spot_img

Skjaldborgar-dagbók, laugardagur: Kúbusveifla, mörgæsir og skrítnar stelpur

Líf kvikmyndagerðarmanna einkennist af latte drykkju og öðrum eilífum veisluhöldum.
Líf kvikmyndagerðarmanna einkennist af latte drykkju og öðrum eilífum veisluhöldum.

Skjaldborg er ekki bara hátíð sem fer seint að sofa – hún fer líka snemma á fætur. Að því ég best veit þá eru laugardagur og sunnudagur á Skjaldborg einu dagarnir sem hægt er að komast á bíó fyrir hádegi hérlendis – og morgunmyndirnar eru ágætis prófsteinn á hvort þetta verði góður árgangur, því ef hann er það ekki þá er hætt við að þeim allra verstu hafi verið fórnað morgunbíóinu.

Mætingin hefur ekkert alltaf verið góð um tíuleytið en hún var ágæt þennan laugardagsmorgun – og bíóið byrjaði bara nokkuð vel. Meistari Tarnús og hús er skemmtileg svipmynd af sérvitringnum pabba leikstjórans sem byggir frægt kúluhús í Hafnafirði. Myndin hefur ýmislegt forvitnilegt að segja um arkítektúr og þá listsköpun sem felst í því að búa sér heimili, en gallinn við myndina er að í raun hefur hún sagt flest sem hún ætlaði að segja á fyrsta korterinu. Eftir það heldur hún svo áfram í hálftíma í viðbót. Það var engu að síður ákveðin styrkur í að taka sér tíma undir lokin í að sýna hvernig húsinu er rústað af risavaxinni maskínu sem minnir mann á eyðileggjandi dreka sem virðist jafn staurblindur á fegurðina og skilningslausir byggingafulltrúar eins og sá sem í raun eyðilagði drauminn um kúluhúsið áður en hann varð að raunveruleika.

[quote align=”center” color=”#999999″]Maður veit strax þegar maður sér Tómas drösla risastórum kontrabassanum í gegnum snjókomu í Vesturbænum að myndin hefur hitt á einhvern fágætan tón, rétt eins og besti djassslagari.[/quote]

Næst á dagskrá var svo Amma – ekki mín heldur amma Eyþórs Jóvinssonar. Lítil hugguleg átta mínútna mynd um síðasta jólahald höfundar með ömmu sinni – vissulega ekkert kvikmyndalegt stórvirki, en kannski frekar ljósmynd sem þarf að taka áður en það verður of seint. Raunar gæti verið mjög forvitnilegt þjóðfræði-kvikmyndaverkefni að gera fleiri svona myndir – safna saman mismunandi jólahefðum í lifandi myndir.

Jón Karl Helgason frumsýndi heimildarmyndina Latínbóndann sem fjallar um tónlistarmanninn góðkunna Tómas R. Einarsson. Á myndinni er einnig Friðgerður Guðmundsdóttir.
Jón Karl Helgason frumsýndi heimildarmyndina Latínbóndann sem fjallar um tónlistarmanninn góðkunna Tómas R. Einarsson. Á myndinni er einnig Friðgerður Guðmundsdóttir.

Maður glaðvaknaði hins vegar við næstu mynd – Latínbóndann, sem fjallar um Tómas R. Einarsson djassara, kontrabassaleikara, þýðanda og Kúbusérfræðing. Maður veit strax þegar maður sér Tómas drösla risastórum kontrabassanum í gegnum snjókomu í Vesturbænum að myndin hefur hitt á einhvern fágætan tón, rétt eins og besti djassslagari. Þetta er ekki ævisaga en þó brot úr tónlistarævisögu – fyrsta músíkástin og stærstu músíkástirnar eru hér í forgrunni, þótt vissulega fáum við líka svipmyndir af lífinu handan tónlistarinnar – þótt jafnvel þar sé tónlistin  alltumlykjandi. Bæði er brugðið upp bernskuglefsum og undir lokin er örstutt en undurfallegt atriði sem sker óneitanlega í hjartað, um það hvernig tónlistin getur sefað jafnvel sárasta harminn.

Það sem gerir okkur frjáls

Eftir að hafa borðað bratwurst-pylsu í hádegismat til stuðnings útskriftarferð 10. bekkjar Patreksskóla þá hurfum við aftur inní myrkan bíósalinn, sem í þetta skiptið var lýstur upp af verkum átta myndlistarmanna í myndinni Samsuðu – sögu átta listamanna. Þessir átta listamenn eru að taka þátt í verkefninu List án landamæra, sem þýðir að fjórir þeirra eru fatlaðir og fjórir þeirra ófatlaðir og allir vinna þeir í tveggja manna pörum. Myndin er samt mest lítið um fötlun eða skort á henni – hún er einfaldlega um listamenn og hvernig þeir geta virkjað hvorn annan til góðra verka með því að skapa saman eða jafnvel nýta hvorn annan sem innblástur í eigin verk. Eitthvað sem mætti raunar yfirfæra á hátíð eins og Skjaldborg – enda er ég sannfærður um að hugmyndin af ófáum heimildamyndunum hafi kviknað einmitt hérna.

Það var einstaklega gaman að sjá hversu vel þeir Hugleikur Dagsson og Ísak Óli Sævarsson unnu saman – enda aldavinir – og stærsti galdurinn leyndist í verkum Söru Riel og Sigrúnar Huldar Hrafnsdóttur, sem bjuggu í sameiningu til undurfalleg verk byggð á köttum og húsum. Loks fékk ég ánægjulegt bernskuflassbakk þegar ég sá mínum gamla myndlistarkennara bregða fyrir við það að aðstoða Karl Guðmundsson mála myndir með hjólastólnum sínum á meðan Erlingur Klingenberg málaði með mótorhjólinu – eða svo ég vitni eftir briguðulu minni í Erling: „Ég mála með mótorhjólinu því það táknar frelsi fyrir mér Sem hjólastóllinn gerir líka á vissan hátt fyrir Kalla.“

Á meðan sumir ofangreindra listamanna eru ranglega stimplaðir skrítnir af samfélagi ófatlaðra fjallaði næsta mynd um ófatlað fólk sem vildi vera skrítið – fyrir þau var skringilegheitin frelsunin. Ég vil vera skrítin fjallar um listakonuna Kitty Von-Sometime og The Weird Girls Project. En það verður fljótt ljóst að hér er hægt að segja að minnsta kosti þrjár mismunandi sögur og það tekur myndina dálítinn tíma að átta sig á því hvaða sögu hún vill segja. Sú saga sem ég var forvitnastur um í upphafi var saga þessara skrítnu stúlka – sem klæða sig upp í spandex eða aðra skrautlega búninga og búa til vídjó til þess að vinna bug á feimni eða komplexum um eigin líkama eða bara af því þeim finnst það gaman. Ástæðurnar eru örugglega fleiri og það væri gaman að sjá heila mynd  um það einhvern tímann seinna. Um tíma virðist myndin svo ætla að verða ævisöguleg svipmynd af Kitty en myndin sem hún á endanum verður er fyrst og fremst saga um harkið. Þetta endalausa hark sem jafnvel listamenn eins og Kitty, sem flestir myndu halda að væru búnir að meika það, þurfa að standa í. Sú mynd var ansi forvitnileg – og sérstaklega auðvitað fyrir þá sem sátu í salnum, að stórum hluta listamenn (og einstaka blaðamenn) sem standa í eilífu harki í hörðum bransa.

Hinsti dans sumarsins

Það  hefur nokkuð verið kvartað yfir skorti á sumri undanfarin misseri – en ég veit ekki alveg hvað aðalpersónur Sumarloka (End of Summer) myndu segja um það. Mörgæsirnar sem eru þar í forgrunni lifa sumar sem yrði sjálfsagt flestum sem harðasti vetur, áður en sumri fer að halla. Myndin er leikstjóraverkefni okkar Óskarsverðlaunaða tónskálds Jóhanns Jóhannssonar (sem ég gleymdi að taka fram að sá um tónlistina í opnunarmyndinni dönsku) og hann semur einnig tónlistina við þessa ægifögru og tilraunakenndu mynd sem birtir okkur mynd af Suðurskauti nútímans í gegnum linsu sem virðist þó vera frá upphafi tuttugustu aldar, sem gefur myndinni sannarlega þann blæ að vera teknar á hinum heimsendanum sem er okkur svo órafjarlægur.

Maður gæti jafnvel séð myndina fyrir sér sem mótsvar við þá ofurkrúttuðu March of the Penguins, sem ég fékk smá sykursjokk við að horfa á – og þótt hún sé miklu betri en sú skrúðganga – og raunar ansi góð bíómynd og ægifögur – þá er ég ekki frá því að besta myndin um þessar mörgæsir leynist einhvers staðar þarna á milli þessara tveggja póla.

Sumrinu er líka að ljúka í Hinsta dansinum (Den sidste dans). Þetta er önnur mynd heiðurskvennana dönsku sem eru heiðursgestir hátíðarinnar og aftur fá þær Íslendinga til að semja tónlistina – í þetta skipti er það hljómsveitin Slowblow sem er fengin í verkið.

Dansinn sem er stiginn í myndinni er stiginn á elliheimili – elliheimilinu sem við endum öll á ef við lifum nógu lengi. Margt þetta gamla fólk á lítil lífsgæði eftir – algengast er að minnið sé farið að gefa sig, aðrir eiga afskaplega erfitt með að sætta sig við að vera lokaðir svona af frá umheiminum og ótal kvillar aðrir hrjá íbúana. Það er gengið nærri þessu fólki á erfiðum en þó líka kómískum stundum og maður velti því alveg fyrir sér hvort allir nákomnir þeim gömlu yrðu sáttir við myndina.

Ég held samt að svarið yrði já. Vegna þess að gegnumgangandi er hve lífsneistinn er þó þrátt fyrir allt sterkur – ég hafði á tilfinningunni að fæstir sé tilbúnir að fara, öll þrá þau að dansa einn dans í viðbót, elska einu sinni enn, sjá himininn og jörðina einu sinni enn. Aftur og aftur á meðan þau mögulega geta. Að lifa er, þrátt fyrir allt, svo óendanlega dýrmætt. En margt af þessu megna þau ekki ennþá að gera – þess í stað syngja þau  mörg hver löngu gleymdar klámvísur úr liðinni æsku og ylja sér við minningar sem kvelja þau um leið.

Ég verð hins vegar að játa að ég náði engri tengingu við Systur – sautján mínútna mynd Helenu Stefánsdóttur um bændasystur á Ketilvöllum. Kannski út af því ég missti af fyrstu tveimur mínútunum út af því kallarnir í sjoppunni voru eitthvað að Bakkabræðrast yfir posanum, kannski út af því bíóþreytan var farin að kikka inn.

En það var bara ein mynd eftir þennan daginn – og það var saga um fyrsta kvenkyns forsætisráðherra Íslands: Jóhanna: síðasta orustan. Þetta er sannarlega það sem eitt sinn var kallað varnarræða – og Jóhanna átti alveg skilið slíka mynd. Raunar var þetta ágætis tækifæri til þess að íhuga bæði styrkleika og veikleika Jóhönnu sem stjórnmálamanns – en fyrir mína parta þá er lokaniðurstaðan sannarlega sú að þótt hún hafi ósjaldan farið í taugarnar á mér í gegnum tíðina þá er hún einn aðdáundarverðasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar. Hér fáum við merkilega innsýn bak við tjöldin þar sem Jóhanna er töluverð oftar leiftrandi fyndin og skemmtileg – sem hún getur nefnilega alveg verið þegar hún leyfir sér það, en þess á milli á hún það vissulega til að vera alltof stíf, sérstaklega við opinberar aðstæður, eins og við þekkjum mörg. En auðvitað er það vel skiljanlegt þegar saga Jóhönnu er skoðuð – lesbía sem þarf að halda sambandi sínu leyndu til að vernda stjórnmálaferilinn í samfélagi sem var ekki nærri jafn umburðarlynt gagnvart samkynhneigðum og í dag, eina konan í ríkisstjórn sem hún var hálf utanvelta í, enda sú ríkisstjórn hóf þá feigðarför einkavæðingar sem endaði með ósköpum sautján árum síðar og sem kona sem hefur þurft að bíða lengi eftir að hennar tími kæmi.

Mörgum fannst upphafskafli myndarinnar veikur. En þar er ferli Jóhönnu, frá flugfreyju til verkalýðsbaráttu til stjórnmála, tíundaður. Því var ég ósammála – satt best að segja fannst mér þetta forvitnilegasti kafli myndarinnar, einfaldlega út af því Jóhanna hefur verið í pólitík frá því að ég man eftir mér en fortíð hennar er í móðu, rétt eins og flest þessi ár eru rétt áður en maður fæddist og sömuleiðis þessi ár rétt áður en maður komst til þess vits (tja, eða óvits) að fylgjast með pólitík.

[quote align=”center” color=”#999999″]Miðað við narratívu myndarinnar virðist þeim Árna Páli hafi verið þokkalega til vina fram að formannsskiptunum – en eftir þau virðist allt traust hafa fokið á mettíma og það verður örugglega Árna Páli og hans stuðningsmönnum ákveðið áfall þegar þessi mynd verður tekin til almennra sýninga – og um leið forvitnilegt að sjá hver viðbrögðin munu þá verða.[/quote]

Hins vegar vantar öflugri myndræna frásögn og betur uppbyggt og dýpra drama í baráttuna um stjórnarskrármálið – þótt vissulega sé alltaf smá nautn af því að sjá inní bakherbergi stjórnmálamanna og sumt komi á óvart. Kannski helst þetta tvennt; hversu vel Jóhanna sjálf virðist hafa staðið með stjórnarskrármálinu þrátt fyrir allt (en hér ber þó að hafa í huga það sem áður var sagt, þessi mynd er sannarlega varnarræða) – og hitt, hve heiftarleg en óorðuð kergjan á milli Jóhönnu og Árna Páls hefur verið. Miðað við narratívu myndarinnar virðist þeim Árna Páli hafi verið þokkalega til vina fram að formannsskiptunum – en eftir þau virðist allt traust hafa fokið á mettíma og það verður örugglega Árna Páli og hans stuðningsmönnum ákveðið áfall þegar þessi mynd verður tekin til almennra sýninga – og um leið forvitnilegt að sjá hver viðbrögðin munu þá verða.

Hvernig búa skal til heimildamynd

Loks var komið að kvöldinu – kvöldinu  sem við eyddum í að hlýða á hugleiðingar danskra kvikmyndagerðarkvenna á meðan þið hin horfðuð á Júróvisjón. Ég bjóst við þessu hefðbundna spjalli umsjónarmanns við leikstýru – en þvert á móti hélt umsjónarkonan sig til hlés og leyfði leikstýrunni og framleiðandanum að eiga sviðið.

Opnunarmyndin kvöldið áður hafði greinilega kveikt í fólki, því fólk hreinlega barðist við að spyrja leikstýruna Evu Mulvad spurninga, sem hún svaraði sköruglega og af góðu innsæi. Hins vegar var tala framleiðanda hennar, Sigrid Dyekjær, í raun enn merkilegri og fróðlegri.

Báðar starfa þær hjá Danish Documenary, sem hafa náð fáheyrðum árangri í heimildamyndagerð – og þeirra prinsipp er í grunninn einfalt; skrifa minna, filma meira. Í staðinn fyrir að eyða alltof miklum tíma í hugmyndavinnu og það að skrifa umsóknir fyrir verkefni sem eru í raun ekki einu sinni komin á fósturstigið þá senda þau einfaldlega leikstjórana út með kameruna og byrja ekki að sækja um fjármagn fyrr en leikstjóri kemur til baka með sæmilega fullburða hugmynd.

Heiðursgestirnir Eva Mulvad og Sigrid Dyekjær á Skjaldborg 2015.
Heiðursgestirnir Eva Mulvad og Sigrid Dyekjær á Skjaldborg 2015.

Leikstjórarnir eru ósjaldan að vinna í nokkrum verkefnum í einu og vinna með klippara frá upphafi ferilsins. Þegar það er farin að komast mynd á verkefnið og þegar sagan er byrjuð að koma í ljós er svo búinn til stuttur pilot – sem er einfaldlega kynning á myndinni fyrir mögulega fjárfesta, sem setja pening í verkefnið út frá þessum myndbrotum miklu frekar en út af fagurgala í umsóknum. Þannig er svo unnið áfram – stundum eru þessir pilot-ar tveir eða þrír fyrir hverja mynd – og þeir hjálpa líka leikstjórunum að átta sig á ferlinu og sögunni sem þeir eru að segja þegar þeir eru kannski staddir í henni miðri.

Til að útskýra allt þetta enn betur var okkur svo sýndir nokkrir slíkir pilot-ar. Einn þeirra var úr næstu mynd Evu, A Modern Man, um fiðlusnilling sem á í erfiðleikum með að halda trúverðugleikanum út af því hann sinnir módelstörfum í hjáverkum – og svo sáum við drepfyndin myndbrot úr mynd Max Kestner um geimkapphlaupið mikla – sem er nú hafið af fullum krafti í Danmörku. Gamlir Skjaldborgarar nutu þess líka að heyra aftur þennan kómíska tón sem Kestner hefur – en hann var heiðursgestur Skjaldborgar fyrir þremur árum síðan.

Eftir það var svo auðvitað bara dansað út í Pakkhús – nýjasta djammstaðinn á Patró, sem ég veit svosem ekki hvort var til frambúðar eða hvort honum hafi bara verið ætluð þessi eina nótt. Vegna þess að það eru sorglega mörg draugahús á Patreksfirði – en það eru þó möguleikar í því og hátíðin er dugleg að nota þau  til góðra hluta, sem virðist allt hjálpa til – enda heyrist mér að draugahúsunum fækki ótt og fleiri og fleiri lifna við. Þó er eitt nýlegt draugahús Sjóræningjahúsið – sem á gengnum árum var ásamt bíóinu sjálfu hjarta hátíðarinnar en er núna í lamasessi, þótt það hafi verið nýtt í fiskiveisluna daginn eftir.

Ástæðan ku vera sú að einn útveggur hafði fallið í snjóhörkum í haust (en þó í þeim hluta hússins sem venjulegir gestir koma aldrei inní) – og reksturinn hafði verið erfiður árin á undan. En þetta er eitt göldróttasta hús á gervöllum Vestfjörðum og menningarsögulegt stórslys ef því verður ekki bjargað á einhvern hátt – það ætti ekki að þurfa mikið til og jafnvel þótt menn þurfi alltaf að hafa fyrir því að reka húsið sjálft þá er það slíkur segull á líf og sköpun að bæjarfélagið allt myndi græða mikið á því að sjá sjóræningjana sigla seglum þöndum á ný.

 

 

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR