Fréttablaðið um BAND: Heimildaháð í sinni bestu mynd

„Einlæg, skemmtileg og hvetjandi mynd sem er einstaklega vel unnin,“ skrifar Birna Dröfn Jónasdóttir meðal annars í Fréttablaðið um Band eftir Álfrúnu Örnólfsdóttur.

Birna skrifar:

Frábær frumraun leikstjórans Álfrúnar Helgu Örnólfsdóttur og vel hugað að hverju smáatriði.Flestir sem nálgast fertugsaldurinn finna fyrir einhvers konar krísu og fara að velta fyrir sér hvort réttar leiðir hafi verið valdar í lífinu, hvort starfið sé það eina rétta og hvað gerist næst. Það sama á við konurnar í The Post Performance Blues Band, The PPBB.

Meðlimir eru þrjár mæður um fertugt sem taka eitt ár og setja allan sinn fókus á hljómsveitina sem þær eru í. Annað hvort meika þær það eða hætta. Enginn millivegur.

The PPBB var stofnað af Álfrúnu Örnólfsdóttur, Sögu Sigurðardóttur og Hrefnu Lind Lárusdóttur ásamt fleiri konum en þær þrjár eru aðalpersónur myndarinnar ásamt Pétri Eggertssyni.

Áhorfandinn fær að kynnast vinkonunum þremur virkilega vel og allar eru þær ótrúlega einlægar en ólíkar. Þær eru hver annarri fyndnari og geta áhorfendur gert ráð fyrir að hlæja í 90 mínútur en á sama tíma finna til ótrúlegrar samúðar með Sögu, Álfrúnu, Hrefnu og Pétri.

Myndin er frumraun Álfrúnar sem kvikmyndaleikstjóra og tekst henni afar vel upp. Myndin er heimildarmynd í svokölluðum Mocumentary-stíl sem myndi yfirfærast í heimildarháð-stíl á íslensku. Hún heldur áhorfandanum frá upphafi til enda og er saga The PPBB ótrúlega hvetjandi, svo hvetjandi að áhorfandinn getur gert ráð fyrir að langa beint heim að búa til sína eigin tónlist eða stofna hljómsveit.

Hugað er að öllum þáttum í myndinni og er sérstaklega áberandi hversu vel hljóðið er unnið. Aldrei kemur upp það sem gerist svo oft í íslenskum bíómyndum, að erfitt sé að greina hljóð og samtöl. Tónlistin, einlæg samtöl og umhverfishljóð njóta sín allan tímann.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR