Sextán nýjar heimildamyndir frumsýndar á Skjaldborgarhátíðinni

skjaldborg-2015_grafik

Sextán nýjar íslenskar heimildamyndir verða frumsýndar á Skjaldborgarhátíðinni sem fram fer um næstu hvítasunnuhelgi, 22.-25. maí. Auk þess verður sýnt úr 4 myndum á vinnslustigi. Konur eru sérlega áberandi í ár í hópi stjórnenda mynda. Heiðursgestir eru danska leikstýran Eva Mulvad og samstarfskona hennar framleiðandinn Sigrid Dyekjær.

Hátíðin mun að vanda fara fram í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði, en þetta er í 9. sinn sem hún er haldin.

Halla Kristín Einarsdóttir.
Halla Kristín Einarsdóttir heimildamyndaleikstýra.

Dagskráin er sérlega fjölbreytt en athygli vekur hversu margar konur eiga myndir á hátðinni (rétt tæpur helmingur leikstjóra eru konur). Þá eru konur og kvennabarátta áberandi í mörgum myndanna en í því samhengi mætti nefna Jóhanna: Síðasta orrustan eftir Björn B. Björnsson þar sem áhorfendur fá einstaka innsýn í síðustu vikur Jöhönnu Sigurðardóttur í embætti forsætisráðherra. Halla Kristín Einarsdóttir frumsýnir Hvað er svona merkilegt við það? framhald heimildamyndarinnar Konur á rauðum sokkum sem hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar 2009. Einnig verða frumsýndar myndir eftir Þórunni Hafstað (sem gerði hina frábæru Íslensk alþýða 2009 og hlaut m.a. Menningarverðlaun DV fyrir), Jóhann Jóhannsson, Kristján Loðmfjörð, Huldar Breiðfjörð, Helenu Stefánsdóttur, Þór Ómar Jónsson o.fl.

Þórunn Hafstað heimildamyndaleikstýra.
Þórunn Hafstað heimildamyndaleikstýra.

Að sögn aðstandenda barst hátíðinni metfjöldi umsókna í ár og hefur aldrei þurft að hafna jafnmörgum frambærilegum verkefnum. Benda þeir á þetta sem merki um þá miklu grósku sem ríki í íslenskri heimildamyndagerð um þessar mundir.

Eva Mulvad heimildamyndaleikstýra er heiðursgestur Skjaldborgar í ár.
Eva Mulvad heimildamyndaleikstýra er heiðursgestur Skjaldborgar í ár.

Heiðursgestirnir að þessu sinni koma frá Danmörku og eru þær meðal stofnenda og eigenda Danish Documentary sem er leiðandi á heimsvísu á sviði skapandi heimildamynda. Fyrirtækið hefur framleitt yfir 20 heimildamyndir sem eru margar hverjar margverðlaunaðar en leikstýran Eva Mulvad hefur t.a.m. unnið aðalverðlaun á Sundance, IDFA og Karlovy Vary, en heimildamynd hennar The Good Life verður opnunarmynd hátíðarinnar í ár.

Dagskránni verður svo lokað með heimildamyndinni Finndið eftir Ragnar Hansson og uppistandi með Hugleiki Dagssyni, en Finndið segir frá ferð frændanna Hugleiks og Ara Eldjárns á uppistandshátíð í Turku í Finnlandi.

Áhugafólki um heimildamyndagerð – og öllum þeim sem kunna að hafa áhuga á að upplifa frábæra stemmningu um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði – er bent á að fylgjast vel með á heimasíðu hátíðarinnar því nú þarf virkilega að fara að huga að ferðalaginu vestur. Að sjálfsögðu verða svo plokkarinn, fiskiveislan í Sjóræningjahúsinu og hið löðrandi hressa dansiball á sínum stað.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR