Dagskrárstjórar RÚV segja ríkisstjórnina vega að ritstjórnarlegu sjálfstæði

Dagskrárstjórar RÚV hafa sent stjórn RÚV yfirlýsingu þar sem þeir lýsa áhyggjum sínum af „ákvörðun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem ógnar ritstjórnarlegu sjálfstæði Ríkisútvarpsins.“  Undir yfirlýsinguna rita Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri, Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, Frank Hall, dagskrárstjóri Rásar 2, Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps og Ingólfur Bjarni Sigfússon, vef- og nýmiðlastjóri.

Kjarninn greinir frá og segist hafa yfrilýsinguna undir höndum:

Ástæða yfirlýsingarinnar er sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja RÚV til 175 milljóna króna viðbótarframlags sem skilyrt er til notkunar í kvikmynda- og þáttagerð. Þetta viðbótarframlag átti að koma til móts við fjárþörf RÚV í ljósi þess að ríkisstjórnin vildi ekki draga til baka skerðingu á útvarpsgjaldinu um komandi áramót.

Í yfirlýsingunni segir að sú stefnumarkandi ákvörðun ríkisstjórnarinnar að lækka útvarpsgjaldið muni óhjákvæmilega leiða til mikillar röskunar á dagskrá allra miðla og draga úr getu RÚV til að standa undir lögbundnu hlutverki sínu. Það veki furðu í ljósi þess árangurs sem náðst hafi í rekstri, sem nú síðast var skilað hallalausum. „Við þetta bætist fordæmalaust inngrip í ritstjórnarlegt sjálfstæði RÚV þar sem ríkisstjórnin hefur tekið sér beint dagskrárvald með fjárframlagi sem bundið er tilteknu dagskrárframboði. Sú ákvörðun er í bága við þær grundvallarhugmyndir um fjölmiðla- og tjáningarfrelsi sem liggja almannaþjónustumiðlum til grundvallar.“

Dagskrárstjórarnir segja það brýnt að áretta að allt frá því að Útvarpsráð var lagt niður hafi hlutverk stjórnar RÚV verið skýrt og að ekki sé ætlast til þess að hún skipti sér af daglegum rekstri né einstökum dagskrárliðum. „Stjórnin er enda pólitískt skipuð og afskipti af dagskrá væru ósamræmanleg grundvallarsjónarmiðum um sjálfstæði RÚV. Ritstjórnarleg ábyrgð liggur einungis hjá útvarpsstjóra sem ræður fagstjórnendur, dagskrárstjóra og fréttastjóra, til starfa í sínu umboði.“

Í niðurlagi yfirlýsingarinnar segja dagskrárstjórarnir að ástæða sé til þess að minna á að RÚV sé í eigu íslensku þjóðarinnar, ekki kjörinna fulltrúa. „Hlutverk Ríkisútvarpsins er að vera sjálfstæður, óháður vettvangur gagnrýnnar umfjöllunar um samfélagið og vandaðrar dagskrár fyrir alla landsmenn. Varast ber að takmarka möguleika og sjálfstæði Ríkisútvarpsins til þess að sinna þessu hlutverki með viðunandi hætti.“

Sjá hér: Dagskrárstjórar segja ríkisstjórnina ógna ritstjórnarlegu sjálfstæði RÚV | Kjarninn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR