spot_img

Lestin um Á FERÐ MEÐ MÖMMU: Opnar á möguleikann á að vona

“Ást og væntumþykja fyrir landinu, persónunum og lífinu sjálfu,” segir Kolbeinn Rastrick gagnrýnandi Lestarinnar meðal annars um Á ferð með mömmu eftir Hilmar Oddsson.

Kolbeinn skrifar:

Umgjörðin er hin svokallaða vegamynd eða road movie. Í þeim myndum fylgjast áhorfendur með bílferðalagi aðalpersónunnar og stoppum hennar á leiðinni á áfangastaðinn. Einkenni vegamyndarinnar er að áherslan er lögð á andlega þróun eða þroska aðalpersónunnar sem á sér stað á þessu ferðalagi. Í Á ferð með mömmu situr Mamma dáin í aftursætinu en hún lætur andlátið þó ekki stoppa sig og heldur áfram að nöldra í Jóni og ráðskast með hann. Áhorfendur komast þannig fljótt að því að þungamiðja sögunnar, og þessarar vegamyndar, er uppgjör Jóns við látna móður sína, fortíðina og það sem hefði getað orðið.

Þessi lýsing á efni myndarinnar gefur þó kannski ekki nógu vel til kynna hvað Á ferð með mömmu er ótrúlega fyndin. Þið sem hafið séð einhver verk finnska leikstjórans Akis Kaurismäkis sjáið eflaust hliðstæður í finnska húmornum sem birtist í myndum hans og húmor Hilmars í Á ferð með mömmu. Húmorinn er skraufþurr og jaðrar stundum við gálgahúmor en þó rammíslenskur og er hann áberandi í gegnum alla myndina. Íslenskar grínmyndir eiga það margar sameiginlegt að þær gleyma að vera fyndnar þegar líður á myndina og verða því oft bara niðurdrepandi eða það sem verra er, einfaldlega leiðinlegar. Tónninn í Á ferð með mömmu helst aftur á móti í gegnum myndina og Hilmari tekst virkilega vel að halda bæði dramanu og gríninu á lofti samtímis. Hann notar jafnt handritið og kvikmyndatökuvélina til þess og sem dæmi sést það vel í fyrsta atriði myndarinnar. Þegar Jón og Mamma sitja saman og prjóna byrja þau að rífast. Á sama tíma sést hvernig hnyklarnir þeirra hafa flækst saman og þó þau togi hvort í sinn enda leysist flækjan ekki. Hilmar notar þannig myndmálið til merkingarsköpunar og verður kvikmyndin mikið betri fyrir vikið. Með einu skoti er búið að sýna áhorfendum nákvæmlega hver Jón og Mamma eru og í hvaða stöðu þau eru gagnvart hvort öðru.

Myndin notar oft hið sjónræna til þess að miðla sögunni og þannig virðist hún að einhverju leyti vera óður til íslenskrar fámælsku. Sumir túristar nefna til dæmis að erfitt sé að spjalla við Íslendinga og oft er litið niður á þessa hneigð. Á ferð með mömmu bendir þó á að orð séu ekki endilega það sem best er til brúks þegar á að kynnast annarri manneskju. Orð má misskilja og mistúlka en gjörðir í garð annarra geta sagt miklu meira til um hver þú ert í raun og veru. Í einu atriði í myndinni mætir Jón puttaferðalang sem talar ekki orð í íslensku. Jón skilur ekkert nema íslensku en samt byrja þeir að tala saman á meðan þeir hjálpast að við að gera við bíl Jóns. Í samtalinu bera þeir báðir sál sína og djúp tengsl myndast á milli þeirra. Þó skilur hvorugur orð af því sem hinn er að segja. Sama á við um Jón og hundinn Brésnef, þeir þurfa ekkert að tala sama tungumál til þess að skilja hvor annan.

Myndin er án efa einnig óður til gamla Íslands og fortíðarinnar. Hún gerist eins og áður sagði árið 1980 og lítur nánast út fyrir að hafa verið tekin upp þá. Kjöt í raspi, lagkaka og kaffi, Landrover jeppi og Nilfisk ryksuga koma við sögu og eflaust vekja þessir hlutir upp æskuminningar margra. Á ferð með mömmu nær einhverjum séríslenskum áhrifum og í stað þess að reyna að fara eftir reglum Hollywood býr Hilmar til eitthvað sérstakt sem stendur undir nafni sem þjóðarbíó Íslendinga. Því kemur það kannski sumum á óvart að myndin sé að slá í gegn í útlöndum. Hún vann til dæmis aðalverðlaun á kvikmyndahátíðinni Tallinn Black Nights Film Festival, eða Pöff, í Eistlandi en hún er með þeim stærstu í Evrópu. Og þó er kannski ekkert skrítið að kvikmyndaáhugafólk taki vel í hana. Það sést vel að Hilmar ber virðingu fyrir og þykir vænt um viðföng sín og umfjöllunarefni og verður það til þess að myndin verður sammannleg og þar með alþjóðleg. Í höndum annarra gæti framsetningin á Jóni orðið illkvittnisleg en hann fær að vera eitthvað meira en bara skrítinn sveitakarl í myndinni.

Þetta á líka við um aðra karaktera í myndinni og er það ekki síst þessu ólympíuliði leikara, sem Hilmar hefur fengið til liðs við sig, að þakka að allar persónurnar virka heilsteyptar. Kristbjörg Kjeld er stórkostleg í hlutverki Mömmu og nær allt sem hún lætur út úr sér er drepfyndið, bókstaflega. Persóna Mömmu fær ákveðna dýpt, þó hún sé „vonda persónan“ í sögunni, sem gerir hana að meira en bara vondu mömmunni. Hún er manneskja sem átti sér fortíð og draum um framtíð sem rættist aldrei, rétt eins og Jón sonur hennar. Vert er að nefna líka hvað hundurinn Dreki stóð sig vel í hlutverki Brésnefs. Ef Eddan sér við sér og bætir loksins við verðlaunaflokknum besta frammistaða dýrs í aukahlutverki mun Dreki vafalaust hampa sigri.

Hlutverk Heru, dóttur Hilmars Oddssonar, sem gömul ástkona Jóns og draumaviðfang, ljær myndinni yfirnáttúrulegan blæ. Hilmar segir í viðtali að hann hafi viljað heiðra föður sinn, leikskáldið Odd Björnsson, með því að gera söguna súrrealískari en fyrri verk sín. Áhorfendur geta því oft átt erfitt með að greina á milli þess hvað af því sem sést á skjánum á að vera raunveruleikinn, hvað draumar og hvað innra líf Jóns. Þessi súrrealíski hluti myndarinnar er að mestu vel heppnaður en það eru einstaka atriði við framsetninguna á súrrealismanum sem eru kannski svolítið klisjukennd. Klippingin fór líka smávægilega í taugarnar á mér. Ákveðið hefur verið að hvert atriði endi á svokölluðu „fade to black“-klippi þar sem myndin dofnar hægt og rólega og við tekur svartur auður rammi. Áhorfendur fá með þessu á tilfinninguna að hvert atriði sé blaðsíða sem flett er í bók enda er myndinni skipt upp í kafla sem allir hafa titil. Þrátt fyrir að þetta sé ákveðið stílbragð kom það svo oft fyrir að ég velti fyrir mér af hverju það hefði ekki bara verið hægt að klippa ákveðin skot saman á hátt sem hefði verið fallegri sjónrænt séð. Sérstaklega þar sem kvikmyndatakan og skotin í myndinni eru gullfalleg. Íslenskt sumar er greinilega alveg jafn fallegt í svarthvítu.

Það er einnig virkilega ánægjulegt að segja frá því að það beygir enginn inn í Hvammsfjörð og er svo næst staddur í Hvalfirði. Myndin fer í alvöru með áhorfendur suður og staðsetningarnar birtast í réttri röð og á réttum stöðum. Það er auðvelt að fara og finna fallegustu staðina á Íslandi og klippa það svo saman til þess að láta myndefnið líta vel út en það er erfiðara að fara rétta leið og finna hvað gerir hvern stað fallegan. Á ferðinni með mömmu er stoppað oft og staðsetningar stoppanna eru jafn mismunandi og þær eru margar en þær koma áhorfendum allar fyrir sjónir sem fallegar eða alla vega sjónrænt séð áhugaverðar.

Það er þessi ást og væntumþykja fyrir landinu, persónunum og lífinu sjálfu sem gerir Á ferð með mömmu sérstaka. Hún er auk þess mjög vel unnin og allir sem komu að henni eru greinilega fagfólk. Hún er að mínu mati með betri íslenskum myndum sem ég hef séð upp á síðkastið og hún er bæði fyndin og dramatísk vegna þess að hún opnar á möguleikann á að vona. Ef allt væri jafn ómögulegt og þunglyndislegt og ákveðnar íslenskar kvikmyndir og vetrarveðrið vilja fá okkur til að trúa þá væru allir löngu farnir héðan. En svo er það nú ekki því fólk dreymir enn, sama hvort það sé um að íslenska sumarið færi okkur betra veður, að hægt sé að endurvekja gömul kynni eða einfaldlega það að vanþakkláti sonur þinn geti grafið lík þitt í kirkjugarðinum suður á Eyrarbakka.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR