Guðmundur Arnar Guðmundsson: Við áttum ekki að sýna veikleika

Guðmundur Arnar Guðmundsson veigrar sér ekki við að taka á viðkvæmum málum í nýrri kvikmynd sinni, Berdreymi. Hann fer vítt um völl í viðtali við Björk Eiðsdóttur hjá Fréttablaðinu og ræðir meðal annars um skólakerfi sem þrengi að skapandi hugsun, innsæi, andleg málefni og eitraða karlmennsku.

Á vef Fréttablaðsins segir:

Guðmundur Arnar leitar töluvert í eigin reynslu í handritsskrifum og eru unglingsárin í Árbænum innblástur í nýjasta verki hans sem frumsýnt var í gær.

„Það er þó mikilvægt að taka skýrt fram að þó sagan sé innblásin af unglingsárum mínum í Árbænum, þá er hún skáldskapur, í myndinni gerast hlutir sem gerðust ekki í alvörunni,“ segir Guðmundur sem vill ekki að fólk líti yfir vinahóp hans frá unglingsárunum og hugsi með sér að atburðir myndarinnar hafi komið fyrir þennan eða hinn.

Guðmundur fæddist árið 1982 og sleit barns- og unglingsskóm sínum að mestu í Árbænum.

„Ég fékk frjálst uppeldi hjá ungum foreldrum sem lögðu mikið upp úr því að rækta skapandi hugsun hjá okkur systkinunum. Álfatrú, galdrar og ævintýri var allt eitthvað sem var raunverulegt í okkar barnæsku. Þetta breyttist þegar skólagangan hófst því þá var ég kominn inn í kerfi sem var formfastara og oft var verið að leiðrétta hvað væri rétt og hvað ekki.“

„Ég fékk frjálst uppeldi hjá ungum foreldrum sem lögðu mikið upp úr því að rækta skapandi hugsun hjá okkur systkinunum.”

Fyrstu árin gekk hann í Ártúnsskóla og upplifði fljótlega að skólinn og kerfið þrengdi að honum.

„Ég var með ógreinda lesblindu og átti oft erfitt með að halda einbeitingu og vera vakandi í tímum. Að sitja kyrr í stól hálfu og heilu dagana er ekki eðlilegt fyrir krakka og eina leiðin fyrir mig til að fylgjast með kennslustundum var að loka augunum og vera hálfsofandi eða í slökun. Þannig hlustaði ég á kennarann, eða með því að teikna á borðið og gera eitthvað skapandi.

En þar sem ég var alltaf með fínar einkunnir var það aldrei greint sem lesblinda eða eitthvað slíkt, bara hegðunarvandamál.“

Upplausnarástand í grunnskóla

Guðmundur segir stundum hafa verið auðveldara að láta reka sig úr tíma til að fá smá frí og geta hlaupið um ganginn.

„Fá þannig útrás í augnablik þrátt fyrir að enda síðan hjá skólastjóranum. Í sjöunda bekk var ég þó búinn að mála mig út í horn og þegar Árbæjarskóli var fram undan ákvað ég að það væri tækifæri til að snúa við blaðinu. Mig langaði að fá að vera í friði í skólanum og þá sérstaklega frá neikvæðri athygli.“ segir Guðmundur og bendir á hversu mótandi áhrif skólinn hafi enda verji unglingar þar oft meiri tíma en innan veggja heimilisins.

„Mig langaði að fá að vera í friði í skólanum og þá sérstaklega frá neikvæðri athygli.“

En friðinn fann hann ekki í nýjum skóla.

„Frá fyrsta tíma í Árbæjarskóla fann ég að fókus kennaranna var á mér og strákum í sömu stöðu og komst að því að okkur fylgdi umsögn frá fyrri skóla. Þetta væru vandræðastrákarnir. Við minnsta tilefni vorum við sendir til skólastjórans,“ rifjar hann upp og segir að viðtökurnar hafi orðið til þess að uppreisn drengjanna hafi orðið stærri.

„Nýr, ungur skólastjóri var að taka við á þessum tíma og ætlaði hann að taka hart á málum. Þá var einfaldlega tekið harðar á honum og skólanum sjálfum til baka. Þetta varð upplausnarástand.

Það var rosalega mikil slagsmálamenning í skólanum og þó pottþétt bara um 20 til 30 prósent strákanna hafi tekið þátt í því, upplifði maður það sem normið. Það versta sem hægt var að gera var að sýna einhverja veikleika því þá gat maður orðið skotmark annarra. Maður þurfti að sýna að maður væri tilbúinn að slást, þótt maður vildi það ekki og væri dauðhræddur.“

„Maður þurfti að sýna að maður væri tilbúinn að slást, þótt maður vildi það ekki og væri dauðhræddur.“

Mættu með hjálma og kylfur

Guðmundur rifjar upp þegar jafnaldri í unglingavinnunni ætlaði að taka hann fyrir.

„Ég vildi ekki að vinir mínir kæmust að því, enda vissi ég að þá myndu þeir mæta.“ Þeir komust þó að útistöðunum og sögðu Guðmundi að vera heima frá vinnu einn daginn og hann hlýddi.

„Þegar ég svo mætti aftur í vinnuna degi seinna, fann ég að þessi strákur var rosa sorrí og vaktstjórarnir sem voru bara ungar konur voru augljóslega smeykar.“ Guðmundur komst þá að því að vinir hans höfðu mætt á vinnustaðinn þegar hann var heima.

„Þeir mættu á skellinöðrum með hjálma og kylfur og lömdu strákinn. Það héldu allir að þetta hefði verið ég og urðu hræddir við mig,“ segir Guðmundur sem ákvað að leiðrétta ekki þann misskilning. „Menningin í Árbænum var oft svona.“

„Þeir mættu á skellinöðrum með hjálma og kylfur og lömdu strákinn. Það héldu allir að þetta hefði verið ég og urðu hræddir við mig.“

Upplifa skömm seinna meir

Guðmundur segir flesta þá stráka sem hafi tekið þátt í þessari menningu upplifa skömm þegar þroskinn færist yfir.

„Þá fattar maður hvernig maður er búinn að láta. Í kringum tvítugt hafði ég upp á þeim sem mér fannst ég hafa komið illa fram við, til að gangast við því.“

Guðmundur segir viðbrögðin hafa verið margvísleg, sumir þökkuðu honum, aðrir könnuðust ekki við að hann hefði gert þeim eitthvað og töldu það jafnvel á hinn veginn og enn aðrir voru ekki vissir um að þeir vildu fyrirgefa honum, sem hann bendir á að þeir eigi alveg rétt á.

Eftir að foreldrar Guðmundar skildu ólst hann upp hjá móður sinni, stjúpföður og tveimur eldri systrum.

„Stjúpfaðir minn var sjómaður með stóíska ró og hjartahlýr en vegna vinnu var hann mikið í burtu og móðir mín gerði sitt besta með þrjá unglinga heimilinu.“

Það var fyrir fermingu að Guðmundur eignaðist umræddan, þá nýjan vinahóp og segir móður sína hafa reynt að banna honum að umgangast ákveðna aðila.

„Hún sá að við ýttum ekki undir jákvæða hegðun hjá hver öðrum. En þegar ég horfi til baka á þennan hóp þá vorum við líka bara mjög ævintýragjarnir og skapandi. Það var það sem dró mig að þeim,“ rifjar hann upp.

„Á þeim tíma var krökkum skipt upp í tossa og þá sem gátu lært. Okkar hópur var blandaður, sumum gekk vel en aðrir voru álitnir tossar, strákar sem voru kannski rosa klárir en með ógreinda lesblindu og annað. Við sáum að þeir gátu fundið út úr hlutum sem aðrir gátu ekki.“

Hollustukerfið í strákahópnum

„Í svona strákahóp myndast hollustukerfi og hluti af því er að styðja hvern annan. Það vantaði eflaust upp á stuðninginn heima hjá mörgum. Þó að móðir mín hafi gert allt sem hún gat þá vann hún mikið auk þess að vera í námi.

Við urðum því svolítið stuðningur hver fyrir annan. Ef einhver lenti í vandræðum þá átti að bakka hann upp: Það var aldrei spurning um hvort maður yrði með í því.

Við gerðum hluti sem við áttum ekki að gera, en ég vissi alltaf að ég gæti treyst á þessa stráka og þeir myndu vaða eld og brennistein fyrir mann, þó aðrir krakkar horfðu kannski á þá sem algjöra vitleysinga.“

„Ef einhver lenti í vandræðum þá átti að bakka hann upp: Það var aldrei spurning um hvort maður yrði með í því.”

Þegar Guðmundur lítur til baka segist hann sjá að hann hafi haft þörf fyrir að auka jafnvægið innan hópsins.

„Ég var alltaf að taka inn stráka sem áttu kannski enga vini eða voru lagðir í einelti. Stráka sem kunnu ekkert að slást né langaði og þá myndaðist ákveðinn balans.

Ég veit að hinir strákarnir höfðu líka þörf á því að það væri ekki bara þessi harðkjarnamenning heldur blönduð menning.“

„Það sem var skrítið við þennan hóp er að sá sem var sterkastur og mesti slagsmálahundurinn hafði líka mestu þörf fyrir nánd og var með minnstu hómófóbíuna af okkur öllum. Þetta er ekki svart og hvítt. Hann var mjög mjúkur og góður strákur líka.“

Óhugsandi að halda áfram í skóla

Guðmundur segir strákana að mörgu leyti hafa vantað stefnu.

„Tilhugsunin um að halda áfram í skólakerfinu langt fram eftir fullorðinsaldri var í raun óhugsandi þegar við höfðum upplifað í mörg ár að það kerfi væri ekki fyrir okkur.“

Listin heillaði Guðmund en lítið var um skapandi greinar í námsskránni.

„Ég man eftir að hafa sótt um í leiklistarvali, fann þörfina til þess að komast út úr hlutverkinu sem ég var í en fékk ekki pláss. Ég var góður að teikna og gat gleymt mér í að skrifa sögur en það var aldrei inni í myndinni að maður gæti lifað á því að vera listamaður eða kvikmyndagerðarmaður enda var kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi svo lítill.“

Annað var uppi á teningnum hjá systrum hans sem Guðmundur horfði á úr fjarlægð skrifa ljóð og mála málverk og viðurkenndi ekki fyrir neinum að þetta væri það sem hugur hans kallaði eftir.

„Síðan um 18 ára aldurinn dró ég besta vin minn með mér inn á stofnfund áhugaleiklistarfélags í Iðnskólanum og þá var í raun ekki aftur snúið fyrir mig.

Ég heillaðist af leiklist, ljósmyndun, skrifum og nánast öllum listformum. Frelsið og það að geta gleymt sér í ljóðrænum heimi var svo fallegt. Þegar ég svo horfði á mynd eftir kínverska leikstjórann Wong Kar Wai, Fallen Angel, áttaði ég mig á því að til var eitt listform sem sameinaði öll þau sem ég hefði áhuga á og það var kvikmyndaformið.“

Neitað í kvikmyndaskóla

Guðmundur fór í myndlist í Listaháskólanum og gerði tilraunakenndar stuttmyndir.

„Ég reyndi svo að komast í kvikmyndaskóla en fékk alltaf neitun.“

Guðmundur kynntist Rúnari Rúnarsyni leikstjóra sem tók hann í starfsnám og hvatti hann áfram.

„Rúnar sagði eitt sinn við mig setningu sem var rosalega sárt að heyra en þörf á þeim tíma. Eftir að hann hafði hitt mig margsinnis og ég var alltaf á leiðinni að fara gera mína fyrstu leiknu stuttmynd eftir handriti, sagði hann við mig að sumir töluðu um að gera stuttmyndir og aðrir gerðu þær. Það væri munurinn á þeim sem vildu og væru leikstjórar.“

„Ég reyndi svo að komast í kvikmyndaskóla en fékk alltaf neitun.“

Setningin stakk Guðmund og hann fann að hún átti við hann.

„Ég ákvað þá að drífa mig af stað og gerði Hvalfjörð sem var frumsýnd á Cannes og vann þar til verðlauna og opnaði möguleikann fyrir mig að gera mína fyrstu mynd í fullri lengd.“

Fullorðnir vissu lítið um okkur

Árið 2016 kom út kvikmyndin Hjartasteinn eftir Guðmund og fjallar einnig um unglingsdrengi og vakti hún mikla athygli. En hvers vegna ætli þetta tímabil sé honum svo hugleikið?

„Ég átti mjög litríka barnæsku og unglingsár og upplifði mig oft sem áhorfanda á vini mína og fullorðið fólk. Ég var mjög meðvitaður um hversu tvískiptur heimur unglinga og fullorðinna var. Í raun vissu fullorðnir mjög lítið um okkar heim.

Ég man vel eftir því þegar heimur fullorðinna opnaðist fyrir mér og þau fóru að tala saman fyrir framan mig eins og þau gerðu þegarengin börn voru nærri. Ég var hissa á því að fullorðið fólk skildi haga sér svona. Þegar ég fór að heyra fullorðna menn tala saman og hugsaði: „Þetta er bara eins og við tölum og ég er 16 ára og þeir fimmtugir.“

„Ég man vel eftir því þegar heimur fullorðinna opnaðist fyrir mér og þau fóru að tala saman fyrir framan mig eins og þau gerðu þegarengin börn voru nærri.”

Hegðunin mátti ekki smitast

Þegar Guðmundur fór að skrifa leitaði hann ítrekað í fjársjóðskistu unglingsáranna.

„Maður þarf smá fjarlægð til að átta sig á því hversu mikill efniviður er í umhverfinu.

Það var árið 2017 sem Guðmundur byrjaði að skrifa söguna á bak við Berdreymi og hefur ferlið frá fyrstu blaðsíðu að frumsýningu því verið fimm ár. Umfjöllun í Kastljósi RÚV í september 2020 um að ofbeldi unglinga á milli hefði aukist á árunum 2014 til 2018 varð til þess að Guðmundur fann fyrir auknu mikilvægi myndarinnar.

„Þannig tengdist hún unglingum í dag enn frekar.“

Guðmundur segist hafa dreymt fyrir skýrum hlutum og treystir innsæi sínu vel enda búinn að þjálfa það upp frá því í kringum tvítugt. Fréttablaðið/Valli
Það eru fjórir ungir drengir sem bera myndina uppi ásamt fleiri aukaleikurum af báðum kynjum. Hópurinn fékk sex mánaða þjálfun og undirbúning svo ferlið hefur bæði verið langt og strangt.

„Þetta er heildarpakki, við erum að kenna þeim leiklist og viljum að þetta sé uppbyggilegt og skemmtilegt en þetta er líka vinna sem þarf að taka alvarlega. Við setjum stífar reglur um að allir þurfi að vera vinir og ef einhver virðir það ekki er hann látinn fara. Þetta er mikið agaferli og hentar betur krökkum sem hafa lært það af til dæmis íþróttum, að undirbúningur skilar seinna árangrinum,“ segir hann.

„Þessir strákar sem leika í myndinni eru ólíkir karakterum sínum, enda myndu þessir karakterar aldrei mæta í prufu,“ segir hann í léttum tón. „En hegðun karakteranna mátti ekki smitast til leikaranna og um leið og kameran hætti að rúlla var mikilvægt að þeir væru orðnir þeir sjálfir. Það mátti ekki taka neitt á milli. Við erum með krakka á viðkvæmum aldri sem eru ekki leikarar og því þarf að kenna þeim og halda vel utan um þá.“

Lengra í land hjá körlum

Kynferðisofbeldi er tekið fyrir í myndinni og segist Guðmundur hafa viljað hafa það í handritinu enda sé það enn oft tabú fyrir stráka að ræða slíkt.

„Ég veit um stráka sem lentu í slíku án þess að það væri nokkurn tíma talað um það. Það er mannskemmandi og þeir þurftu að reka sig á veggi fullorðnir. Það er svo frábært að það sé farið að ræða þessa hluti og MeToo er að breyta viðhorfum okkar. En ég held að enn sé skömmin meira farin hjá konum og enn sé lengra í land hjá körlum.“

„Ég veit um stráka sem lentu í slíku án þess að það væri nokkurn tíma talað um það. Það er mannskemmandi og þeir þurftu að reka sig á veggi fullorðnir.”

Talið berst að eitraðri karlmennsku, hugtaki sem hefur verið töluvert í umræðunni hér á landi og erlendis en Guðmundur vildi óska þess að til væri betra nafn yfir hugtakið.

„Mér finnst ekki rétt að setja orðið karlmennska við hlið orðsins eitrað því mörkin þar á milli verða oft mjög óljós í umræðunni og ekki alltaf á uppbyggilegan máta fyrir unga stráka.

Kannski er það vegna þess að ég er alinn upp hjá mjög femíniskri móður og tveimur systrum, en það sem hefur stuðað mig í þessari umræðu er hvernig karlmennska og karlmenn almennt eru settir í neikvætt samhengi, eins og að eðli okkar sé neikvætt.”

„Mér finnst ekki rétt að setja orðið karlmennska við hlið orðsins eitrað því mörkin þar á milli verða oft mjög óljós í umræðunni og ekki alltaf á uppbyggilegan máta fyrir unga stráka.”

„Eftir tíu ár er ég orðinn miðaldra hvítur karlmaður sem er orðið að níðyrði. Mér finnst það sjúkt fyrir samfélagið að það að vera miðaldra hvítur karlmaður sé eitthvað til að skammast sín fyrir. Mér finnst það ómannlegt.“

Áttum ekki að sýna veikleika

Að því sögðu bætir Guðmundur við að hann hafi alist upp í samfélagi sem var stútfullt af gildum sem falli undir hugtakið.

„Ekki síst þegar kom að því að ræða tilfinningar, samfélagslega áttum við sem strákar ekki að sýna veikleika. Ég þurfti alveg að venja mig á það í samböndum við fyrrverandi kærustur, og núna unnustu mína, að tala um tilfinningar án þess að upplifa að ég væri að gera eitthvað rangt. Ég á enn smá erfitt með að opna mig alveg, það kemur ekki alltaf náttúrlega og þarf stundum meðvitaða ákvörðun.“

„Ég þurfti alveg að venja mig á það í samböndum við fyrrverandi kærustur, og núna unnustu mína, að tala um tilfinningar án þess að upplifa að ég væri að gera eitthvað rangt.”

Guðmundur á son á níunda ári, þriggja ára dóttur og fimmtán ára stjúpdóttur. Hann segist leggja sig fram um að ræða tilfinningar við börnin sín og sérstaklega son sinn.

„Það kemur mér oft á óvart hversu góður hann er í þessu og það er móður hans sérstaklega að þakka.“

Hefur dreymt fyrir hlutum

Andleg málefni, berdreymi og innsæi eru ákveðið stef í myndinni og segir Guðmundur slíkt alltaf hafa fylgt sér.

„Við systkinin erum alin upp við að draumar og innsæi væri mikilvægur hlutur að læra inn á og er gífurlega þakklátur fyrir það núna.“

Guðmundur bendir á að slík trú sé algengari en margir telji, eins og komið hafi fram í könnun félagsvísindasviðs Háskóla Íslands um málefnið árið 2008.

„Þar kemur fram að 40 prósent þjóðarinnar sögðust hafa upplifað það að vera berdreymin og 60 prósent þjóðar hafi skynjað hluti sem síðan gerðust. Ég held að blessunarlega séu Íslendingar tengdari þessum hluta af sér og það er afar jákvætt.“

„Mig hefur dreymt fyrir skýrum hlutum en það þýðir ekki að allir draumar hafi þýðingu. Skýrasta svona dæmið er líklega þegar ég var nýbúinn með Hjartastein og vaknaði upp klukkan fjögur um nótt með þessa sterku tilfinningu um að ég yrði að hringja í mömmu.“

„Mig hefur dreymt fyrir skýrum hlutum en það þýðir ekki að allir draumar hafi þýðingu.”

Guðmundur segist hafa túlkað tilfinninguna sem órökrétta enda mið nótt og því hafi hann reynt að sofna bara aftur en ekki tekist.

„Þetta togaði í mig. Ég hringdi svo í mömmu sem svaraði ekki svo ég reyndi aftur að sofna án árangurs. Á endanum fór ég út í bíl og keyrði heim til hennar.“

Þegar Guðmundur kom að húsi móður sinnar um blánóttina sá hann hvernig rauk úr kjallaranum.

„Þá hafði hitavatnsrör sprungið og heitt vatn flætt um allt. Ég vakti þá mömmu sem var steinsofandi. Það hefði allt eyðilagst ef ég hefði ekki komið.

Ég er ekki að vakna um miðja nótt og finna svona án ástæðu.“

„Ég vakti þá mömmu sem var steinsofandi. Það hefði allt eyðilagst ef ég hefði ekki komið. “

Guðmundur trúir og treystir innsæinu sem hann segir okkur öll geta þjálfað.

„Til að tengjast innsæinu er mikilvægt að vera samkvæmur sjálfum sér. Hluti af því er að vera ekki í óreglu og passa til dæmis vel upp á svefninn.“

Guðmundur leitaði aftur í æskuár sín til að skapa sögu sinni vettvang og ramma en leyfði svo skáldskapnum að fylla í eyðurnar. Á tímum þar sem karlmennskan er í ákveðinni endurskilgreiningu og ungir strákar eiga oft erfitt með að fóta sig á mótum töffaraskapar og tilfinninga, er mikilvægasta stefið líklega vinátta, kærleikur og samstaða.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR