistar og lesa má hér.

Einar Þór segir:

Ég hef oft hlustað á Ágúst og lesið rannsóknir hans, það er mikil þörf á slíku en ég efast um að þetta hafi verið góðar rannsóknir heldur fyrst og fremst samantekt á tölum. Allur skapandi iðnaður hefur einsog ferðamannaiðnaðurinn liðið fyrir skort á þróunarfé og rannsóknarsjóður iðnaðarins að mestu farið í hefðbundnar greinar, mest í útveginn. Bók hans um hagræn áhrif kvikmynda var gölluð því t.a.m. samanburðaraðferð hans að bera Ísland saman við nágrannalönd án þess að gera grein fyrir hversu ólík módel eru notuð við dreifingu opinbers fés til skapandi greina, hvernig velta kvikmynda er mæld og neysla menningar. Áhrif hagstjórnartækanna sem er beitt í þessu eru flóknari en svo hægt sé að nota rannsóknir hans til annars gagns en ábendinga og áróðurs sem hefur þó virkað stundum á stóriðjuhugsunarhátt.

En þetta gerir Einar Þór  og það þarf meira til, þeir sem vilja draga úr málstað skapandi greina er verkefnið ekki nógu erfitt. Fræðileg gagnrýni á samantektir hans getur svo líka reynst erfið ef t.a.m. fagaðilar gera ekki greinarmun á henni og hins vegar gagnrýni á gildi skapandi iðnaðar sem er vitaskuld allt annað.

Það sem er áhugaverðast er samt hvað skapandi iðnaður liggur vel fyrir þjóðinni sem fag, hún hefur t.d. fundið sjálfstraust sitt og sjálfsmynd í bókmenntum en ekki þungaiðnaði. Pólitískt séð er svo hugsanlegt að fjársvelt rannsóknarstarf sé stefna þar til pólitísk eða menningarleg öfl hafa komið undir sig fótunum í faginu og náð þar undirtökum, það er hugsanlega að gerast í ferðamannaiðnaði, sem er góður til samanburðar við skapandi greinar því þar hefur kakan stækkað. Tvær greinar sem verða “mainstream” á ekki meir en 10 árum eða svo án þess að rannsóknir hafi sérstaklega stutt við það.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR