Fréttablaðið um BERDREYMI: Töfra­raun­sæi í borg óttans

Þorvaldur S. Helgason segir í Fréttablaðinu að Berdreymi Guðmundar Arnars Guðmundssonar sé einstaklega áhrifarík mynd sem mun án efa vekja athygli bæði innan sem utan landsteinanna.

Þorvaldur skrifar:

Berdreymi er nýjasta mynd leikstjórans Guðmundar Arnar Guðmundssonar sem vakti mikla athygli fyrir frumraun sína Hjartastein 2016.

Í Berdreymi fetar Guðmundur svipaðar slóðir, hér er reynsluheimur íslenskra ungmenna í forgrunni, sögusviðið er Ísland á óræðum tíma, auk þess sem áföll og fjölskylduharmleikir eru alltumlykjandi.

Þó kveður hér við nýjan tón í höfundaverki Guðmundar, sveitin víkur fyrir borgarlandslagi og þótt myndin gerist í raunveruleikanum þá svífur töfraraunsæi yfir vötnum.

Myndin segir frá unglingsstráknum Adda (Birgir Dagur Bjarkason) sem er alinn upp af einstæðri móður með skyggnigáfu (Aníta Briem). Addi ver dögunum í strákapör með vinum sínum Konna (Viktor Benóný Benediktsson) og Sigga (Snorri Rafn Frímannsson), villingar með hjarta úr gulli.

Einn dag ákveður Addi að bjóða Balla (Áskell Einar Pálmason) inn í vinahópinn, strák sem kemur frá brotnu heimili og lent hefur í einelti. Með strákunum tekst djúp vinátta sem markast af miklu ofbeldi og brátt tekur Addi sjálfur að upplifa yfirnáttúrulegar skynjanir.

Berdreymi er átakanlegt en listilega vel smíðað verk. Klipping og kvikmyndataka er nánast óaðfinnanleg og myndin flæðir áfram eins og vel sviðsettur dans. Þá eru á nokkrum stöðum í myndinni tæknibrellur sem ýta undir yfirskilvitleg umfjöllunarefnin en eru nógu smekklega gerðar án þess að vera yfirþyrmandi.

Nokkrir af þekktari leikurum landsins fara með stuðningshlutverk í myndinni. Aníta Briem skilar hlutverki sínu sem móðir Adda einkar vel auk þess sem Ólafur Darri er mjög sannfærandi sem ofbeldisfullur stjúpfaðir Balla.

Stjörnur myndarinnar eru þó strákarnir fjórir. Leikur þeirra er bæði náttúrulegur og lifandi og tengingin á milli þeirra félaga greinilega sterk. Þessir ungu menn eiga augljóslega allir framtíðina fyrir sér í leiklistinni og eiga hrós skilið fyrir jafn sterka frammistöðu í mynd sem fjallar um svo átakanleg málefni. Eina lýtið er að þeir eru á tíðum svolítið óskýrmæltir sem kemur aðeins niður á textaflutningnum.

Berdreymi fjallar um mjög alvarlega hluti á borð við heimilisofbeldi, einelti, áfengis- og eiturlyfjafíkn og kynferðislega misnotkun. Handritið og leikstjórnin nálgast þessi umfjöllunarefni að mestu leyti af virðingu en undirritaður verður þó að setja spurningarmerki við þá tilhneigingu íslenskra kvikmyndagerðarmanna að nota kynferðisofbeldi gegn börnum sem söguframvindu í verkum sínum en það hefur verið gert í nokkrum nýlegum íslenskum kvikmyndum. Að því undanskildu verður þó að segjast að Berdreymi er einstaklega áhrifarík mynd sem mun án efa vekja athygli bæði innan sem utan landsteinanna.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR