spot_img

Þrjú verk í vinnslu á evrópsku kvikmyndahátíðinni í Les Arcs

Les Arcs Film FestivalÞrjár íslenskar kvikmyndir sem nú eru á mismunandi stigum vinnslu taka þátt í evrópsku kvikmyndahátíðinni í Les Arcs í Frakklandi sem fram fer dagana 13. til 20. desember.

Tvær þeirra munu taka þátt í „Work in Progress“ hluta hátíðarinnar, Þrestir í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar og Hrútar í leikstjórn Gríms Hákonarsonar. Bæði verkefni eru nú í eftirvinnslu. Í „Work in Progress“ hlutanum gefst aðstandendum kvikmynda í eftirvinnslu kjörið tækifæri til þess að verða sér úti um fjárfesta, sölufulltrúa, dreifingaraðila og/eða aukið fjármagn.

Þá mun nýjasta verkefni Hafsteins Gunnars Sigurðssonar og Huldars Breiðfjörð, Tréð, sem nú er í þróun, vera hluti af meðframleiðslumarkaði hátíðarinnar. Hafsteinn Gunnar mun leikstýra og Huldar skrifar handritið. Þeir félagar halda því samstarfi sínu áfram, en Hafsteinn Gunnar leikstýrði París norðursins eftir handriti Huldars. Eins og nafnið á markaðnum gefur til kynna er hann til þess fallinn að hjálpa aðstandendum verkefna í þróun að verða sér úti um meðframleiðendur.

Bæði Þrestir og Hrútar tóku þátt í meðframleiðslumarkaði hátíðarinnar í fyrra, auk þess sem París norðursins tók þátt í „Work in progress“ hluta hátíðarinnar. Þá tók Hross í oss þátt í aðalkeppni hátíðarinnar og hreppti aðalverðlaun dómnefndar fyrir bestu kvikmynd ásamt verðlaunum fyrir bestu tónlist.

Sjá nánar hér: Þrjár íslenskar kvikmyndir á evrópsku kvikmyndahátíðinni í Les Arcs

UPPFÆRT 20. júlí 2016: Verkefnið Tréð kallast nú Undir trénu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR