Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í hádegisfréttum RÚV í gær, sunnudag, að RÚV gæti aukið tekjur sínar þrátt fyrir lækkun útvarpsgjalds og nefndi þar aukna sölu auglýsinga í tengslum við þá leiknu þáttaraðir sem gerðar yrðu vegna sérframlagsins svokallaða sem og tekjur af sölu slíkra þáttaraða til Norðurlanda, Þýskalands og fleiri landa. Hvorutveggja lýsir miklum skilningsskorti og óhjákvæmilegt að spyrja hvort enginn sem þekki til hafi aðgang að eyra ráðherrans.
Um hið svokallaða “sérframlag”
Á forsýningu þáttaraðarinnar Ófærð s.l. fimmtudag tilkynnti Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri að RÚV hyggðist tvöfalda framlag sitt til leikins efnis með því að forgangsraða dagskrárfé. Magnús Geir var þarna að staðfesta það sem hann hafði áður gefið í skyn og bransinn var meðvitaður um að væri yfirvofandi. Hann nefndi ekki tölur en samkvæmt heimildum Klapptrés má ætla að framlag til leikins efnis myndi hækka í um 200 milljónir króna á ári. Gerður var góður rómur að þessu í salnum, en þetta var áður en staðfest var að útvarpsgjald yrði lækkað.
Sérframlagið svokallaða uppá 175 milljónir til “innlendrar þáttagerðar” (hér er gert ráð fyrir að verið sé að tala um leiknar þáttaraðir) er ákvörðun stjórnvalda um að hlutast sérstaklega til um ákveðna starfsemi RÚV, í stað þess að halda sig við almennar skilgreiningar á hlutverki RÚV gegnum lagasetningu og þjónustusamning. Vissulega er fagnaðarefni að fé skuli veitt í gerð leikins efnis en bíðum nú við; RÚV hafði þegar ráðgert að verja slíkri upphæð og meira til í leikið efni. Hið svokallaða sérframlag er því ekkert annað en náðarsamlegt leyfi frá stjórnvöldum um að RÚV megi gera það sem þegar er verið að gera.
Verra er að hér er eingreiðsla á ferðinni, ekkert bendir til að framhald verði á þessari fjármögnun. Ekkert bólar á stefnumótun til lengri tíma, vísað er í þjónustusamning sem gera á (núverandi rennur út um áramót) en ekkert er vitað um hvað í honum verður og engin umræða hefur farið fram um inntakið á opinberum vettvangi (eða annarsstaðar svo vitað sé).
Ekki er hægt að kalla svona vinnubrögð annað en fúsk.
Um “hagnað” af sölu leikinna þáttaraða
Sigmundur Davíð nefndi hagnað af sölu leikinna þáttaraða sem dæmi um hvernig RÚV gæti aukið tekjur sínar. Þeir sem til þekkja hljóta að hafa fliss-frussað út úr sér hádegismatnum. Þeir fjármunir sem RÚV leggur til leikinna þáttaraða dekka aðeins lítinn hluta kostnaðar. Kostnaðarþátttaka RÚV í slíku efni hefur á undanförnum árum verið á bilinu 10-25%, ýmist í formi kaupa á sýningarrétti (engin eignarhlutdeild) eða samframleiðslu (þar sem eignarhlutur kemur til og hlutdeild í hugsanlegum afrakstri eftir því).
Staðreyndin er síðan sú að hagnaður af sölu til erlendra aðila er sáralítill ef nokkur og hlutur RÚV, ef einhver hagnaður myndast, myndi tæplega duga fyrir þróunarkostnaði næstu verkefna, hvað þá framleiðslufé. Hann er semsagt hverfandi. Framlag norrænu og evrópsku sjónvarpsstöðvanna (þegar um slíkt er að ræða) hefur hingað til farið í að greiða kostnað við sjálfa framleiðsluna. Til að einhver hagnaður verði til þyrfti að selja viðkomandi þáttaröð mjög víða, segja má að með Ófærð sé verið að gera slíka tilraun.
Tal Sigmundar um mögulegan hagnað hefði kannski meikað sens ef hann hefði tilkynnt um t.d. sérstakt árlegt framlag til RÚV uppá sirka milljarð eða tvo til næsta áratugs eða svo sem eyrnamerkt væri leiknu efni og uppbyggingu á því sviði. Þannig gæti RÚV farið að fjármagna nokkuð stórar þáttaraðir uppá eigin spýtur; engin spurning er um að bransinn myndi rísa undir slíkri áskorun, þó að vissulega tæki tíma fyrir slíkt prógramm að skila árangri.
En það er semsagt ekki alveg að fara að gerast.
Um “auknar tekjur” af sölu auglýsinga
Ummæli Sigmundar um auknar tekjur af sölu auglýsinga vegna sýninga á leiknu efni eru sömuleiðis vægast sagt einkennilegar. Slíkar tekjur eru auðvitað einhverjar en ekki ýkja háar í stóra samhenginu, hlaupa kannski á nokkrum milljónum árlega meðan heildar auglýsingatekjur félagins nema um tveimur milljörðum á ári. Og vegna þess að aukning í leiknu efni var þegar fyrirhuguð hjá RÚV er auðvitað tóm della að tala um þessar auglýsingatekjur sem einhverskonar aukningu, ekki frekar en þú tækir af einhverjum þúsundkall en leyfðir honum að halda tíkallinum.
Hin stórkarlalegu ummæli forsætisráðherrans um auknar auglýsingatekjur RÚV, hafa þó væntanlega ekki vakið neinn fögnuð hjá aðstandendum einkarekinna fjölmiðla. Þau eru líka skondin í ljósi þess að undanfarin ár hefur ríkisstjórn hans sett RÚV þrengri skorður varðandi auglýsingar og kostun, án þess að bæta félaginu það upp með hækkun útvarpsgjalds. Stjórnin hefur reyndar einnig verið að hringla með þetta, dregið einhverjar takmarkanir tímabundið til baka til að bæta RÚV að einhverju leyti sífellda skerðingu útvarpsgjaldsins. Nýverið hefur menntamálaráðherra svo talað fyrir þeirri hugmynd að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Sem er reyndar ágæt hugmynd og verð skoðunar en myndi þýða verulega hækkun á útvarpsgjaldinu.
En hvernig á þetta að vera ágætu stjórnarherrar? Fleiri auglýsingar, færri auglýsingar eða engar auglýsingar? Hvað er í gangi? Alger skortur á langtíma sýn eða snýst langtíma sýnin bara um að klekkja sem mest á þessu menningarlega fjöreggi þjóðarinnar? Er nokkuð hægt að biðja um að þessu verði lyft á hærra plan?
Afar hátt hlutfall af fjármögnun RÚV er í gegnum auglýsingar. Eftir hrun, þegar stjórnvöld klipu hressilega af útvarpsgjaldinu, tókst RÚV að bæta sér það upp með því að auka verulega auglýsingatekjur og um tíma fóru þær uppí um 40% af tekjum en nema nú um þriðjungi – sem ennþá er alltof hátt hlutfall. Hér áður fyrr var það yfirleitt um og undir fjórðungi.
Þessi staðreynd er eitt það alvarlegasta við lækkun stjórnvalda á útvarpsgjaldinu. Lækkunin er stefnumarkandi aðgerð; ákvörðun um að þrengja möguleika RÚV til að sinna fjölbreyttu hlutverki sínu sem almannaþjónustumiðill. Þegar RÚV gert að treysta að afar stórum hluta á auglýsingatekjur hefur það bæði áhrif á dagskrársetningu og takmarkar möguleika einkarekinna miðla til að sinna innlendri dagskrárgerð. Fyrirkomulagið knýr RÚV til að halda uppi harðri samkeppni við einkamiðla um auglýsingafé og leggja áherslu á þá dagskrá sem laðar að sér auglýsingar á kostnað þeirrar dagskrár sem RÚV sinnir umfram aðra miðla.
Viðbúið að niðurskurður verði helst á þeirri dagskrá sem aðeins RÚV sinnir
Við blasir að niðurskurðurinn komi aðallega niður á dagskrá, því búið er að skera félagið niður að beini að öðru leyti á undanförnum árum og skuldaklyfjar vegna ónógrar fjármögnunar stjórnvalda á undanförnum árum þannig að stjórnendur benda ítrekað á að reksturinn standi ekki undir þeim með áframhaldandi lækkuðum framlögum. Með lækkun útvarpsgjalds stendur RÚV frammi fyrir því að loka um 325 milljón króna gati (þegar “sérframlagið er dregið frá). Það nemur um 8-10% af dagskrárkostnaði félagsins, lunginn af því fé fer til sjónvarps. 2017 þarf svo væntanlega að skera niður enn frekar, enda hefur ekkert annað komið fram en að 175 milljónirnar séu eingreiðsla.
Á þessu stigi er auðvitað ekki ljóst hvar niðurskurðurinn verður en líklegt er að hann verði í þeirri dagskrá sem minna áhorfs eða hlustunar nýtur. Rás 1 er þar sérstaklega undir, sem og ýmiskonar efni sem nýtur minna áhorfs í sjónvarpi. Þó má telja líklegt að skera þurfi niður á fréttasviðinu vegna stærðar þeirrar deildar innan dagskrárgerðar RÚV. Upphefjast þá mikil ramakvein úr mörgum hornum og eðlilega. En verði vinsælum þáttum fórnað er óhjákvæmilegt að auglýsingatekjur dragist verulega saman. Og á engan hátt væri til bóta að leggja niður (eða “selja”) Rás 2 eins og stundum heyrist; auglýsingatekjur rásarinnar (sem að sjálfsögðu hyrfu) samsvara ekki aðeins rekstrarkostnaði hennar heldur einnig Rásar 1 að mestu leyti.
Þetta er auðvitað þvert á það sem til dæmis menntamálaráðherra hefur talað um varðandi dagskrárlega afmörkun RÚV; að leggja eigi áherslu á efni sem aðrir miðlar sinna síður. Og hætt er við að harkaleg gagnrýni á slíkan niðurskurð eigi eftir að heyrast mjög víða í samfélaginu sem og gagnvart væntanlegum uppsögnum starfsfólks.
Stjórnendur RÚV eru ekki í öfundsverðu hlutverki þessa dagana.
Um “lausn menntamálaráðherrans”
Sérlega vandræðaleg eru svo ummæli Sigmundar Davíðs um að sérframlagið uppá 175 milljónir króna hafa verið “lausn menntamálaráðherrans”. Hér er að sjálfsögðu ekki um neitt í námunda við “lausn” að ræða fyrir það fyrsta, í besta falli einhverskonar dúsu til eins árs með tilheyrandi niðurskurði næsta árs.
Þá er vitað að farið var gegn vilja Illuga í málinu. Illugi, sem áður hafði tilkynnt keikur um lækkun útvarpsgjalds í tveimur áföngum og verið þá viss um að RÚV þyldi það auðveldlega, snerist hugur fyrr á árinu og væntanlega ekki að ástæðulausu. Forsætisráðherra grípur hinsvegar fram fyrir hendurnar á honum og stöðvar framgöngu málsins, sem segir sína sögu um veika stöðu menntamálaráðherra, auk þess sem skoða verður þessar aðgerðir í ljósi háværra og ítrekaðra kvartana Sigmundar og samflokksmanna hans á undanförnum misserum um árásir fréttastofu RÚV á sig – sem þó hafa aldrei verið færðar sönnur á og koma því eingöngu út sem pressa á sjálfstæða fréttastofu að makka rétt, eins smekklegt og það er.