spot_img

Um kynjakvóta og risaeðlur feðraveldisins

Dögg Mósesdóttir formaður WIFT á Íslandi vill skoða kynjakvóta varðandi styrki til kvikmyndagerðar en Friðrik Þór Friðriksson formaður SKL segir það fáránlegt. Fjörlegar umræður skapast um málið á Fésbók.

Bæði höfðu rætt þetta við Fréttablaðið.

Dögg Mósesdóttir segir:

„Það er ákveðinn valdastrúktúr í þessari grein sem flestir eru blindir á og viðheldur þessu ástandi. Þú þarft að starfa við greinina til að fá styrki frá Kvikmyndamiðstöð. Meirihluti þeirra sem starfa við greinina eru karlar. Það eru ekki miklar líkur á að þeir velji konu úti í bæ til samstarfs við sig í verkefni. Sér í lagi ef hún er nýgræðingur. Þannig breytist ástandið ekki. Við þurfum pressu að ofan til að þetta breytist. Næsta skref er að fá karlana í lið með okkur því þetta er ekki einkamál okkar kvenna. Ég veit að þeir eru margir sem eru með okkur í liði en við þurfum öll að vera vakandi því konur geta líka verið karlrembur,“ bendir Dögg á.

Hún telur lausnina geta falist í því að setja á kynjakvóta.

„Já, ég tel að það sé þörf á aðgerðum sem skapa þrýsting á breytingar. Það þarf að vera vilji alls staðar til að breyta.“

Friðrik Þór Friðriksson hefur ýmislegt við þetta að athuga í samtali við Fréttablaðið/Vísi:

Í raun hljóti þetta að vera með þeim hætti að allir tapi, verði þetta ráðandi faktor við úthlutanir til verkefna. „Þarna eru hættumerki,“ segir Friðrik Þór Friðriksson, einn okkar reyndasti kvikmyndaleikstjóri.

Og, það sem meira er – nú þegar er búið að tæma sjóði kvikmyndamiðstöðvar; úthlutanir sem hafa að einhverju leyti tekið mið af þessari kröfugerð. Alls óvíst er um að það takist að fullfjármagna verkefnin og því gæti komið verulegt bakslag í framleiðslu nýrra íslenskra kvikmynda.

Fyrir öllu að líta til þess hvort verkefnið sé vænlegt

Vilyrði um fjármögnun til verkefna frá Kvikmyndastöð, hvar Laufey Guðjónsdóttir hefur ráðið ríkjum undanfarin ár, dekka ekki nema lítinn hluta framleiðslukostnaðar. Vilyrðið er í raun ávísun á möguleika á að fjármagna kvikmynd til fulls. Slíkir sjóðir eru erlendis. Þeir aðilar sem leggja til fé í kvikmyndir horfa lítt til þess að kynjakvótar eru frumforsenda þess að vilyrði eru veitt. Þeir líta til þess hvort verkefnið er vænlegt áður en þeir leggja til það fé sem þarf til að ljúka fjármögnun.

Friðrik Þór segir vilyrði frá Kvikmyndamiðstöð dekka minna en helming kostnaðar. „Þá þarf að leita eftir auknu fjármagni, þeir sem það leggja til miða við gæði á verkefninu, handrit og hvort myndin sé vænleg. Það er algjörlega fáránlegt að láta vilyrði úr Kvikmyndamiðstöð ráðast af kynjakvótum. Þetta verður að fara eftir gæðum verkefnanna fyrst og fremst.“

Nútíminn fjallar um málið og af því tilefni hlekkja nokkrar kvikmyndagerðarkonur á færsluna og tjá sig á Fésbók:

Helena Harsita Þingholt segir á Fésbókarsíðu sinni:

Uppáhaldssetningin mín „Far þú í rassgat risaeðla“ er hér með tekin til brúks í fyrsta sinn af mér og beini ég orðum mínum til Friðriks Þórs og þess feðraveldis sem hann stendur fyrir. Ég heimta það að dóttir mín og önnur börn af hennar kynslóð fái bíó sem sýnir rétta mynd af samfélaginu, en ekki bíó sem er 98% samið og leikstýrt af körlum og 95% um karla leikið af körlum. Það er ástæðan fyrir því að ég vil að konur fái styrki til að gera bíó! Ég er kona og ég heimta kynjakvóta!

Og Dögg Mósesdóttir segir á sinni síðu:

Breaking news, konur eru búnar að taka yfir kvikmyndabransann!

Margir leggja orð í belg við færslu Daggar, hér eru nokkur dæmi:

Soley Kaldal: Enda miðaldra hvítir karlmenn alltaf glöggastir á áhrif feðraveldisins.

Dögg Mósesdóttir:Það eru þrjár konur með vilyrði fyrir styrk frá Kvikmyndamiðstöð fyrir kvikmynd í fullri lengd, Kristín Jóhannesdóttir sem fer af stað í haust. Svo eru tvær konur og einn karl, Friðrik Þór Friðriksson með vilyrði fyrir næsta ár. Svo er pæling hvað ákvarðar gæði. Gæði verkefnisins er að miklu leyti metin eftir því hverjir aðstandendur verkefnisins eru og hvort að þeim sé „treyst“ fyrir tæplega hundruðum milljónum króna til að framkvæma verkefnið. Oftar en ekki hefur þetta traust verið borið til karla, kannski er einhver ósýnilegur kynjakvóti í gangi og hefur verið viðvarandi frá upphafi íslenskrar kvikmyndargerðar, af hverju ekki að leiðrétta hann með tímabundnum aðgerðum.

Ester Bibi: Hahahahaha! Nú fer skjálftinn um bransann.

Hulda Rós: Svo má ekki gleyma Dögg snjóboltaáhrifunum. Þegar körlum er treyst betur þá endar þetta í því að þeir auðlast meiri aktúal reynslu og völd. Það segir sig sjálft. Þess vegna ef á að breyta einhverju er kynjakvóti nauðsynlegur. Ég hugsa til þín í baráttunni.

Helena Harsita Þingholt: Andskotans helvítis „gæða“ kjaftæði. Ég brjálast inní mér. Nú er stríð! KYNJAKVÓTA STRAX!

Hulda Rós: Þegar verið er að fara með opinbert fé á að koma í veg fyrir að hlutirnir þróist svona. Við erum öll að missa af gæðum. Gæði fyrir mér felst meðal annars í því að ég geti speglað mig og mína reynslu og upplifanir í því sem ég er að horfa á. Ég heimta að fá að sjá meira af sýn kvenna.

Rut Hermannsdóttir: Er ekki alveg jafn fáránlegt þá að kvikmyndagerð sé ríkisstyrkt Friðrik Þór minn.

Sjá færslu Nútímans hér: „Fáránlegt að láta vilyrði ráðast af kynjakvótum“ – Nútíminn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR