spot_img

Viðhorf | Um skapandi málflutning

Óðinn er gott nafn á pistlahöfundi. Óðinn er jú Guð skáldskaparins og sköpunar en einnig blekkinga og svika. Hann er Guð sigursins og þess sem kostar öllu fyrir ávinning sinn. Sá sem á samtal við Óðinn verður því að vera var um sig og gera ráð fyrir því að ekki er allt sem sýnist.

Pistlahöfundur á Viðskiptablaðinu sem nefnir sig Óðinn kallar málflutning okkar kvikmyndagerðarmanna “skapandi” þegar við kvörtum yfir hraustlegum niðurskurði í kvikmyndasjóð.

Ég vil því leyfa mér að gera þrjár athugasemdir við fyrrgreindan pistil sem bar yfirskriftina: Skapandi málflutningur.

1. Það er skapandi málflutningur að tala um framlag ríkisins til kvikmyndasjóðs 2013 sem “ófjármagnað risakosningaloforð”

Af því að það var raunveruleg fjárveiting ríkisvaldsins sem var samþykkt á Alþingi með meirihluta atkvæða eftir umfjöllun í nefnd og heilar þrjár umræður í þingsal. Arðurinn úr bönkunum var eyrnamerktur þessu ásamt öðru. Seinna kom í ljós að hann var margfaldur miðað við það sem reiknað var með. Mér þætti það heiðarlegra, þó það væri soldið ó-íslenskt, að taka bara ábyrgð á þessu og segja: “Já! við skárum sjóðinn niður um 40%. Já það var blóðugt en við vildum nota peninginn í ýmislegt annað sem við töldum mikilvægara.”

Við þessu er ekkert hægt að segja nema hefja umræðu um hvað er mikilvægt og hvað ekki.

Það var reyndar þrá eftir þesskonar umræðu sem var kveikjan að pípi mínu á verðlaunapalli í útlandinu en mér til undrunar hefur þetta snúist uppí karp um hvort glasið sé hálf fullt eða hálf tómt og enginn teygir sig í drykkinn sjálfan þó öll séum við að deyja úr þorsta.

2. Það er skapandi málflutningur að kalla endurgreiðslukerfið framlag ríkisins til íslenskrar kvikmyndagerðar.

Endurgreiðslu kerfið er ekki framlag ríkis til íslenskrar kvikmyndagerðar.
(Óðinn mætti koma þessu á framfæri við aðstoðarmann forsætisráðherra.)
Endurgreiðslukerfið er kerfi til að afla ríkinu peninga.
Það er beita sem sett er á öngul til að veiða fiska sem eru þyngri og verðmeiri en beitan sem sett var á öngulinn. Og aflinn hefur verið dreginn á land. Þær kannanir sem hafa verið gerðar sýna að ríkissjóður fær umtalsvert meira til baka en nemur endurgreiðslunni.

Þetta kerfi er auk þess mjög hagfellt fiskunum, sérstaklega þeim íslensku og fyrir það eru þeir þakklátir.

3. Það er skapandi málflutningur að bera íslenska kerfið saman við hið „klikkaða hvatakerfi“ í BNA.

Það er orðið vel þekkt í hvaða ógöngur Ameríkanar eru komnir með það, þar sem fylkissjóðir lokka til sín utanhéraðsmenn sem taka meira til sín í skattfé en þeir skilja eftir. Óðinn bendir reyndar sjálfur á að þetta sé ekki sambærilegt en samt sem áður sáir hann fræjunum eins og Óðni kóngi er einum lagið.

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að það sé hæpið að “skattfé sé látið renna til ákveðinnar atvinnugreinar, sem nýtur sérréttinda sem aðrar greinar njóta ekki.”  Það vill svo til að við Óðinn erum sammála þarna. Það er ekki hægt að réttlæta framlög ríkisins til kvikmyndasjóðs á þeim grunni.

Ef íslensk kvikmyndagerð er eingöngu atvinnugrein og hefur ekkert annað gildi fyrir þessa 160 þúsund skattgreiðendur þá eigum við umsvifalaust að hætta öllum stuðningi við hana.

Ég vil þakka Viðskiptablaðinu og pistlahöfundinum Óðni fyrir þessa ábendingu um ég hafi lélegt raunveruleikaskyn og sé vanþakklátur. Þetta kann að vera rétt. Það hlýtur að verða mitt perónulega verkefni að rannsaka þessar ábendingar blaðins til mín og reyna ef mér er það gefið að bæta raunveruleikaskyn mitt og temja mér þakklæti.

Virðingarfyllst,
Benedikt Erlingsson

Pistillinn birtist áður í Viðskiptablaðinu.

Benedikt Erlingsson
Benedikt Erlingsson
Benedikt Erlingsson er kvikmyndaleikstjóri, handritshöfundur og leikhúsmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR