Takk Skjaldborg!

Ég vil bara byrja á að þakka fyrir mig á Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildarmynda (já, ég stend í viðræðum með þetta R í heimilda(r)myndum, sérstaklega við Heiðu Jóhannsdóttur kvikmyndafræðing og hoppa fram og aftur með þetta. Getum við tekið þetta í gegn íslenskufólk, t.d. Dagný Kristjáns) og takk allir sem lögðu hönd á plóg Skjaldborgar, Helga, Hafsteinn, Davíð og allir hinir sem gerðu þetta að veruleika þetta árið.

Flóran sem birtist þarna er virkilega umhugsunarverð og það er alltaf vítamínsprauta að koma þarna og sjá hvað fólk er að gera margt frábært.

Það er svo einnig umhugsunarefni hversu lítið af því skilar sér út í samfélagið nema svona greatest hits, fjármögnuð etc. Sem veteran á hátíðinni man ég t.d. vel eftir stuttum myndum Kristjáns Loðmfjörð og vissi þá strax að þarna var komin einhver sem fylgjast þyrfti með þótt ég þekki hann ekki neitt. Myndin hans í ár (Drottins náð) var ein af þeim skemmtilegustu og kreatífustu sem ég sá og ég er líka alltaf spennt fyrir myndunum hennar Þórunnar Hafstað (Vindauga) sem er að gera flottar og listrænar tilraunir með formið.

Ég elskaði myndina hennar Brynju um Kitty von Sometime (Ég vil vera skrýtin) og þarf greinilega að kynnast þeirri konu og myndin hennar Ölmu um konurnar á Kleppjárnsreykjum (Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum) er eitthvað það bilaðasta sem ég hef séð og ég er enn brjáluð eftir að hafa séð hana.

Þetta og allt hitt er eitthvað sem skiptir máli. Ég missti af skömmum mínum af Latínbóndanum og sé biturlega eftir því núna, (sorry Jón Karl gamli kennari) og myndinni hans Huldars (Ef veður leyfir) sem var víst frábær og really, myndin um Jóhönnu (Jóhanna: síðasta orrustan) er aaaafar áhugaverð og ég bara dáist að þeim sem nenna að taka slaginn þarna í apabúrinu á Austurvelli. Það að eiga þessa mynd um hana mun verða ómetanlegt og loksins fáum við einhverja smá innsýn í það hvernig þetta stjórnarskrármál spilaðist og hvað gerðist.

Að auki voru þarna margar myndir eftir fólk sem hefur samfélaginu hitt og þetta að segja um sögu sína, fortíð og framtíð og í alvöru, við þurfum á því að halda. Takk Skjaldborg, keep on going!

Verðlaunamynd Höllu Kristínar, Hvað er svona merkilegt við það?, verður á dagskrá RÚV næsta vetur. Hér að neðan er stikla.

 

Halla Kristín Einarsdóttir
Halla Kristín Einarsdóttir
Höfundur leggur stund á kvikmyndagerð.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR