Hildur Guðnadóttir heiðruð í Toronto

Hildur Guðnadóttir tónskáld hlýtur heiðursverðlaun á TIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, sem fram fer 8.–18. september.

Verðlaunin, TIFF Variety Artisan Award, eru veitt listafólki sem borið hefur af með framúrskarandi framlagi til kvikmynda- og afþreyingarlistar. Meðal fyrri verðlaunahafa eru Ari Wegner, Terence Blanchard og Roger Deakins.

Hildur hlaut Óskarsverðlaun fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker árið 2019. Fyrir tónlistina hlaut hún fjölda annarra verðlauna, svo sem Golden Globe, BAFTA og Grammy. Meðal annarra verka hennar má nefna tónlistina í Sicario: Day of the Soldado og HBO-þáttunum Chernobyl. Hildur samdi tónlist fyrir íslensku sjónvarpsþáttaröðina Ófærð, kvikmyndina Eiðinn og nú síðast heimildamyndina Út úr myrkrinu.

Tvær bandarískar kvikmyndir eru væntanlegar á árinu, Tár eftir Todd Field og Women Talking eftir Söruh Polley, þar sem Hildur semur tónlistina.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR