Þráinn Bertelsson færir þjóðinni myndir sínar að gjöf

Þráinn Bertelsson færði þjóðinni allar myndir sínar að gjöf við hátíðlega athöfn í gærkvöldi í Bíó Paradís. Kvikmyndasafn Íslands mun hafa umsjón með verkunum. Í kjölfar afhendingarinnar var sýnt endurunnið stafrænt eintak af Nýju lífi (1983) eftir Þráinn.

Nýtt líf gengið, frá vinstri: Karl Ágúst Úlfsson leikari, Jón Karl Helgason var aðstoðartökumaður og sá um förðun og búninga, Þráinn Bertelsson leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi, Elva Ósk Ólafsdóttir leikkona, Ari Kristinsson tökumaður, Þóra Ingólfsdóttir forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands og krjúpandi fyrir miðju Ester Bíbí Ásgeirsdóttir starfsmaður Kvikmyndasafnsins og umsjónarmaður Bíóteksins | Mynd: Kvikmyndasafn Íslands.

Vísir segir frá:

Kvikmyndagerðarmaðurinn Þráinn Bertelsson afhenti í dag íslensku þjóðinni allar kvikmyndir sínar að gjöf við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís.

Rætt var við Þráin í beinni útsendingu frá Bíó Paradís í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þegar hann var spurður hvers vegna hann hefði ákveðið að gefa gjöfina, sem mörgum þykir afar höfðingleg, sagði Þráinn:

„Til að gera einstöku sinnum eitthvað sem ég held að sé skynsamlegt og nytsamlegt fyrir alla sem að því koma. Ég held að það sé nytsamlegt fyrir kvikmyndasafnið að geta halað inn einhverjum tekjum á næstunni, hugsanlega. Það kemur þjóðinni til góða, og kemur líka öðrum sem unnu í kvikmyndagerðinni um sama leyti og ég til góða. Vegna þess að þá eru meiri líkur á að kvikmyndasafnið geti varðveitt verk þeirra,“ sagði Þráinn.

„Svo að mér finnst þetta mjög skynsamlegt og mjög gaman.“

Aðspurður um sína eftirlætis mynd úr eigin smiðju sagði hann dónaskap að gera upp á milli barna sinna.

„En mér þykir vænst um Nýtt líf og hugsanlega Manga,“ sagði hann, og vísaði þar væntanlega til kvikmyndarinnar Magnúsar frá árinu 1989.

Auk þess að hafa fært þjóðinni þessa gjöf við hátíðlega athöfn fagnar Þráinn 78 ára afmæli í dag.

HEIMILDVísir
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR