spot_img

Bíó Paradís þakkar fyrir sig

Aðstandendur bíósins hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem þau þakka fyrir frábærar móttökur söfnunar sinnar á Karolina Fund þar sem safnað var yfir fjórum og hálfri milljón króna til að bæta aðstöðu fyrir hjólastólafólk í húsinu.

Tilkynningin fer hér á eftir:

Starfsfólk og stjórn Bíó Paradísar eru djúpt snortin yfir þeim ótrúlegu viðbrögðum sem íslenskt samfélag sýndi í söfnun sem fór fram á Karolina Fund og var að ljúka. Markmið söfnunarinnar náðust og rúmlega það.

Yfir 50% fjárloforða söfnuðust á síðasta sólarhringnum, og þar með var met slegið í hópfjáröflun á síðunni Karolina Fund sem er sérstaklega vel fyrir gott samstarf við að ná settum markmiðum.

Þessi ævintýralega söfnun á sér fjölda bakhjarla, og þar má helst nefna Guðjón Sigurðsson, formann MND félagsins, Arnar Helga Lárusson, formann SEM, Berg Þorra Benjamínsson, varaformann Sjálfsbjargar og fjölda annarra sem voru okkur innan handar á meðan söfnunin stóð yfir.

Nú tekur við fyrsti áfangi við að bæta aðgengi fatlaðra í húsnæði menningarbíósins, sem stendur fyrir öflugri starfsemi. Meðal annars má nefna að yfir 22.000 leik-, grunn- og framhaldsskólanemar hafa farið í gegnum kvikmyndafræðslu í húsinu á undanförnum árum. Bíó Paradís stendur reglulega fyrir fjölda kvikmyndaviðburða og sérsýninga, auk þess að standa fyrir fyrstu og einu alþjóðlegu barnakvikmyndahátíð landsins og vera einn af skipuleggjendum Stockfish kvikmyndahátíðarinnar.

Bíó Paradís hefur unnið með Ferilnefnd fatlaðra hjá Reykjavíkurborg að greiningu og tillögum að úrbótum og er áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga 6,7 milljónir króna. Verkefnið er mun stærra en húsið ræður við með reglulegum rekstri og var því ákveðið að ráðast í söfnunina. Öllu söfnunarféinu verður varið í að tryggja aðgengi að sal 1 og millisal og koma fyrir salerni sem er aðgengilegt þeim sem eru í hjólastólum. Verkfræðistofan Mannvit vinnur með húsinu og annast undirbúning, kostnaðarmat og eftirlit með framkvæmdunum.

Þakklætið á sér ekki síður stað til samfélagsins sem  brást svo eftirminnanlega við ákalli og þar sem viðbrögðin fóru fram úr öllum væntingum. Allir lögðust á eitt til þess að styðja menningu og mannréttindi.

Bíó Paradís hlakkar til að opna dyrnar fyrir fólk í hjólastólum á hausti komandi að loknum framkvæmdum. Þess má geta að það sem safnast umfram á Karolina Fund mun verða notað til aðkallandi viðhaldsverkefna í húsinu eins og endurbólstrun á sætum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR