Morgunblaðið um VOLAÐA LAND: Mikið listaverk

Morgunblaðið endurbirtir umsögn Jónu Grétu Hilmarsdóttir um Volaða land Hlyns Pálmasonar frá nóvember síðastliðnum í tilefni þess að myndin verður sýnd í kvikmyndahúsum frá 10. mars.

Jóna Gréta skrifar:

Volaða land eft­ir Hlyn Pálma­son er ein besta kvik­mynd þessa árs. Hún seg­ir frá ung­um dönsk­um lút­ersk­um presti, Lucas (Elliott Cros­set Hove), sem ferðast til Íslands með það að mark­miði að reisa kirkju og ljós­mynda landið og íbúa þess. Fyr­ir ferðina er hann er varaður við ís­lensku nátt­úr­unni og fólk­inu: „Jörðin lykt­ar eins og hún hafi skitið í bux­urn­ar og lang­ir næt­ur­laus­ir dag­ar geta kallað fram alls kon­ar and­lega kvilla í mönn­um.“

Lucas er hins veg­ar hug­sjónamaður og áhuga­sam­ur um landið og fólkið. Hóp­ur heima­manna leiðir prest­inn í gegn­um hið harðneskju­lega Ísland en eft­ir því sem líður á ferðalagið miss­ir prest­ur­inn smám sam­an tök­in á ætl­un­ar­verk­inu og eig­in trú. Þegar hann nær til litla sam­fé­lags­ins á norður­strönd lands­ins er hann nær dauða en lífi. Landið þar sem kirkj­an er reist er und­ir um­sjón Dan­ans Carls (Jacob Hauberg Lohmann) en hann býr þar í tign­ar­legu húsi ásamt dætr­um sín­um, Önnu (Vic Car­men Sonne) og Idu (Ída Mekkín Hlyns­dótt­ir). Ferðalagið gerði Lucas beisk­ari og það eina sem get­ur yljað hon­um um hjart­ans ræt­ur á þess­um kalda stað er elsta dótt­ir­in, Anna.

Í byrj­un Volaða lands kemur fram að kvik­mynd­in sé byggð og sæki inn­blást­ur í sjö vot­plötu­ljós­mynd­ir (e. wet-pla­te photographs) sem tekn­ar voru af dönsk­um presti á 19. öld og að þær mynd­ir séu fyrstu ljós­mynd­ir sem tekn­ar voru á Suður­landi. Þess­ar mynd­ir eru hins veg­ar ekki til held­ur aðeins upp­spuni hjá Hlyni. Í viðtali við Nordic Film and TV News, sem Annika Pham tók, seg­ir hann frá því að til­gang­ur­inn með ljós­mynd­un­um hafi verið að hafa ein­hvern hlut sem hann og teymið gátu notað sem eins kon­ar akk­eri í ferl­inu. Ljós­mynd­irn­ar eru því hluti af skáld­skapn­um og sköp­un­ar­ferl­inu.

Í kvik­mynda­dómi hjá Variety skrif­ar Peter Debru­ge: „Í Volaða landi reyn­ir ís­lenski hand­rits­höf­und­ur­inn og leik­stjór­inn Hlyn­ur Pálma­son að sjá sitt heima­land með ut­anaðkom­andi aug­um, eins og það hlýt­ur að hafa litið út fyr­ir Dön­um sem stjórnuðu því fram að seinni heims­styrj­öld­inni.“ Þessu er ég ósam­mála en mér finnst kvik­mynd­in ein­mitt fanga til­finn­ing­una hjá heima­mönn­um sem þurftu að þola oft ónær­gætna fram­komu ný­lendu­herr­anna en þegar Volaða land á sér stað er Ísland enn und­ir yf­ir­ráðum Dana. Atriðið heima hjá Carl sýn­ir það vel en þá hæðast Lucas og Carl að Ragn­ari sem sull­ar óvart niður rauðvín­inu. „Svona eru Íslend­ing­ar, þeir éta mat­inn okk­ar og spilla vín­inu.“ Í því atriði er ekki annað hægt en að vera reiður yfir þess­ari fram­komu en það er greini­legt að upp­lif­un ís­lenskra áhorf­enda og er­lendra er ólík og eðli­lega.

Kvik­mynd­in still­ir Dan­mörku og Íslandi upp sem and­stæðum strax í byrj­un. Hinn hátt­setti prest­ur, sem var­ar Lucas við ís­lensku veðri, er með skál af fersk­um ávöxt­um á skrif­borðinu sínu sem er langt frá raun­veru­leika Íslend­inga þess tíma. Hver þjóð hef­ur sinn leiðtoga, Dana­leiðtog­inn er Lucas og okk­ar Íslend­inga heimamaður­inn Ragn­ar sem Ingvar E. Sig­urðsson leik­ur. Lucas er hug­sjónamaður en Ragn­ar jarðbund­inn og tungu­mála­hindr­an­ir þjóna sem eitt af lyk­ilþemum mynd­ar­inn­ar. Lucas er birt­ing­ar­mynd ný­lendu­hroka, hann kenn­ir t.d. Ragn­ari og land­inu um dauða túlks­ins og eina vin­ar síns (Hilm­ar Guðjóns­son) þótt það hafi verið hann sem krafðist þess að þeir héldu áfram ferðinni þrátt fyr­ir veður­hætt­ur.

Stór hluti kvik­mynd­ar­inn­ar eru fal­leg­ar nátt­úrumynd­ir og gegn­ir þar kvik­mynda­tak­an stóru hlut­verki. Kvik­mynda­tökumaður­inn Maria von Hausswolff notaði þessa hug­mynd um blaut­plötu­ljós­mynd­irn­ar, líkt og aðrir, til þess að veita sér inn­blást­ur og tók upp í 1,37:1 Aca­demy-hlut­fall­inu með hörðum brún­um og ávöl­um horn­um líkt og í göml­um ljós­mynd­um. Mynd­in var tek­in upp á 35 mm filmu og öll film­an notuð þannig að engu er sóað, sem pass­ar vel við tíðarand­ann og fag­ur­fræði Hlyns en það gerði hann einnig í stutt­mynd sinni Hreiðrinu (2022). Það er greini­legt að stærst­ur hluti mynd­ar­inn­ar er tek­inn upp á dolly en þá er töku­vél­in á tein­um og mögu­legt að færa hana fram og aft­ur í hreinni hreyf­ingu. 360 gráðu skim í sveita­brúðkaupi fang­ar gleðskap­inn á sér­stak­an máta en stíll­inn er leik­stjór­an­um eðlis­læg­ur. Með þessu móti er auðveld­ara að setja sam­an heim eða, eins og í þessu til­viki, heilt land.

Ef­laust eru sum­ir þeirr­ar skoðunar að Hlyn­ur hafi fórnað per­sónu­sköp­un­inni og söguþræðinum fyr­ir fal­leg­ar nátt­úrumynd­ir, þ.e.a.s. að hann sé að kafa of djúpt í eig­in stíl líkt og Wes And­er­son gerði í nýj­ustu mynd sinni The French Dispatch. And­er­son legg­ur þar gríðarlega áherslu á mynd­heild­ina (mise-en-scè­ne), fram­setn­ing­una í hverju skoti fyr­ir sig og má líkja hverj­um ramma við lista­verk þar sem öll smá­atriðin hafa hlotið merk­ingu. Það bitn­ar hins veg­ar á söguþræðinum sem er óþarf­lega flók­inn og per­sónu­sköp­un­inni sem er lít­il sem eng­in þar sem litl­um tíma er eytt í hverja per­sónu. Harðkjarna Wes And­er­son-aðdá­end­ur kunnu hins veg­ar marg­ir hverj­ir að meta The French Dispatch af því að þar leyfði And­er­son sér að fara alla leið í að skapa mise-en-scene-kvik­mynd.

Hið sama má segja um Hlyn með Hvít­an, hvít­an dag, í þeirri mynd fór hann ör­ugg­ari leiðina þótt stíll­inn hans sé þar einnig sýni­leg­ur, eins og til dæm­is for­vitni hans um dauðann og að fylgj­ast með og kvik­mynda í ákveðinn tíma hlut. Þetta ger­ir hann til dæm­is í Hvít­um, hvít­um degi en þar fáum við að fylgj­ast með húsi per­són­unn­ar á ólík­um árs­tím­um en í Volaða landi fylgj­umst við með rotn­un­ar­ferli hests eða manns. Ólíkt Hvít­um, hvít­um degi er Volaða land krefj­andi kvik­mynd. Það er ekki allra að fylgj­ast með presti ferðast um Ísland á síðustu öld í meira en tvær klukku­stund­ir. Hann dýf­ir sér í djúpu laug­ina, tek­ur sinn tíma og úr því kem­ur sann­kallað lista­verk. Söguþráður­inn er vissu­lega ekki í fyrsta sæti en þarf það endi­lega alltaf að vera svo? Kvik­mynd­ir eru list­form en ekki ein­ung­is afþrey­ing­ar­efni sem hægt er að græða á. List er svið sem lýt­ur ekki alltaf lög­mál­um kapí­tal­ism­ans. Það er greini­legt að hér er á ferð listamaður og Volaða land er sann­kallað lista­verk og fær þar af leiðandi fyrstu fimm stjörn­ur hjá rýni.

HEIMILDMbl.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR