True North kynnir Sturlungu verkefni á AFM

truenorth iconTrue North, sem nú hefur stofnað framleiðsludeild undir stjórn Kristins Þórðarsonar, kynnir verkefni á yfirstandandi American Film Market sem byggt er á Sturlungasögu. Screen Daily segir frá. Þar kemur fram verkið sé annaðhvort hugsað sem bíómyndarþríleikur eða sjónvarpsþáttaröð. Vinnuheitið er Sturlungar: The Viking Clan.

Friðrik Þór Friðriksson er viðriðinn verkefnið sem framleiðandi og True North á nú í viðræðum við handritshöfunda um skrif.

Haft er eftir Leifi B. Dagfinnssyni hjá True North að verkefnið hafi vakið mikinn áhuga og sé nú til skoðunar hjá einu af stóru myndverunum. Hann segir þekktan bandarískan kvikmyndaframleiðanda líklegan til að slást í hópinn og að meðframleiðendur muni koma frá Norðurlöndunum. Stefnt sé að tökum 2016.

Sjá má hér að verkefnið er kynnt sem sjónvarpssería í tíu þáttum.

Bíómyndir í leikstjórn Óskars Jónassonar og Ara Alexanders í undirbúningi

True North undirbýr nú tökur á rómantískri gamanmynd í leikstjórn Óskars Jónassonar, Fyrir framan annað fólk. Tökur fara fram á næsta ári og leit stendur nú yfir að leikurum.

Þá er stefnt að því að gera fyrstu bíómynd Ara Alexanders Magnússonar 2016. Verkefnið kallast Vaidas og byggir á líkfundarmálinu svokallaða, þegar Litháenskur maður fannst látinn í austfirskri höfn fyrir um áratug síðan.

Þá er einnig tilkynnt um að breski leikhúsleikstjórinn Lisa Forrell muni leikstýra Slóð fiðrildanna (The Journey Home) eftir skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar. Verkefnið hefur verið lengi í gangi og tengst ýmsum framleiðendum. Um tíma stóð til að Liv Ullman og síðar Bille August leikstýrðu myndinni en af því varð ekki. Þá voru hjónin Jennifer Connelly og Paul Bettany orðuð við hlutverk í myndinni.

Sjá nánar hér: Vikings meet The Godfather in Icelandic trilogy | News | Screen.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR