Hreyfing á „Rúntinum“ Steingríms Dúa Mássonar

Frá tökum á Rúntinum.
Frá tökum á Rúntinum.

Kvikmyndagerðarmennirnir Friðrik Þór Friðriksson og Steingrímur Dúi Másson vinna þessi misserin að gerð 10 þátta sjónvarpsþáttaraðar sem byggir á heimildarmyndinni Rúntinum sem tekin var upp árið 1999 en aldrei kláruð.

Í heimildarmyndinni ferðuðust umsjónarmenn og leikarar myndarinnar, Viðar Hákon og Ólafur Jónsson, um landið á amerískum húsbíl og heimsóttu Akureyri, Blönduós, Egilsstaði, Hólmavík, Höfn, Ísafjörð, Keflavík, Reykjavík og Vestmannaeyjar og kynntu sér rúntinn á hverjum stað fyrir sig.

Fjölbreytt og skemmtilegt efni tilvalið fyrir sjónvarp

Fljótlega eftir að tökum lauk varð framleiðendum ljóst að um gríðarlega mikið efni var um að ræða sem hentaði í raun betur sem sjónvarpsþáttaröð en vegna annarra verkefna lagðist Rúnturinn í dvala. Núna,16 árum síðar hefur rykið verið dustað af þessu skemmtilega efni og merkilegu heimild og er markmiðið að gera 10 þætti fyrir sjónvarp sjónvarpi og/eða vefmiðla. Framleiðsla þáttanna byggir að hluta á MA rannsókn Steingríms Dúa og lokaverkefni hans frá Háskólanum á Bifröst: Rúntinum.

Fjármagnað með hópfjármögnun

Til að koma verkefninu almennilega af stað hafa aðstandendur þáttanna hrundið af stað stað hópfjármögnun á karolinafund.com þar sem áhugasamir geta lagt verkefninu lið og orðið þáttakendur í því en lágmarksframlag eru rúmar sjöhundruð krónur eða sem nemur 5 evrum. Söfnunarféð verður nýtt til að greiða fyrir eftirvinnslu þáttanna en upphæð sem stefnt er að safna eru 6.500 evrur.

Steingrímur Dúi Másson, stjórnandi verksins, segir í aðsendri tilkynningu:

„Þetta verkefni er búið að vera lengi í bígerð en upphaflega lögðum við Friðrik Þór upp með að gera svona frekar „hardcore“ heimildarmynd í fullri lengd, og draga ekki úr neinu. Við eigum í viðræðum við sjónvarpsstöðvar um sýningar en okkur hefur ekki tekist að selja þættina fyrirfram. Þar kemur þessi söfnun við sögu en við munum nota söfnunarféð til að greiða fyrir eftirvinnslu þáttanna – komi ekkert annað fé þá munum við klára þættina með miklum sparnaði í framleiðslunni, en ég hef mikla reynslu í einmitt því. Hvernig sem það fer þá höfum við Friðrik Þór mikla trú á verkefninu og útkoman munu verða afskaplega skemmtilegir og áhugaverðir sjónvarpsþættir.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR