„Hvalfjörður“ og „Hjónabandssæla“ verðlaunaðar

Hvalfjörður, hin margverðlaunaða stuttmynd Guðmunar Arnars Guðmundssonar verður sýnd í Sjónvarpinu á skírdagskvöld.
Hvalfjörður, hin margverðlaunaða stuttmynd Guðmunar Arnars Guðmundssonar.

Hvalfjörður er enn að moka inn verðlaunum, tveimur árum eftir frumsýningu og nú tvenn; í Bandaríkjunum og á Ítalíu. Önnur stuttmynd Guðmundar Arnars, Ártún, er einnig á verðlauna- og hátíðarúntinum en fyrsta mynd hans í fullri lengd, Hjartasteinn, verður tekin upp síðsumars. Þá má og geta þess að stuttmyndin Hjónabandssæla eftir Jörund Ragnarsson var að vinna sín fjórðu alþjóðlegu verðlaun og nú fyrir handrit á Tel Aviv International Student Film Festival.

Ágúst Örn B. Wigum var valinn besti leikarinn á Brooklyn Film Festival. Ágúst Örn er fæddur 2002 og fer með annað aðalhlutverkanna í Hvalfirði. Auk þess lék hann aukahlutverk í Eldfjalli Rúnars Rúnarssonar.

Hvalfjörður var einnig valin besta myndin á Cinema dal Basso – Caserta Independent Film Festival sem fram fór í Caserta á Ítalíu.

Hvalfjörður, sem var frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni árið 2013 og hlaut þar sérstök dómnefndarverðlaun, hefur nú tekið þátt á gífurlegum fjölda kvikmyndahátíða, yfir 100 talsins, og unnið til 21 alþjóðlegra verðlauna á þeim. Auk þess var Hvalfjörður valin stuttmynd ársins á Edduverðlaununum 2014 og tilnefnd til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir bestu stuttmynd árið 2014.

Næstu hátíðir sem Hvalfjörður mun taka þátt á eru Por Caracoles hátíðin í Sevilla á Spáni og Basta Film Festival í Serbíu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR