Lestin um SVAR VIÐ BRÉFI HELGU: Splunkunýtt og spennandi

„Þessi aðferð, að sýna frekar en segja, einkennir myndina alla; sögunni vindur fram í vandlega völdum augnablikum sem mynda saman merkingarbæra heild,“ segir Guðrún Elsa Bragadóttir gagnrýnandi Lestarinnar um Svar við bréfi Helgu eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur.

Guðrún skrifar:

Ég verð að viðurkenna það að ég var svolítið efins, ef ekki hreinlega óróleg, þegar ég frétti að kvikmyndaaðlögun á Svari við bréfi Helgu væri væntanleg í kvikmyndahús. Ástæður þess eru einfaldar. Eins og þau ykkar sem lesið hafa bók Bergsveins Birgissonar vita þá fjallar hún um ást; ást manns á konu, en ekki síður um fósturjarðarást. Ást bónda á íslenskri sveit (þar fer íslenska sauðkindin auðvitað með aðalhlutverk) og togstreituna sem tilhugsunin um flutning úr sveit í borg vekur í brjósti hans.

Gegnumgangandi í kvikmyndasögu þjóðarinnar eru saklaus, fögur, í allra minnsta lagi strangheiðarleg, sveitasamfélög sem teflt er gegn höfuðborginni Reykjavík, með öllu sínu rokki og róli, svo ekki sé minnst á erlendu prjónablöðin. Nægir hér að nefna Síðasta bæinn í dalnum (Ævar Kvaran, 1950), 79 af stöðinni (Eric Balling, 1962), Land og syni (Ágúst Guðmundsson, 1980), Atómstöðina (Þorsteinn Jónsson, 1984), Börn náttúrunnar (Friðrik Þór Friðriksson, 1991) og Óðal feðranna (Hrafn Gunnlaugsson, 1980), þótt það halli kannski frekar á sveitina í þeirri síðastnefndu.

Svo ég haldi aðeins áfram að ræða kvikmyndaumhverfið íslenska, þá virðumst við ekki geta staðist freistinguna að fjalla um bændur á sama hátt og Bandaríkjamenn elska að segja sögur af þokkadísum í kynlífsvinnu og vöðvatröllum með byssur. Hér neita ég því ekki að fjöldi Íslendinga séu bændur, en við verðum samt að horfast í augu við þá staðreynd að iðnaðarmenn eru alla vega fjórum sinnum fleiri en bændurnir hér á landi, þrátt fyrir merkjanlegan skort á kvikmyndum um þá ágætu stétt.

Því hlýtur það að vera flókið verkefni að gera kvikmynd um íslenskan bónda á 21. öldinni; hvernig er hægt að fjalla um togstreitu milli sveitar og borgar, sýna allt þetta landslag og skepnurnar sem það byggja, án þess að það verði óbærilega klisjukennt? Svar við bréfi Helgu færir okkur að minnsta kosti eitt svar við þeirri spurningu.

Treystir áhorfanda og sýnir frekar en að segja
Það er nefnilega með mikilli gleði sem ég vil hvetja ykkur, kæru hlustendur, til að bregða undir ykkur betri fætinum og fara í bíó á Svar við bréfi Ásu Helgu Hjörleifsdóttur—sér í lagi ef þið hafið áhuga á kvikmyndum og þeim eiginleikum miðilsins sem virkja má til að miðla frásögn og hughrifum.

Einn stærsti kostur myndarinnar er frammistaða leikaranna, sem gæða sögupersónur lífi með afar sannfærandi hætti. Þorvaldur Davíð Kristjánsson fer með hlutverk Bjarna, bóndans sem býr á Kolkustöðum með eiginkonu sinni, Unni, sem Aníta Briem leikur með harmrænum þunga sem litar hverja hreyfingu hennar inni á hamingjusnauðu heimili. Hera Hilmarsdóttir fer með hlutverk Helgu, konu sem býr á næsta bæ með börnum sínum og eiginmanni Hallgrími, sem Björn Thors túlkar á eftirminnilega grátbroslegan hátt í myndinni. Hjónin á bæjunum tveimur eru óhamingjusöm, hvert á sinn hátt, og svo ólukkulega vill til að Helga og Bjarni verða ástfangin, dragast hvort að öðru og upplifa óstjórnlega hamingju saman, þótt það vari kannski ekki lengi. Heru og Þorvaldi Davíð tekst að miðla sterkum og oft flóknum tilfinningum í líkamlegri nánd sem ég man ekki eftir að hafa orðið vitni að áður í íslenskri kvikmynd.

Það getur ekki verið auðvelt að aðlaga bók eins og Svar við bréfi Helgu, ekki bara vegna þess að hún fjallar um bónda í tilvistarkrísu. Frásögnin í verki Bergsveins Birgissonar er kannski grípandi en galdurinn býr í stílnum. Höfundur treystir lesendum til að meðtaka tyrfið tungutak, orðfæri sem hlýtur að vera framandi borgarbörnum og miðbæjarrottum sem aldrei hafa hitt forðageymslumenn á vegferð sinni um Mjódd og Hamraborg, aldrei fengið „Facebook invite“ á töðugjöld á meðan þau sötra bjórinn sinn á Prikinu.

Þetta traust Bergsveins endurspeglast í trausti Ásu Helgu á áhorfendum. Í stað þess að láta kvikmyndina lúta lögmálum bókenntaverksins þýðir hún texta verksins yfir á kvikmyndatungumál og sýnir frekar en segir okkur hvað sé nákvæmlega að gerast. Tungumálið hefur nefnilega annars konar virkni í kvikmynd en í bók. Setning sem er eðlileg í fyrstu persónu frásögn í formi sendibréfs yrði undarleg úr munni persónu í kvikmynd, sem er einhvern veginn alltaf hér og núna. Auðvitað væri alltaf hægt að nota sögumannsrödd sem færi með hugrenningar gamla mannsins á meðan senurnar liðu áfram frammi fyrir augum okkar, en þá væri kvikmyndin ekkert annað en myndskreyting við texta, og þar með óþörf, dýrkeyptur útúrdúr við fullbúið verk.

Þessi aðferð, að sýna frekar en segja, einkennir myndina alla; sögunni vindur fram í vandlega völdum augnablikum sem mynda saman merkingarbæra heild. Þegar myndin er svo til nýbyrjuð sjáum við fólkið í sveitinni á réttarballi, en bæði Bjarni, bóndinn á Kolkustöðum, og Helga, sem býr á næsta bæ við hann, hafa brugðið sér afsíðis hvort í sínu lagi. Þau mætast fyrir tilviljun og rölta til baka í partýið saman, án þess að átta sig á því hvernig það kunni að líta út. Aðrir ballgestir taka þó eftir því og byrja að stinga saman nefjum, ef vel er að gáð. Augnagoturnar gefa vísbendingu um það sem verður skýrara í næstu senu, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér persónulega, þegar leshringurinn á staðnum rýnir alvörugefinn í ástarsamband persóna í skáldsögunni Pan eftir Knut Hamsun, en eru bersýnilega að tala um það sem þau halda að sé að gerast á milli Bjarna og Helgu.

Býr til eitthvað splunkunýtt og spennandi
Það sem er mest sláandi við stíl myndarinnar er hvernig myndfléttur eru notaðar til að miðla framvindu sögunnar, dýnamík milli persóna og sögusviðinu sjálfu. Þrisvar sinnum fylgjumst við með persónum í gegnum skot sem klippt er á milli til að draga fram aðstæður þeirra og tilfinningar á meðan tónlist tekur yfir hljóðrás myndarinnar. Fyrst þegar Helga og Bjarni hafa tekið saman fylgjumst við með ástaratlotum þeirra, sársaukafullum veruleika Unnar og þrúgandi andrúmsloftinu milli kvennanna sem geta ekki forðast hvor aðra í svo lítilli sveit, þótt þær fegnar vildu. Næst fangar myndfléttan það sem gerist eftir að Helga verður ólétt og segir Bjarna að hún vilji flytja með honum til Reykjavíkur. Helga og Unnur horfast í augu við veruleikann eftir bestu getu, hvor á sínu heimilinu, á meðan Bjarni flýr þær báðar og gefur sig á vald tilfinninga, og því sem ekki verður hjá komist að kalla sjálfhverfu, úti í náttúrunni sem hann elskar að öllum líkindum meira en þær báðar, þegar upp er staðið. Að lokum fáum við myndfléttu sem dregur fram afleiðingarnar af ákvörðun Bjarna um að vera um kyrrt, ákvörðun var kannski tekin með ákveðnu afstöðuleysi eða kyrrstöðu, og sem framtíðin sem hann hefði getað átt með ástinni sinni og dóttur verður honum og okkur áhorfendunum ljós, þegar allt er um seinan.

Eins og þessi lýsing á myndmáli Svars við bréfi Helgu gefur til kynna, þá er kvikmyndin mjög frábrugðin skáldsögunni. Því vil ég enda þennan pistil með því draga athygli að því hversu vel Ásu Helgu tekst að aðlaga bókmenntaverk sem er skrifað að öllu leyti frá sjónarhorni karlmanns sem er einn til frásagnar um þessa miklu og flóknu ástarsögu þótt lesandi geti vitaskuld lesið á milli línanna og túlkað að vild. Þegar ég leit aftur í bókina eftir að hafa séð myndina í fyrsta sinn, sló það mig hversu ólíkur tónn verkanna tveggja er. Ef kvikmyndin hefði miðlað bréfinu hans Bjarna með beinum hætti, án þess að víkka söguna út og dýpka kvensöguhetjurnar tvær, er hætt við að afraksturinn hefði orðið enn önnur túlkunin á hvatalífi eldri karlmanns, karllægt sjónmál í sinni stórkostlegustu mynd. Það sem er frumlega gert í bók getur nefnilega orðið klisjukennt í kvikmynd. Blessunarlega tekst þessari kvikmynd þó að gera eitthvað alveg splunkunýtt og spennandi úr efni sem hefði svo auðveldlega getað orðið óinnblásið tilbrigði við gamalt og þreytulegt stef.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR