Heimildin um TILVERUR: Afdalabóndinn snýr aftur – aftur og aftur

„Vel leikin og fallega kvikmynduð, en klisjukennt og ófrumlegt handrit,“ segir Ásgeir H. Ingólfsson meðal annars í Heimildinni um Tilverur Ninnu Pálmadóttur.

Ásgeir skrifar:

Þröstur Leó Gunnarsson leikur afdalabónda og myndin hefst í sveitinni, um það leyti sem hann neyðist til að halda suður og skilja tryggasta þjóninn eftir. Nei, þetta er ekki Á ferð með mömmu – Þröstur Leó er grínlaust að leika þetta hlutverk í annað skiptið á sama árinu.

En kæru kvikmyndaframleiðendur og -leikstjórar; þetta er komið gott. Það er tímabært að gefa afdalabóndanum frí í allavega fimmtán ár, hann hefði gott af því og þið hefðuð líka gott af því. Enda styttist í að skáldaðir afdalabændur verði fleiri en raunverulegir afdalabændur landsins, ef það hefur ekki gerst þegar nú þegar.

Það er auðvitað hægt að finna nýjar leiðir til að segja þessa ævafornu sögu og gera það vel – og Á ferð með mömmu var nefnilega alveg frábær mynd með margs kyns ferska vinkla á gamla sögu og var skemmtilegt tímaferðalag til malarvega ársins 1980. Það hefði verið gott ef afdalabóndinn hefði bara hætt á toppnum þar.

Það er vissulega margt öðruvísi í Tilverum. Tryggasti þjónninn er nú hestur en ekki hundur og myndin gerist 40 árum seinna, er núna í lit og persónugalleríið í kringum afdalabóndann er allt annað. Þetta er líka minni vegamynd. Bóndinn er fljótur að koma sér suður eftir að ríkið hrekur hann af jörðinni og borgar honum 150 milljónir fyrir. Hann er afskaplega áhugalaus um þetta nýlega ríkidæmi, eitthvað sem á líklega að sýna fram á nægjusemi manns sem er í sambandi við jörðina en ekki heimskapítalismann, en reynist fyrst og fremst ótrúverðugt.

Meira af gagnrýni Ásgeirs má lesa hér (áskrift).

HEIMILDHeimildin
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR