spot_img
HeimAðsóknartölurFyrsta Hobbitamyndin mest sótt 2013

Fyrsta Hobbitamyndin mest sótt 2013

-

The Hobbit: An Unexpected Journey var mest sótta myndin á Íslandi 2013.
The Hobbit: An Unexpected Journey var mest sótta myndin á Íslandi 2013.

Árið 2013 voru seldir 1.369.901 miðar fyrir 1.484.362.247.- krónur í kvikmyndahúsum á Íslandi. Er þetta fækkun á bíógestum um  4% á milli ára en heildartekjur eru einnig niður um 2% miðað við árið 2012.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SMÁÍS, samtökum myndrétthafa á Íslandi.

Þar segir einnig að meðalverð á bíómiða á Íslandi árið 2012 hafi verið 1.084.kr, sem er ennþá það lægsta sem gerist á meðal nágrannaþjóða enda nálægt því meðalverði sem bandaríkjamenn greiddu, sem var $8.05. Þess ber þó að geta að vsk er mun hærri hér á Íslandi en í bandaríkjunum.

Bandarískar kvikmyndir nutu mikilla vinsælda á árinu, eins og oft áður, en að þessu sinni voru allar myndirnar í efstu 20 sætum þaðan. The Hobbit: An Unexpected Journey trónir í efsta sæti á undan þriðju myndinni um Iron Man sem er í öðru sæti rétt á undan öðrum hluta The Hobbit: Desolation of Smaug, sem hefur fengið mjög góða aðsókn á síðustu vikum. Hasarmyndin 2 Guns, sem leikstýrð er af Baltasar Kormáki, er í áttunda sæti en engin íslensk mynd er inná topp 20 listanum í ár.

Hross í oss í 24. sæti – markaðshlutdeild íslenskra mynda dregst verulega saman milli ára

Hross í oss er sú íslenska mynd sem kemst næst því að komast inná topp 20 listann, með tekjur uppá tæpar 20 milljónir sem nægir til að lenda í 24. sæti en næsta íslenska mynd á eftir henni er gamanmyndin Ófeigur gengur aftur í 33 sæti með tekjur uppá tæpar 14.5 milljónir króna. Í heildina nema tekjur af íslenskum kvikmyndum tæpum 3% af heildartekjum 2013 og eru rúmlega 2% af aðsókn. Þetta er verulega lakari hlutfall en árið áður þar sem hlutur íslenskra mynda nam rúmlega 11% af heildartekjum. SMÁÍS segir þetta fara langan veg í að skýra minnkun á heildartekjum milli ára.

13% samdráttur í kvikmyndahúsaðsókn frá 2010 – SMÁÍS kennir niðurhali um

Frá árinu 2010 hefur aðsókn í kvikmyndahús á Íslandi minnkað um 13% en á sama tímabili hefur aðsókn í kvikmyndahús í Bandaríkjunum hækkað um 1%. Þar sem aðbúnaður kvikmyndahúsa á Íslandi er með því allra besta sem gerist í heiminum og meðalverð það lægsta sé borið saman við nágrannalönd segir SMÁÍS greinilegt að ólöglegt niðurhal taki sinn toll og bendir á að hvorki íslensk stjórnvöld né lögregla hafi tekið þátt í að verja hinar skapandi greinar líkt og gert er í öðrum löndum í kringum okkur sem við miðum okkur gjarnan við.

Hérna er listi yfir 20 stærstu myndir ársins 2013 á Íslandi sem eru allar bandarískar að þessu sinni.

Mest sóttu myndirnar 2013
Nr. Titill Dreifingaraðili Tekjur kr. Aðsókn
1 The Hobbit: An Unexpected Journey Myndform 49.444.367 39.785
2 Iron Man 3 Samfilm 44.839.945 37.552
3 The Hobbit: The Desolation of Smaug Myndform 44.313.453 33.559
4 Hunger Games 2 Myndform 42.876.296 37.962
5 Thor: The Dark World Samfilm 37.251.835 29.862
6 Despicable Me 2 (Aulinn ég 2) Myndform 37.030.271 39.709
7 Monsters University Samfilm 36.378.205 38.058
8 2 Guns Sena 33.016.598 29.845
9 Prisoners Samfilm 32.398.460 29.243
10 Man Of Steel Samfilm 31.641.285 25.936
11 We´re The Millers Samfilm 28.582.378 25.795
12 Frozen Samfilm 28.573.396 30.936
13 Django Unchained Sena 27.783.643 24.996
14 Fast & Furious 6 Myndform 26.654.778 24.631
15 World War Z Samfilm 26.029.455 21.156
16 Smurfs 2 Sena 25.827.990 27.430
17 Hangover 3 Samfilm 24.585.391 22.212
18 Croods Sena 24.273.096 26.590
19 Gravity Samfilm 22.613.795 18.033
20 Life of Pi Sena 22.242.364 17.939
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

NÝJUSTU FÆRSLUR