Skjaldborgar-dagbók, sunnudagur: Kvennasaga

Við skulum alveg hafa eitt á hreinu; það getur alveg verið erfitt að rífa sig upp klukkan tíu á morgnana eftir lítinn svefn og mögulega aðeins of marga bjóra kvöldið áður. Mér tókst það ekki alltaf fyrstu árin en með aukinni reynslu er ég farinn að stilla líkamsklukkuna nokkuð auðveldlega á Skjaldborgartíma og tilheyrandi svefnleysi.

En eins og ég segi, þetta getur verið erfitt og það lenda allir í því að sofa yfir sig – og ástæðan fyrir því að ég minnist á það að þessi ógæfa henti sýningarmennina þennan sunnudagsmorgun. Líklega jinxaði kunningi minn þetta þegar hann talaði um það að ólíkt kvikmyndahátíðum í höfuðborginni hefði hann aldrei upplifað tæknilega hnökra hjá sýningarstjórum Skjaldborgar – en þeir voru vissulega nokkrir þennan sunnudag – og sendi ég hér með sýningarstjóranum baráttukveðjur fyrir næstu hátíð svo þetta fall verði nú örugglega fararheill.

Baráttukveðjur til sýningarmannanna!
Baráttukveðjur til sýningarmannanna!

Hnökrarnir voru ekki þess eðlis að myndirnar liðu fyrir það – ef eitthvað vantaði þá var einfaldlega byrjað aftur – en þetta þýddi að pásurnar á milli sýninga, sem eru stuttar fyrir – urðu örstuttar, þannig að planaðar sundferðir og hádegissnarlar riðluðust óneitanlega. En það eru lúxusvandamál miðað við hörmungar seinni heimstyrjaldarinnar – en bíótvenna morgunsins var einmitt heimstyrjaldartvenna.

Frá Svartahnjúks til Kleppjárnsreykja

Þær mynduðu ansi góðan kontrast hvor við aðra. Svartihnjúkur – stríðssaga úr Eyrarsveit var ósköp hefðbundin stríðssaga frá Íslandi. Hún snýst um herflugvél sem hrapaði og hermennina sem fórust – og líf hermannana hérlendis. Stundum finnur maður vissulega fyrir undirliggjandi harmi en engu að síður fellur myndin í undirflokk sem mætti eiginlega kalla „teboð til aldraðra Breta að minnast Íslandsáranna í stríðinu.“ Þorsteinn J gerði þetta óneitanlega betur í Veturhús fyrir fáeinum árum – enda hafði hann töluvert merkilegri sögu að vinna með – en þótt þetta skapi allt ákveðna fjarlægð á þann harm sem myndin er þó í raun um þá er ósköp notalegt að drekka te með flestum þessara Breta.

Það er sakleysisleg mynd sem birtist af Íslandi stríðsáranna í myndinni – veður eru vissulega válynd en fólkið virðist meinlaust. Mynd Ölmu Ómarsdóttur um Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum sýnir hins vegar að hér bjó þjóð sem var ekki síður uppfull af þjóðernishyggju en nasistarnir sem verið var að vernda hana fyrir.

 

Nú er alþekkt að stúlkur í „ástandinu“ mættu fordómum samferðarmanna og jafnvel útskúfun – og það þurfti ekki mikið til. Það gat verið nóg að vinna fyrir herinn eða gefa hermanni auga til að vera stimpluð Kanaskækja eða eitthvað þaðan af verra. En það sem hefur minna farið fyrir er hversu kerfisbundnir þessir fordómar voru. Þessar stúlkur voru einfaldlega ofsóttar af kolbrjáluðu ofstæki og sendar á upptökuheimilið á Kleppjárnsreykjum eftir að hafa verið dæmdar fyrir siðferðisbrot af sérstökum Ungmennadómstól.

Aldrei réttilega – sumar höfðu barasta alls ekki gert það sem þær voru sakaðar um, aðrar voru fullveðja konur sem áttu í fullkomlega eðlilegu sambandi við fullveðja karlmenn – og sumar voru vissulega barnungar og höfðu lent í hrakförum í samskiptum sínum við hermenn, en það gerir þær að fórnarlömbum, ekki glæpamönnum.

Þá verður maður óneitanlega forvitinn um Jóhönnu Knudsen, fyrstu lögreglukonu Íslands. Þótt hún sé vissulega brautryðjandi þá ætla ég rétt að vona að ekki ein einasta lögreglukona taki hana sér til fyrirmyndar – enda einsetti hún sér að ofsækja kornungar kynsystur sínar í nafni einhvers skelfilegs tepruskapar og þjóðernisrembu. En það breytir því ekki að maður verður óneitanlega forvitin um hvaða ástæður lágu að baki því að hún færi í þessa vanhugsuðu krossferð.

Veikleiki myndarinnar er þó hreinlega innbyggður – Alma gat lesið skjölin en gat ekki rætt við þessar stúlkur eða aðstandendur þeirra eða sagt sögu þeirra beint – af því til þess að lesa skjölin þurfti hún að skrifa undir þagnareið. Þannig er þetta í ákveðnum skilningi loforð um heimildamynd sem vonandi verður á endanum gerð, enda eiga þessar stúlkur sannarlega skilið að saga þeirra verði sögð á einhvern hátt.

Og raunar er rétt að láta eina fyrirspurn fylgja; veit einhver um bíómynd eða bók þar sem saga einstakra stúlkna í þessu ástandi er reifuð (Hvort sem um er að ræða skáldskap eða ævisöguleg skrif) ? Eiginlega er óskiljanlegt ef sagan  Rómeó og Júlía í ástandinu hefur ekki verið skrifuð.

Framtíðin eftir hádegi

Eftir sundsprett í hádeginu var svo röðin komin af ókláruðum bíómyndum. Verk í vinnslu er alltaf forvitnilegur þáttur hátíðarinnar – og ágætis spádómur um framtíð íslenskra heimildamynda, enda hafði ég séð a.m.k. þrjár af myndum hátíðarinnar á vinnslustigi á hátíðum fyrri ára.

Ég misreiknaði því miður sundsprettinn aðeins og missti því af broti úr Ég er einfaldur maður – ég heiti Gleb en náði þó að hlusta á leikstjórann, Ingvar Ágúst Þórisson, ræða myndina, sem hljómar eins og forvitnileg kómík.

Harpa Fönn Sigurjónsdóttir sagði frá Heita pottinum, stuttri heimildamynd sem hún er með í vinnslu.
Harpa Fönn Sigurjónsdóttir sagði frá Heita pottinum, stuttri heimildamynd sem hún er með í vinnslu.

Á Heita pottinn hennar Hörpu Fannar hefur verið minnst áður en það rétt að bæta við að maður er forvitinn að vita hvernig teiknimyndir Láru Garðarsdóttur munu spila saman við myndina. Aðallega verður samt gott fyrir  okkur, sem aldrei myndum rífa okkur í sund klukkan hálf-sjö á morgnana, að sjá hvort það sé raunverulega eitthvað til í þessum sögusögnum að þá sé allur hasarinn í pottunum.

Fyrir karókíþyrsta bíógesti er svo rétt að setja fyrirvara á FC Kareoki – hún virðist ekkert fjalla um karókí heldur bara mýrarbolta. Karaoke-menn vinna loks meistaratitilinn og halda í kjölfarið í víking til Finnlands, þar sem þeir fá lánaða leikmenn erkifjendanna. Eiginlega minnir myndin helst á ógleymanleg ævintýri Fótboltaliðsins Fals, eins fræknasta knattspyrnuliðs heimsbókmenntanna. Tja, fræknasta ef við erum að tala um skemmtigildi, fótboltafræknin var kannski öllu minni.

Þá mætti Arnar Sigurðsson upp á svið og kynnti Listina að skapa, sem er í rauninni verk í vinnslu um verk í vinnslu. Arnar hefur unnið fyrir hópfjármögnunarsíðuna Karolina Fund og myndin er framleidd af þeim, en virðist þó alls ekki einbeita sér eingöngu af verkefnum sem hafa byrjað á síðunni, heldur veita fanga miklu víðar. Fókusinn virðist vera fyrst og fremst á það frjókorn sem hugmyndin er og þann langa veg sem er frá henni að listaverki. Í rauninni lítur út fyrir að þetta gæti verið ágætis kennslumynd fyrir þá sem langar að vera með myndir á Skjaldborgum framtíðarinnar.

Beðið eftir veðrinu

Fyrir margt löngu þá ræddi ég við Jóhönnu Kristjónsdóttur um bók hennar Insjallah og hún útskýrði titilinn á þann hátt að í þessu orði krystallaðist heimspeki arabískunna. Insjallah þýðir „ef Guð lofar“ – en notkun þess er kannski ekki beinlínis sérlega trúarleg, þetta er bara eðlileg baktrygging gegn hvers konar áföllum og óvæntum uppákomum. Þetta er andstæðan við að ljúga upp í ermina á sér – að lofa bara að koma ef þú mögulega getur. Fljótlega eftir að mynd Huldars Breiðfjörðs, Ef veður leyfir, hefst þá vitrast manni að það sé eiginlega óskiljanlegt að Íslendingar noti þann frasa ekki í hvert einasta skipti þegar þeir plana eitthvað.

Myndin gerist á þessum Vestfjörðum vetursins sem eru eilíflega háðir því að veðrið gefi leyfi – og þótt myndin sé um margt köflótt þá eru það grunskólabörnin sem stela senunni. Flest eru þau einfaldlega að svara spurningunni um hamingjuna – en við fylgjum einum þeirra eftir, sveitastrák sem er sterkur karakter bæði út af því þetta er kunnugleg týpa sem hefur ekki fengið sitt pláss á hvíta tjaldinu áður og líka út af því hann er með bein í nefinu – ólíkt sumum þeirra sem ættu að vera að ala hann upp.

 

Ein besta mynd hátíðarinnar beið svo handan við hornið, Biðin eftir Þór Ómar Jónsson. Myndin fjallar um uppfærslu á Beðið eftir Godot og hefst á fyrsta samlestri. En þótt það sé vissulega margt forvitnilegt hér um leikritið sem ekkert gerist tvisvar, þá er myndin þó fyrst og fremst frábær heimild um nokkra af helstu leikurum þjóðarinnar, sem margir gætu verið á lokasprettinum.

Við sjáum aldna meistara á borð við Erling Gíslason, Gunnar Eyjólfsson, Arnar Jónsson og Pétur Einarsson lesa línur, ræða leiklistina, segja sögur og skjóta hver á annan. Það er svo Sigurður Skúlason sem er eins konar aldursleg brú á milli kynslóðanna, en hinn kornungi (í samanburðinum) Jón Atli Jónasson er leikstjóri verksins. Sigurður var mættur á Skjaldborg og gerði þetta aldursbil og nauðsyn þess að brúa það að umtalsefni í stuttri tölu – það séu fordómar í báðar áttir en óteljandi hlutir sem yngri leikarar geta lært af þeim eldri sem og öfugt.

Svefnpásan

Ókei, millifyrirsögnin er lygi. En ég hefði alveg getað sofið Vindauga af mér. Hún er í raun frekar vídjólistaverk en bíómynd og myndi væntanlega njóta sýn betur sem slík. Við sjáum mismunandi senur teknar út um (oft skítuga) glugga, konsept sem hefur sinn sjarma en fyrir utan hæg-dramatískt lokaatriði þá er einfaldlega ekki nógu mikið að gerast til þess að réttlæta heila bíómynd, þótt stutt hafi verið.

Það voru hins vegar margir mjög hrifnir af Drottins náð – en sjálfur var ég lengi að tengja við hana. Seinni hluti hennar er þó miklu sterkari – og það verða einhver hvörf í myndinni þegar hún hættir að vera talandi hausar og rekur þess í stað ansi magnaða sögu ungrar konu – sem snýr baki í okkur. Það er alls konar svona tilraunamennska sem virkar mjög vel í myndinni – gallinn er að hefðbundnari sviðsetningar virka síður. Myndin fjallar um samskipti manna og dýra, flókin samskipti og oft mystísk eða dulræn. Hins vegar dró trúarlegur vinkill myndarinnar hana töluvert niður – hann átti einfaldlega ekki heima þarna. Endirinn var hins vegar magnaður og kjarkaður, það má myndin eiga.

Pönkaður Kvennalisti

Á hverju ári skolar nýjum bylgjum á land á Patreksfirði – þessar myndir eru ansi stór hluti þeirra heimildamynda sem framleiddar eru á Íslandi hvert ár og því verður hátíðin í heild sinni stundum ákveðinn þverskurður að tíðaranda. Þetta árið er tíðarandinn ansi femínískur og til að mynda eru Jóhönnu, Ég vil vera skrítin og Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum allar á sinn hátt púsl í kvennasögu Íslands síðustu öldina – en mikilvægasta púslið er þó líklega sigurmyndin.

Fyrir nokkrum árum vann Halla Kristín Einarsdóttir Einarinn með Konur í rauðum sokkum – um rauðsokkuhreyfinguna á áttunda áratugnum. Núna var hún fyrst allra til þess að vinna Einarinn tvisvar, núna fyrir framhaldið – Hvað er svona merkilegt við það? – sem fylgir sögu Kvennalistans og gerist að mestu á níunda áratugnum þótt hún teygi sig vissulega alla leið í nútímann.

Hrafnhildur Gunnarsdóttuir framleiðandi og Halla Kristín Einarsdóttir stjórnandi heimildamyndarinnar Hvað er svona merkilegt við það?
Hrafnhildur Gunnarsdóttuir framleiðandi og Halla Kristín Einarsdóttir stjórnandi heimildamyndarinnar Hvað er svona merkilegt við það?

Þessar myndir eru báðar skörp pólitísk analýsa en sömuleiðis stórskemmtilegar og stundum drepfyndnar. En það sem skiptir kannski mestu máli er hvernig þær sýna hvað var mikið pönk í þessari baráttu – sem hefur oft verið vanmetinn þáttur í seinni tíma söguskoðun. Þannig birtist Kvennalistinn manni sem flokkur sem svipar um margt til Besta flokksins – því þótt stefnuskráin væri gjörólík þá náðu fylkingarnar hylli út á það að gera hlutina öðruvísi og hafna ævafornri kreddufestu hinnar hefðbundnu pólitíkur.

Meðal fjölmargra viðmælenda myndarinnar er Salome Þorkelsdóttur, Sjálfstæðiskona, og myndin nær raunar að sýna nokkuð nýja hlið á henni – þá sem snýr að því að vera eina konan í Sjallaheimi. En hins vegar saknaði ég aðeins að sjá betur hvernig konum í vinstriflokkunum, konum á borð við Jóhönnu og Guðrúnu Helga, samdi við Kvennalistann.

En þetta er margrbrotin, skemmtileg og lifandi mynd sem vann jafna keppni verðskuldað – og raunar vissi maður alveg að hún væri að fara að vinna þegar Halla var klöppuð á svið í troðfullum sal. Teiknimyndasenur Unu Lorenzen og tónlist Lay Low gera svo heilmikið fyrir myndina.

Batman og Hulli

Að lokinni hinni árlegu fiskiveislu í mínu ástkæra Sjóræningjahúsi var svo komið að lokamyndinni Finndið. Myndin fjallar um uppistandsferðalag þeirra félaga Hugleiks Dagssonar og Ara Eldjárns til Finnlands þar sem þeir tóku þátt í uppistandskeppni við Finna og Suður-Afríku. En þótt Ari fái sitt pláss þá er myndin samt fyrst og fremst um Hugleik og hans þroskaferil sem grínista.

Hugleikur Dagsson með uppistand í Skjaldborgarbíói.
Hugleikur Dagsson með uppistand í Skjaldborgarbíói.

Þetta er í sjálfu sér ekki flókin formúla – fylgst með grínistum að vera fyndnir í daglegu lífi – en hún virkar. Þegar til Finnlands kemur hittum við svo fyrir fleiri þjóða grínista og þar var einn Finninn langeftirminnilegstur – af því hann minnti mig svo einkennilega á Charles Bukowski og Jókerinn – og á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á að allir þessir grínistar gætu verið góðir Batman-skúrkar. Nema kannski Ari – hann þyrfti þá væntanlega að vera Batman sjálfur.

Eftir að uppistandsmyndinni lauk mætti svo Hugleikur með eiginlegt uppistand (nema auðvitað að þrívíddin hafi bara verið svona sannfærandi). Sem þrælvirkaði til að koma fólki í gírinn fyrir lokaballið – Spider-Man brandarinn og Tinder-brandarinn stóðu upp úr öflugri dagskrá en svo var haldið í Félagsheimilið á lokaballið þar sem Halla fékk Einarinn og Íris Stefanía Skúladóttir, leikstýra Samsuðu, fékk ekki síður mikilvæg verðlaun – sjálfa limbóstöngina eftir sigur í árlegri limbókeppni Skjaldborgar.

Ég gæti auðvitað skrifað meira en eins og allir Skjaldborgarar vita þá verða bestu sögurnar eftir á Skjaldborg og verða ekki rifjaðar upp aftur fyrr en á næsta ári. Þið verðið að gjöra svo vel að mæta þá til að heyra þær.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR