Tökur standa yfir á „Reykjavík“ Ásgríms Sverrissonar

Atli Rafn Sigurðarson og Nanna Kristín Magnúsdóttir fara með aðalhutverkin í Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson.
Atli Rafn Sigurðarson og Nanna Kristín Magnúsdóttir fara með aðalhutverkin í Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson.

Tökur standa yfir á bíómyndinni Reykjavík, í leikstjórn Ásgríms Sverrissonar, sem einnig skrifar handritið. Áætlað er að þeim ljúki í lok ágúst.

Reykjavík er sætbeisk dramatísk kómedía um sambönd og samskipti. Hringur og Elsa eru par í Reykjavík og eiga sex ára dóttur. Þegar þau ætla að festa kaup á draumahúsinu sínu kemur upp krísa sem leiðir til þess að samband þeirra tekur að gliðna í sundur. Með hjálp Tolla vinar síns freistar Hringur þess að bjarga málunum áður en það verður of seint.

Með helstu hlutverk fara Atli Rafn Sigurðarson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson og Gríma Kristjánsdóttir. Fjöldi annarra leikara kemur fram í myndinni og má þar nefna Hjört Jóhann Jónsson, Völu Kristínu Eiríksdóttur, Margréti Friðriksdóttur, Laufeyju Elíasdóttur, Stefán Hall Stefánsson, Lilju Nótt Þórarinsdóttur og Björn Thors.

Sölmundur Ísak Steinarsson, Daníel Gylfason og Dagur Benedikt Reynisson hjá Bobblehead Productions annast framleiðslu, tökumaður er Néstor Calvo, Ragnar Vald Ragnarsson klippir, Ólöf Benediktsdóttir sér um búninga, Agnar Friðbertsson tekur upp hljóð, Sigurlín Ósk Hrafnsdóttir annast förðun og Níels Thibaud Girerd sér um leikmynd.

Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt leikstjóri og handritshöfundur umræddrar kvikmyndar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR