Ertu bíófíkill, bíósælkeri, smellajaplari eða bara áhugalaus um bíó?

Bíógestir skemmta sér. Úr Sullivan's Travels eftir Preston Sturges frá 1941.
Bíógestir skemmta sér. Úr Sullivan’s Travels eftir Preston Sturges frá 1941.

Skýrsla unnin af ráðgjafafyrirtækjunum Attentional í Bretlandi og Headway í Frakklandi á vegum Creative Europe, greinir hegðun og áherslur kvikmyndahúsagesta í Evrópu með könnun í tíu löndum og freistar þess að draga upp mynd af framtíðinni. Skýrslan veltir því einnig upp hvernig hægt sé að hjálpa evrópskum kvikmyndum að ferðast utan heimalanda sinna.

Í skýrslunni er bíógestum skipt í fimm hópa:

1. Bíófíklar (Movie Addicts): Oftast ungt fólk, með á nótunum í tækninýjungum og hefur áhuga á alls kyns myndum, frá Evrópu, Hollywood og annarsstaðar. Þessi hópur er gjarnan meðvitaður um myndir sem eru á leiðinni.

2. Bíósælkerar (Movie Selectives): Svipaður hópur að stærð en eldri, almennt með góða menntun. Kjarnaáhorfendur evrópskra kvikmynda þar sem þau hafa mestan áhuga á þeim. Þau eru vandlát, bíða þar til mynd hefur fengið orðspor og söguefnið hefur áhrif á valið.

3. Metsölumyndagengið (Blockbuster Lovers): Andstæða bíósælkeranna, þau kjósa fyrst og fremst stóru myndirnar frá Hollywood og það er ekki auðvelt að sannfæra þau um að sjá evrópska mynd.

4. Smellajaplararnir (Hit Grazers): Oftast unglingar í yngri kantinum og frekar stúlkur. Þessi hópur hefur ekki brennandi áhuga á kvikmyndum en sér myndir sem passa við lífstílinn.

5. Áhugalausir um myndmiðla (Media Indifferents): Þessi hópur býr á landsbyggðinni, hefur takmarkaðan aðgang að kvikmyndahúsum og hefur engan sérstakan áhuga á kvikmyndum.

Reglufargan vinnur gegn kvikmyndaiðnaðinum

David Graham forstjóri Attentional gerir grein fyrir skýrslunni í fagmiðlinum Screen. Hann bendir meðal annars á að niðurhal án greiðslu og streymisþjónustur eru afar stór hluti af myndneyslu en skilar engum tekjum til bransans. Þá segir hann áhugavert að sjá að kostnaður var mikið atriði hjá þeim sem hala niður þegar kom að bandarískum kvikmyndum en aðgengi var vandamálið þegar um evrópskar myndir var að ræða, margir höfðu á orði að hvergi væri að finna löglegan aðgang að myndunum.

Graham segir þar kominn kjarna málsins; það er ekki nægilegt framboð á löglegum aðferðum til að sjá evrópskar myndir. „Flestar myndir séu aðeins sýndar í takmarkaðan tíma í bíói í heimalandinu og sjást síðan ekki meir. Framboð evrópskra mynda á DVD með texta er einnig takmarkað. Löglegum dreifileiðum á netinu fer fjölgandi en evrópskar myndir eru ekki áberandi þar, meðan næstum allt er fáanlegt gegnum niðurhal án greiðslu. Dreifing kvikmynda er föst í reglufargani sem vinnur gegn sameiginlegum innri markaði og einnig gegn uppbyggingu öflugs kvikmyndaiðnaðar,“ segir Graham. „Vandamálin eru alvarleg.“

Aðgengi, sýnileiki og áhugi

Skýrslan nefnir þrjú atriði sem evrópsk kvikmyndagerð þurfi að tækla, út frá viðbrögðum þeirra sem tóku þátt í könnuninni:

1. Aðgengi: Þátttakendur nefndu að margar myndir sem þau hefðu áhuga á að sjá, sérstaklega evrópskar myndir, væru ekki í boði.

2. Sýnileiki: Margir nefndu að þeir yrðu ekki varir við umfjöllun um evrópskar myndir, ekki væri verið að ná til þeirra með réttu skilaboðunum.

3. Áhugi: Margir höfðu á orði að evrópskar myndir væru of „dökkar“, „hægar“ og legðu of mikla áherslu á félagsleg viðfangsefni.

Graham segir það koma skýrt fram að áhorfendur telji ekki að allar myndir þurfi að sjá í kvikmyndahúsi. „Kvikmyndadreifing er að breytast. Margir líta nú á kvikmyndahúsin sem vettvang stærri viðburðamynda eða kvöldskemmtunar með vinum. Aðrar smærri myndir þarf ekki endilega að sjá í bíói – og okkur voru gefin dæmi: sci-fi er t.d. fyrir bíó en drama ekki. Að þessu leyti er hið hefðbundna verklag kvikmyndaiðnaðarins úr takti við það sem neytendur hugsa og gera. Áhorfendur eru þeirrar skoðunar að ekki allar myndir séu verðar bíóupplifunar. Evrópski kvikmyndaiðnaðurinn hefur ekki vaknað til vitundar um að áhorfendur líta svo á að ekki sé ástæða til að takmarka aðgengi að kvikmynd meðan hún er sýnd í kvikmyndahúsum, sérstaklega ef myndin virðist ekki vera þeirrar gerðar að nauðsynlegt sé að sjá hana í kvikmyndahúsi.“

Sjá grein Graham hér: The European Film Audience report | Comment | Screen.

Skýrslan í heild sinni er hér: A PROFILE OF CURRENT AND FUTURE AUDIOVISUAL AUDIENCES

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR