Börkur Gunnarsson tekur við af Friðrik Þór sem rektor Kvikmyndaskólans

Börkur Gunnarsson leikstjóri og handritshöfundur hefur verið settur rektor Kvikmyndaskóla Íslands frá 1. september til áramóta. Friðrik Þór Friðriksson sem verið hefur rektor Kvikmyndaskóla Íslands síðastliðin fimm ár mun láta af störfum 1. september næstkomandi.

Í tilkynningu frá skólanum segir:

Friðrik Þór hefur á þessu tímabili leitt stórstígar og margvíslegar framfarir. Skólinn flutti í nýtt framtíðarhúsnæði að Suðurlandsbraut 18 með frábærri aðstöðu fyrir allt skólahald. Árangur útskriftarmynda síðastliðin ár hefur verið mjög góður með fjölda viðurkenninga víðsvegar um heiminn og útskrifaðir nemendur hafa sett mark sitt á stórfellda uppbyggingu kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðar hér á landi.

Ein stærsta viðurkenningin var þegar hinn heimsfrægi Julliard listaskóli í New York óskaði eftir samstarfi við Kvikmyndaskólann um gerð kvikmyndatónlistar við valdar útskriftarmyndir. Frá árinu 2020 hefur verið unnið að yfirfærslu skólans á háskólastig og nú í haust hefur skólinn hafið störf sem fullburða rannsóknarháskóli. Friðrik Þór er ennþá virkur í kvikmyndaframleiðslu og hyggst snúa sér að fullum krafti að kvikmyndagerð.

Börkur Gunnarsson fagstjóri í Deild 3 (leikstjórn og handrit) hefur verið settur rektor frá 1. september til 1. janúar. Auglýsing um nýjan rektor verður birt á evrópska efnahagssvæðinu um næstu mánaðamót og stefnt er að því að ráðningu verði lokið 10 nóvember og að nýr rektor hefji störf á vormisseri.

Börkur Gunnarsson er menntaður í kvikmyndagerð frá hinum virta FAMU í Tékklandi, í tékknesku deildinni. Hann hefur að auki próf í heimspeki frá Háskóla Íslands og er að ljúka MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík. Börkur hefur verið mjög virkur bæði sem kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur síðastliðna áratugi. Hann hefur kennt reglulega við Kvikmyndaskólann í gegnum tíðina en frá árinu 2020 hefur hann verið fagstjóri í handritagerð þar sem hann hefur náð mjög góðum árangri.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR