spot_img

Ninna Pálmadóttir: „Ég fattaði að þetta var skrifað í stjörnurnar“

Tilverur, fyrsta kvikmynd Ninnu Pálmadóttur í fullri lengd, var valin til heimsfrumsýningar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto. RÚV ræddi við hana af þessu tilefni.

Á vef RÚV segir:

„Ég tók ákvörðun þegar ég var 17 ára,“ segir Ninna Pálmadóttir leikstjóri. Hún vissi snemma að hana langaði til að segja sögur og féll kylliflöt fyrir kvikmyndum á unglingsaldri. „Það voru miklir draumórar og ég var í skýjunum á þessum árum. Ég byrjaði að gúgla kvikmyndaskóla í Bandaríkjunum.“ Draumarnir urðu að veruleika því Ninna útskrifaðist úr Tisch School of the Arts í New York 2019 og stuttmyndir hennar, Allir hundar deyja og Blaðberinn, sópuðu að sér verðlaunum á kvikmyndahátíðum víðs vegar um heiminn.

Ninna lauk nýverið við sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Myndin Tilverur hefur verið valin til heimsfrumsýningar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada í næsta mánuði. Ninna ræddi við Tengivagninn um að láta drauma rætast, að vera kona í kvikmyndaheiminum og fegurðina í tilviljanakenndum kynnum.

Fékk ólæknandi kvikmyndadellu 17 ára

„Ég tók mér góðan tíma í að raða öllum böngsunum mínum upp í rúm og segja þeim sögur fyrir svefninn,“ segir Ninna. „Það var athöfn að búa til sögur og láta ímyndunaraflið njóta sín. Það voru þægindi fyrir mig að búa til sögustund.“

Ninna fékk snemma þörf fyrir að segja sögur og tjá sig. Hún tók ljósmyndir sem unglingur áður en hún heillaðist algjörlega af kvikmyndaforminu í menntaskóla. „Það var áfangi þar sem ég gat gert tónlistarmyndband og prófað mig áfram. Svo var Baldvin Z með kvikmyndanámskeið,“ segir Ninna. „Svo byrjaði ég líka að horfa meira á bíómyndir.“ Hún bjó við hliðina á vídeóleigu og segir áhorf á kvikmyndir hafa verið sér góðan skóla. „Svona 17 ára var ég byrjuð að prófa mig áfram og svo var komin della.“

Kemur leikstjóravinnunni ekkert við að hún sé kona

Kvikmyndaleikstjórinn Sofia Coppola var Ninnu mikil fyrirmynd á þessum árum. „Fyrir unglingsstelpu í litlum bæ á þessum tíma var það mjög mikilvægt. Það breytti öllu að vera með alla vega eina fyrirmynd.“

„Mér finnst ég ótrúlega heppin og í mikilli forréttindastöðu að fá að gera bíó.“ Hún segir að staða kvenna í kvikmyndaiðnaðinum hafi styrkst mikið síðustu ár. „Mér finnst ótrúlega gaman að fylgjast með öðrum konum ganga vel og sjá hvað það er mikið af flottum höfundum, tökumanneskjum og kvikmyndagerðarkonum og finnst gaman að lyfta þeim upp og vita af þeim. En þegar ég hugsa um mína vinnu er ég aldrei í neinum female director-pælingum. Ég er bara leikstjóri og þetta er vinnan mín,“ heldur hún áfram. „Það kemur því ekkert við að ég sé kona.“

Ómetanlegur skóli að vera aðstoðarkona á kvikmyndasetti

Ninna ólst að mestu upp á Akureyri áður en hún flutti til Reykjavíkur eftir menntaskóla. Áður en hún hélt til New York í kvikmyndagerðarnám lærði hún kvikmyndafræði við Háskóla Íslands og vann sem aðstoðarkona á kvikmyndasettum. „Það var alveg jafn mikilvægur skóli.“

„Ég var aðstoðarmanneskja og það er svo mikilvægt starf. Manneskjan sem hleypur og er að redda kaffinu og að passa að allir séu með eitthvað til að snarla á er rosalega mikilvægur hlekkur í að allt virki,“ segir Ninna. „Ég lofaði sjálfri mér að ég myndi aldrei gleyma því þegar ég væri komin lengra og væri að leikstýra. Þetta er ekki sólóvinna.“

Tilviljanakennd kynni áhugaverð

Fyrsta stuttmynd Ninnu, Blaðberinn, vakti verðskuldaða athygli og fór víða um heiminn. Myndin var útskriftarverkefni hennar úr kvikmyndaskóla og hlaut meðal annars Edduverðlaunin 2020 sem besta stuttmyndin. Hún segir frá ungum blaðbera sem gægist inn um glugga hjá nágranna sínum og myndar tengsl við konu í sálarangist. „Ég varð fyrir áhrifum frá atviki sem kom fyrir mig. Um mín kynni við blaðbera en ég breytti sögunni.“

„Það er alls konar fólk sem kemur og fer og hefur áhrif á mann með einum eða öðrum hætti,“ segir Ninna. „Mér finnst það mjög áhugavert og fallegt.“ Kynni hennar af ónefndum blaðbera urðu þegar Ninna kom heim eftir að hafa farið út á lífið og var læst úti. „Ég var á svaka bömmer og hann settist hjá mér og hlustaði á mig. Ég fór á svaka trúnó við hann og svo tók hann utan um mig,“ segir hún. „Ég veit ekkert hver þetta er og ég hef aldrei séð hann aftur.“ Ninnu finnst áhugavert að skoða tengingar á milli einstaklinga sem eru ekki tengdir fjölskylduböndum og hittast fyrir tilviljun. „Það er viðfangsefni sem mér finnst mjög áhugavert.“

Fyndin tilviljun að gera aðra mynd um blaðbera

Ninna vinnur líka með tengingu einstaklinga sem hittast fyrir tilviljun í kvikmyndinni Tilverur sem er frumsýnd í næsta mánuði. Handrit myndarinnar skrifaði Rúnar Rúnarsson leikstjóri og þetta er fyrsta mynd Ninnu í fullri lengd. Hún fjallar um mann sem neyðist til að flytja til Reykjavíkur þegar ríkið yfirtekur jörð hans til virkjunarframkvæmda. Í borginni kynnist hann 10 ára blaðbera og kynni þeirra marka upphafið að umbreytingu á lífi beggja.

Ninna segir það óneitanlega fyndna tilviljun að hún sé aftur að gera kvikmynd um ungan blaðbera, líkt og í stuttmyndinni Blaðberinn. „Þetta er svolítið fyndið því handritið er skrifað af Rúnari Rúnarssyni og við þekktumst ekkert,“ segir hún. „Ég var byrjuð að tala við Lilju Snorradóttur framleiðanda eftir að ég kom heim úr skólanum og við byrjuðum að spjalla og tala um hvert yrði mitt fyrsta verk.“

Fyrsta myndin í fullri lengd skrifuð í stjörnurnar

Lilja og Rúnar þekktust vel og eftir að Rúnar sá Blaðberann í kringum Edduverðlaunin 2020 vissi hann að Ninna væri rétti leikstjórinn til að taka við handritinu sem hann hafði unnið að. „Ég fékk þetta í hendurnar og ákvað að vera jarðbundin. Þetta var auðvitað mjög spennandi allt saman, stórt móment en ég ákvað að segjast ætla að lesa þetta,“ segir Ninna. „Svo fattaði ég að þetta er skrifað í stjörnurnar. Hann var búinn að skrifa handrit um þessar tvær einmana sálir sem mér fannst ég vera búin að skoða í stuttmyndunum mínum fyrir algjöra tilviljun.“

Önnur stuttmynd Ninnu, Allir hundar deyja, er um eldri mann sem býr í sveitinni og reynist erfitt að eiga í samskiptum við þá sem standa honum næstir. Myndin var meðal annars sýnd á Karlovy Vary-hátíðinni í Tékklandi og Nordisk Panorama í Svíþjóð. „Allir hundar deyja er rosalega ólík Blaðberanum. Þetta er þung saga og mikið af tilfinningum og pælingum um lífið og dauðann.“

„Þegar við fórum út í Tilverur vildi ég finna milliveginn,“ segir Ninna. Hún nýtti sér reynsluna og vinnuna úr stuttmyndunum sínum tveimur. „Þetta var heimur sem ég þekkti og var búin að vera að hrærast í og fékk tækifæri til að gera að mínum eigin og er ótrúlega þakklát fyrir það.“

Tilverur er sem fyrr segir heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í september. „Það er mjög spennandi, vægast sagt,“ segir Ninna. „Það er svo gaman að fá að sleppa einhverju út til áhorfenda.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR