Andlát: Sigurjón Jóhannsson leikmyndahönnuður 1939-2023

Sigurjón Jóhannsson myndlistarmaður og leikmyndahönnuður er látinn, 83 ára að aldri.

Hilmar Oddsson leikstjóri minnist hans á Facebook síðu sinnni en þeir voru reglulegir samstarfsmenn um skeið.

Samstarf okkar Sigurjóns átti sér langan aðdraganda. Ég þekkti hann eiginlega frá barnæsku, hann var tíður gestur á mínu heimili, mjög eftirminnilegur, þótt mér hefði á stundum þótt fullmikill völlur á þeim félögum, föður mínum og honum, þegar sá var gállinn á þeim. En ég ólst upp við mikla virðingu fyrir listamanninum Sigurjóni Jóhannssyni. Fyrir mér var hann popplistamaður, í myndlistarlegum skilningi og helsti leikmyndahönnuður landsins.

Sigurjón Jóhannsson (t.h.) og Hilmar Oddsson við tökur á Tár úr steini 1994.

Þegar ég hóf fyrir alvöru feril minn sem kvikmyndaleikstjóri ákvað ég að fela mér eldri og reyndari mönnum helstu lykilstörf við gerð mynda minna. Þetta gilti einkum um myndatöku og útlit myndanna og þar kom enginn annar leikmyndahönnuður til greina en Sigurjón. Mér tókst að fá hann til liðs við mig þegar ég réðist í gerð Társ úr steini og þar hófust seinni kynni okkar og vinskapur sem við ræktuðum ágætlega í rúm tíu ár. Hann hannaði leikmyndir við tvær aðrar af myndum mínum, Sporlaust og Kaldaljós. Alltaf dáðist ég að handbragði hans og listfengi. Hann var vel menntaður og fróður maður sem gaf endalaust af sér og hélt manni við efnið. Mér þótti vænt um Sigurjón og vináttu okkar sem ég fékk í föðurarf. Og ég mun ekki gleyma hlýja manninum og framlagi hans. Ég sendi Ólöfu og öllum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

Á vef Morgunblaðsins segir:

Sigurjón fæddist á Siglufirði 21. maí 1939. Að loknu stúd­ents­prófi frá MR lagði hann stund á mynd­list, fyrst hér­lend­is við Handíða- og mynd­lista­skól­ann og Mynd­lista­skól­ann við Freyju­götu en síðar lærði hann mynd­list og arki­tekt­úr á Ítal­íu og leik­mynda- og bún­inga­hönn­un í Kaup­manna­höfn.

Sig­ur­jón var fjöl­hæf­ur listamaður sem setti mark sitt á ís­lenskt sam­fé­lag. Hann var einn fjög­urra stofn­enda SÚM-hóps­ins sem olli þátta­skil­um í ís­lenskri mynd­list um miðjan sjö­unda ára­tug liðinn­ar ald­ar og er í dag talið eitt af lyk­il­tíma­bil­um ís­lenskr­ar mynd­list­ar­sögu.

Fram­an af starfsæv­inni helgaði Sig­ur­jón sig leik­hús­inu og er hann senni­lega sá listamaður sem hef­ur sett hvað mest­an svip á þær leik­sýn­ing­ar sem voru sýnd­ar á helstu leik­sviðum borg­ar­inn­ar á of­an­verðri 20. öld. Hann var yf­ir­leik­mynda­hönnuður Þjóðleik­húss­ins 1976 til 1988 og sat í þjóðleik­hús­ráði 1984-1988 fyr­ir hönd Fé­lags ís­lenskra leik­ara. Sig­ur­jón á að baki um eitt hundrað leik­mynd­ir auk þess sem hann hef­ur unnið við kvik­mynd­irn­ar Á hjara ver­ald­ar, Atóm­stöðina, Tár úr steini, Spor­laust og Kalda­ljós, auk þáttaraðarinnar Nonna og Manna.

Utan leik­húss­ins starfaði Sig­ur­jón að frjálsri list­sköp­un, safna- og sýn­inga­hönn­un. Hann á að baki fjöl­marg­ar einka– og sam­sýn­ing­ar og eru verk hans í eigu flestra helstu safna lands­ins. Yrk­is­efni hans voru mörg en í vatns­lita­mynd­um voru æsku­stöðvarn­ar og síld­ar­æv­in­týrið á Sigluf­irði hon­um sér­lega hjart­fólg­in. Hann kom að mörg­um sýn­ing­um er tengd­ust gjarn­an alþýðumenn­ingu og sögu lands­ins, m.a. í Sögu­safn­inu, Síld­ar­minja­safn­inu á Sigluf­irði, Sjó­minja­safni Reykja­vík­ur og Þjóðmenn­ing­ar­hús­inu.

Sig­ur­jón hlaut tví­veg­is Grím­una, leik­list­ar­verðlaun Leik­list­ar­sam­bands Íslands. Árið 2003 var hann verðlaunaður fyr­ir leik­mynd árs­ins og árið 2012 hlaut hann heiður­sverðlaun Grím­unn­ar fyr­ir unn­in störf.

Sig­ur­jón læt­ur eft­ir sig eig­in­konu og fjög­ur upp­kom­in börn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR