Morgunblaðið um SUMARLJÓS OG SVO KEMUR NÓTTIN: Persónugallerí Vesturlands

„Hluti af þessari nýju og spennandi stefnu í íslenskri kvikmyndagerð sem felst í því að fanga tilveru mannsins,“ segir Jóna Gréta Hilmarsdóttir hjá Morgunblaðinu meðal annars í fjögurra og hálfs stjörnu umsögn um Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Elfar Aðalsteins.

Jóna skrifar:

Sumarljós og svo kemur nóttin eftir leikstjórann Elfar Aðalsteins er byggð á samnefndri bók eftir Jón Kalman Stefánsson en rithöfundinum bregður stuttlega fyrir í kvikmyndinni sem Antoni leigubílstjóra. Jón Kalman hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2005 fyrir skáldsöguna sem myndin er byggð á.

Sumarljós og svo kemur nóttin er önnur kvikmynd Elfars í fullri lengd á eftir End of Sentence (2019) en hann vakti einnig athygli fyrir stuttmyndina Sailcloth , með John Hurt í aðalhlutverki, árið 2011. Sailcloth var útnefnd til fjölda verðlauna og þ.á m. tilnefnd á stuttlista BAFTA og til Óskarsverðlaunanna.

Sumarljós og svo kemur nóttin er persónusaga og reiðir sig því ekki á söguframvinduna. Þess í stað fylgjum við 11 sögupersónum; þremur pörum, tvennum feðgum og einni konu. Sérstök áhersla er lögð á fjórar sögur sem saman mynda heilsteypta mynd. Allar persónurnar þekkjast og búa í ónefndu sjávarþorpi á Vesturlandi en kvikmyndin var tekin upp á Þingeyri. Kvikmyndin líkist Bergmáli (2019) eftir Rúnar Rúnarsson bæði fagurfræðilega og af því að hún reiðir sig ekki á söguframvinduna.

Í kvikmyndinni er alsjáandi sögumaður. Róandi rödd Vigdísar Grímsdóttur skálds ljær myndinni ljóðrænan blæ. Það er ekki óalgengt að sögumaður sé í kvikmyndaaðlögun en það er ákveðið áhættuspil. Rýni finnst sögumenn yfirleitt bæta litlu við, þeir mati aðeins áhorfendur á upplýsingum. Í einu atriði segir sögumaðurinn eitthvað á þessa vegu: „Og tíminn leið.“ Þessi setning var algjör óþarfi. Sögumaðurinn í Sumarljós og svo kemur nóttin finnst mér hvorki truflandi né bæta nokkru nauðsynlegu við. Eflaust er tilgangur hans að vera einhvers konar hjartsláttur í verkinu, sem er viljandi sundurliðað.

Tæknilega er kvikmyndin glæsileg, kvikmyndataka Davids Williamsons er óaðfinnanleg og hljóðið hjá teyminu til fyrirmyndar. Það hefur greinilega orðið mikil framför í íslenskri kvikmyndagerð síðustu ár hvað varðar hljóð. Áður fyrr lá við að maður þyrfti íslenskan texta til að skilja hvað leikararnir sögðu!

Tvær ólærðar leikkonur leika í myndinni, þær Ebba Guðný Guðmundsdóttir og Anna María Pitt, eiginkona Elfars. Báðar standa sig með prýði og falla vel í hópinn með þjóðþekktum leikurum myndarinnar. Annar nýliði í hópnum er Sigurður Ingvarsson, sem leikur Jónas, en þetta er í fyrsta skipti sem rýnir horfir á eitthvað sem hann leikur í. Jónas, sonur lögreglustjórans, er fíngerður drengur sem tálgar og málar fugla. Það má segja að sú sögupersóna sé nokkuð ljóðræn. Jónas segir fátt í gegnum myndina en nærvera hans er sterk. Persónurnar eru þó missterkar. Saga Elísabetar, konunnar sem dreymir um að verða kokkur, er heldur grunn en leikkonan Heiða Reed vinnur ágætlega úr því. Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Ólafur Darri Ólafsson fara á kostum sem parið Kjartan og Ásdís.

Forstjórinn sem dreymir á latínu og uppgötvar áhuga sinn á stjörnuspeki er einnig virkilega skemmtilegur karakter. Hann reynir að finna svör við spurningum lífsins í stjörnunum og við áhorfendur reynum um leið að uppgötva söguþráðinn í myndinni. Hvor tveggja leitin er vonlaus því svarið er einfaldlega: tilveran.

Sumarljós og svo kemur nóttin er hluti af þessari nýju og spennandi stefnu í íslenskri kvikmyndagerð sem felst í því að fanga tilveru mannsins. Eflaust finnst einhverjum það ekki nógu spennandi og spyrja sig kannski: Af hverju ætti ég að fara í bíó til þess að horfa á eitthvað sem ég upplifi í mínu daglega lífi? Markmið Elfars er að gera áhorfendum eða almenningi ljóst að þeirra sögur eru jafnverðugar og einhvers bardagakappa frá fornöld, í því liggur sjarmi kvikmyndarinnar. Ljóst er að hér er á ferðinni spennandi kvikmyndahöfundur sem gerir sögur okkar að verðugu viðfangsefni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR