Viðhorf | Um frjálst Alnet – og vanhugsuð inngrip yfirvalda og dómstóla í frelsi þess

Þráinn Bertelsson leggur út af úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur varðandi aðgengi að skráaskiptasíðum og veltir upp framtíð höfundarréttarmála. Eftirfarandi pistill birtist einnig á Facebook síðu höfundar sem og á vefnum Kvennablaðið.is.

Í sambandi við netfrelsi og hugsanlegt vanhugsað inngrip dómstóla í aðgengi að síðum eins og deildu.net eða Pirate Bay væri skynsamlegt að hugsa út í að veröldin snýst, tíminn líður, kynslóðir koma og kynslóðir fara – allt er breytingum háð.

Flest höfundarlög eru frá því löngu áður en Alnetið varð hluti af tilverunni. Þessi lög eru flókin og misjafnlega réttlát og skynsamleg eins og önnur mannanna verk. Þau eiga það sameiginlegt að hugsunin á bakvið þau er að reyna að tryggja höfundum hugverka/listaverka tekjur af verkum þeirra.

Í sumum tilvikum eru þessi lög komin út í hreina vitleysu, samanber að erfingjar rithöfunda eiga höfundarrétt og geta leyft eða bannað afnot af verkum hins framliðna – til ills eða góðs – í 70 ár eftir dauða höfundarins. (Samkvæmt þessum lögum eiga eftirlifandi skyldmenni A. Hitlers höfundarrétt að „Mein Kampf“ til 30. apríl 2020).

Það er fullkomlega eðlilegt og sanngjarnt að höfundarlög séu sett til að tryggja rétt og möguleika höfunda til að hafa tekjur af verkum sínum og það er sömuleiðis eðlilegt að eftirlifandi makar þeirra hafi tekjur af verkum þeirra og sömuleiðis börn þeirra þar til þau hafa aldur til að framfleyta sér sjálf.

Markaður fyrir listaverk er breytingum háður eins og allt annað í veröldinni. Íslensk ljóðskáld til forna höfðu tekjur af því að flytja kveðskap sinn við norsku hirðina í von um frjáls framlög af hálfu kóngins. Prentlistin gerði það mögulegt fyrir höfunda að dreifa verkum sínum í stórum upplögum og jafnvel að hafa tekjur af hverju seldu eintaki.

Allt þetta snýst um takmarkaðan aðgang þar sem hver og einn greiðir fyrir lestur, hlustun og eða áhorf.

Alnetið opnar fyrir mögulegan aðgang að öllum jarðarbúum. Tímarnir eru breyttir. Við þurfum nýjar reglur um möguleika höfunda um að hafa tekjur af verkum sínum; lög hugsuð út frá veruleika samtímans.

Við erum á breytingaskeiði, og bæði frjáls hugsun og frálst flæði menningar og upplýsinga um veröldina krefjast þess að Alnetið sé frjálst, opið og óháð vanhugsuðu inngripi dómstóla eða yfirvalda í einstökum löndum.

Þar til höfundarréttarmál hafa verið leyst með einhverjum hætti og uppfærð til að fullnægja þörfum almennings og höfunda er ekki nema rétt og skylt að þjóðfélög geri átak í þá veru að styrkja stöðu listamanna og tryggja framfærslu þeirra.

Þar til þau vandamál sem fylgja Alnetinu hafa verið leyst með nýjum höfundalögum er ekki nema sanngjarnt að löggjafarvaldi hinna ýmsu landa sjái til þess að list og listamenn geti lifað af þetta breytingaskeið.

Þjóðfélagið verður að viðurkenna og skilja að koma þarf til móts við listamenn og bæta þeim að einhverju leyti upp nýstárlega notkun á verkum þeirra rétt eins og þjóðfélög hafa hingað til gefið kvalastillandi á erfiðum tímum til starfsgreina sem ganga gegnum grundvallarbreytingar vegna breyttrar tækni eða atvinnuhátta.

Það er rétt að taka það fram að höfundur þessa pistils hefur horft upp á margvíslega „gjaldfrjálsa“ notkun á verkum sínum og einnig „í smáum stíl“ orðið þess aðnjótandi að sjá eða lesa „höfundarvarið efni“ stundum sér til ánægju og upplýsingar án þess að hann hafi greitt þau afnot.

Í stað þess að hatast við framfarir og reyna að hamla gegn dreifingu á upplýsingum, listum og menningu sæmdi okkur fremur að taka fúslega við Alnetinu og fella úr gildi lög sem ekki samrýmast nútímanum og semja ný höfundalög um „sanngjörn afnot“ sem allra fyrst.

Þráinn Bertelsson
Þráinn Bertelsson
Þráinn Bertelsson er leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR